Er skjálftavirkni í Öskju og Herðubreiðartöglum Bárði að kenna?

140831 Á leið í Öskju

Nú gýs á þeim stað þar sem berggangurinn hefur lengst náð í norður. Gossprungan er merkt á meðfylgjandi mynd.

Framrás berggangsins hefur verið ansi skjót síðasta hálfa mánuðinn, allt frá því hann byrjaði rétt við Bárðarbungu og þangað til að hægði á honum síðasta miðvikudag. Hann þaut áfram að meðaltali um fimm km á dag fyrstu tíu dagana. Síðan hefur eiginlega ekkert gerst nema að úr honum hefur í tvígang gubbast hraun upp á yfirborð jarðar. Miðað við það sem gengur á í Bárðarbungu og kraftinn í bergganginum hafa gosin tvö verið óttalegir aumingjar. Ef til vill er meira í vændum.

Hugsanlega má draga þá ályktun að þegar hægir á ferð berggangsins séu meiri líkur að kvika villist upp á yfirborðið.

Jarðfræðingar hafa talað um áhrifasvæði Bárðarbungu og Öskju. Ekki er leikmanni ljóst hvað það þýðir. Hitt er víst að annað hvort dró úr þrýstingi í bergganginum svo hann fór ekki inn á áhrifasvæði Öskju eða hann á eftir að fara þangað inn.

Þegar litið er á meðfylgjandi mynd þar sem skjálftar síðustu klukkustunda eru sýndir, sést að fjöldi skjálfta hafa orðið í Dyngjufjöllum og í Herðubreiðartöglum. Að vísu er það ekki einsdæmi á þessu ári. Ekki er langt síðan að skjálftahrina var í Herðubreið og þar fyrir sunnan. Það sem nú er að gerast virðist þó frá leikmannsins sjónarhóli tengjast atburðum í Bárðarbungu og bergganginum títtnefnda.

Merkilegast er þó að skjálftarnir raða sér í nær beina línu í stefnunni SV-NA. Fróðlegt væri að vita hvort þessir skjálftar í Herðubreiðartöglum og fyrir Öskjuopi tengist bergganginum úr Bárðarbungu.

Möttullinn

Norðan berggangsins, í suðurhlíðum Dyngjufjalla, hefur oft gosið. Þar er hver hraunstraumurinn ofan á öðrum svo hraundyngja hefur myndast. Þarna er fjöldi gíga hér og þar en suður úr henni sést greinileg gossprunga sem með góðum vilja má hugsa sér að liggi alveg suður í þá sprungu sem nú gýs úr. 

Dyngjufjöll eru eðlilega mikið sprungin enda aðeins eitthundrað þrjátíu og níu ár frá því að þar gaus og Askja varð til. Í því sambandi er mjög brýnt að hafa það í huga að Askja er í Dyngjuföllum, ekki öfugt. Dyngjufjöll eru gríðarstór og vestan við þau er aðeins minna fjallabákn sem nefnist Dyngjufjöll ytri.

Svo er það hitt, að askja er heiti á jarðfræðilegu fyrirbrigði sem nefnt er „caldera“ á ensku. Öskjur eru víða á landinu og myndast á margvíslegan máta en þær teljast til megineldstöðva. Undir þeim eru stór kvikuhólf og úr þeim kemur kvikan í gosum sem þar verða. Talið er að Askja í Dyngjufjöllum hafi myndast við það að kvikuhólfið undir henni hafi tæmst og þak hennar hrunið.

Bárðarbunga er líka askja og hún er um 60 ferkm að stærð. Askjan í Dyngjufjöllum er nokkuð minni, „aðeins“ 45 ferkm.

Galapagos 2

Munurinn á þessum tveimur megineldstöðum sá að undir Bárðarbungu er svokallaður möttulstrókur, heitur reitur, eins og það er oft nefnt. Möttulstrókar eru ekki margir. Teljast vera innan við þrjátíu á jörðinni. Þeir eru allir á mótum rekfleka. Kvikan í þeim kemur lóðbeint upp frá mikli dýpi, jafnvel allt að 100 km. Sjá mynd.

Hér er strókurinn talinn vera um þrjú til fjögurhundruð km breiður. Bent hefur verið á að hann lyftir landinu, svo mikill er þrýstingurinn í honum.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, segir frá því í ævisögu sinni, að möttulstrókurinn undir Bárðarbungu muni á næstur milljón árum færast til austurs. Um leið mun stór hluti Íslands síga hægt og virðulega í hafið. Um síðir verður Ísland þá eins og Glapagoseyjar. Hæstu tindarnir standa upp úr en láglendið verður djúpt í hafi.

Gott er að vera við öllu búinn. Skyldi vera hægt að kaupa lóð á tindi Snæfells ...?


mbl.is Hraunið er nokkurra metra þykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband