Gríðarleg fækkun skjálfta og gos undir jökli
5.9.2014 | 09:31
Þróun gosvirkninnar við norðanverðan Vatnajökul má taka saman í eftirfarandi:
- Skjálftum hefur stórlega fækkað
- Berggangurinn ryðst ekki lengur til norðurs heldur hefur numið staðar
- Vegna berggangsins eru flestir skjálftar undir norðanverðum Dyngjujökli
- Skjálftavirkni hefur aukist í Herðubreiðartöglum og norðan Herðubreiðar
Líklega eru næstu atburðir þeir að gossprungan lengist til suðurs eða það hreinlega taki að gjósa undir Dyngjujökli, þar sem hann er innan við 150 m þykkur. Afleiðingin verður hlaup í Jöklu, þó miklu minna en ef gjósa myndi sunnar þar sem jökullinn er þykkari.
Myndin til hægri sýnir fjölda skjálfta síðustu tvo daga í Dyngjujökli og á flæðunum. Inn á myndina hefur verið merkt rautt strik þar sem skjálftarnir eru hvað þéttastir undir jöklinum. Þar er hugsanlegt að gjósi.
Önnur myndin sýnir fjölda skjálfta eins og þeir voru fyrir viku, laugardaginn 30. ágúst. á þessum tveimur myndum er gríðarlegur munur.
Skjálftum hefur fækkað en nú er kominn einhvers konar sigdalur sem liggur því sem næst eins og skjálftaþyrpingin sýnir á neðri myndinni.
Þegar rýnt er í háloftamyndir af svæðinu má sjá að sigdalurinn er á þekktum slóðum. Áður en hann varð til voru þarna sums staðar greinilegar brotalínur sem bendir til að jarðskorpan sé veik og hafi þar af leiðandi sigið þegar berggangurinn breikkaði. Brotlínur sigdalsins fylgja að minnsta kosti að hluta þessum gömlu sprungum.
Núna vekur athygli að berggangurinn er sagður vera mun nær yfirborði, rúmlega einn km en var áður sagður á fimm km dýpi.
Fyrir utan atburði í Bárðarbungu vekur það athygli leikmannsins hversu mikill órói er austan við Öskjuop og í Herðubreiðartöglum. Jarðvísindamenn vilja helst ekki ræða þetta opinberlega enda eflaust ekki ljóst hvort eða hvernig þetta tengist bergganginum og umbrotum í Bárðarbungu. Hins vegar verður forvitnilegt að fylgjast með atburðum þarna.
Á kortinu hér til hægri eru merktir þeir skjálftar sem orðið hafa frá því síðasta sunnudag og það kemur frá Veðurstofu Íslands rétt eins og gögnin sem myndirnar tvær hér fyrir ofan byggja á.
Að lokum er ekki úr vegi að geta þess að alveg furðulega rólegt hefur verið á landinu síðustu þrjár vikur og varla að jarðskjálfti hafi mælst svo heitið geti nema í norðanverðum Vatnajökli og þar um kring.
Getur verið að áhrif Bárðarbungu séu svo gríðarleg að lítið gerist annars staðar meðan umbrot eru þar?
Viðbót kl. 13:50:
Síðustu fréttir herma að á Dyngjujökli hafi uppgötvast sigketill á svipuðum slóðum og strikið á efstu myndinni hér fyrir ofan. Það bendir til að hiti sé undir og draga kunni þar til tíðinda síðar í dag eða kvöld.
Ný gossprunga í Holuhrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ekki frá því að það stefni í Herðubreiðarlindaelda.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2014 kl. 13:56
Bestu þakkir fyrir innlitið, Emil Hannes. Veit að þú ert að spauga en samt ... þetta allt vekur sama áhuga hjá þér og mér.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.9.2014 kl. 14:09
Smá spaugi fylgir einhver alvara. Ýmislegt er óljóst. Fyrir gos héldu menn t.d. að Holuhraun tilheyrði Öskjukerfinu, annað kom á daginn.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2014 kl. 14:50
Augljóslega er eitthvað að gerast þarna sitt hvoru megin Herðubreiðar. Hvort það verða „Herðubreiðarlindaeldar“ eða Herðubreiðartaglagosskjálftavirkni“ veit enginn en ég fagna löngum nöfnum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.9.2014 kl. 15:11
Ekki veit ég med "Herdubreidarlindaeldavaentingar" Emils, en thad er allavega enginn "Herdubreidartaglagosskjálftavirkniskortur" á svaedinu.
Thad er greinilega mikid í gangi tharna og vonandi ad hvernig sem fer, hljótist af thví sem minnst tjón.
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan, thar sem saeljónin leika vid hvurn sinn fingur og mörgaesir fljúga um loftin blá.
Halldór Egill Guðnason, 5.9.2014 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.