Berggangur Bárðar veldur skjálfta í Dyngjufjöllum
28.8.2014 | 15:13
Sé litið yfir norðanverðan Vatnajökul og haft í huga að sem þar er að gerast í jarðskorpunni vekur tvennt athygli leikmanns.
Annars vegar er það sem er að gerast í og við Bárðarbungu og hins vegar atburðirnir á milli Dyngjujökuls og Öskju. Hið síðarnefnda á athygli mína þessa stundina og hér ætla ég að segja frá vangaveltum mínum.
Þegar berggangurinn með fljótandi kviku var að marka sér leið frá austanverðri Bárðarbungu og norðaustur um Dyngjujökul fylgdu því hundruð jarðskjálfta á hverjum degi. Skjálftarnir voru allir djúpir. Fylgjast mátti með því hvernig þeir röðuðust í þyrpingu meðfram sprungunni og stundum mátti greina hugsanlega leið sem sprungan tók.
Á loftmyndinni frá Google Maps hér fyrir ofan sjást jarðskjálftar frá því í dag og í gær. Hins vegar verða jarðskjálftarnir aðeins þar sem berggangurinn er að brjóta sér leið og síðan hætta þeir að mestu. Þetta má sjá á neðri myndinni sem er frá sama tíma.
Sem sagt, jarðskjálftarnir hætta um leið og greitt samband hefur komist á við Bárðarbungu. Hér geng ég út frá því sem staðreynd er jarðfræðingarnir halda fram, að kvikan í bergganginum sé ættuð úr Bárðarbungu. Á miðmyndinni hef ég markað leið berggangsins, svona á að giska. Aungvir jarðskjálftar eru það, rétt eins og hann sé ekki til.
Svo er það dálítið skrýtið, og þó ekki, hvernig dreifing skjálfta er umhverfis bergganginn. Engu líkar er en að kvikan sé að brjóta sér leið frá honum eftir því sem kostur er. Eflaust er það bara ósköp eðlilegt. Þá er það spurningin hvert hún leitar. Sé þetta rétt þá eru er áhrifasvæði berggangsins í gula reitnum. Stundum hefur mátt sjá reglu í dreifingu skjálfta og það gæti bent til þess að kvikustraumur kvíslist hugsanlega til austurs. Athyglisvert er að það gerist ekki til vesturs ef gengið er út frá því sem vísu að skjálftarnir marki feril kvikunnar.
Þá er það hvíti ramminn í efri myndinni hér að ofan, Dyngjufjöll og umhverfi þeirra. Jarðfræðingar hafa talað um áhrifasvið Öskju annars vegar og Bárðarbungu hins vegar. Þar séu tvö öfl enginn vill að eigi í nánu sambandi. Afleiðingin er afar óholl.
Nú er orðið afar greinilegt að Dyngjufjöll vita af berggangi Bárðar. Mikill titringur er í fjöllunum og skjálftum fjölgar gríðarlega frá degi til dags. Þarna er engin kyrrstaða eins og þar sem berggangurinn hefur farið um og lokið sér af.
Leikmaðurinn veltir fyrir sér hvort kvika sé þegar komin inn í áhrifasvið Öskju eða hvort jarðskjálftarnir séu hreyfing á brotaskilum sem þegar eru þekkt.
Merkilegast af öllu telst þó vera að berggangurinn skuli ekki kvíslast heldur stefna rakleitt í Dyngjufjöll. Sú skoðun er uppi að síðast þegar þetta gerðist hafi gosið þarna 1875 með hrikalegum afleiðingum.
Eitt sinn er gistum við nokkur norðan við flæður Jökulsár á Fjöllum, á svipuðum slóðum og bergkvikan er núna. Þarna er allt marflatt hið næsta, sandorpið hraun undir, en fjallasýnin tilkomumikil. Fyrir miðri mynd eru Kverkfjöll og hægra megin sést í hluta Dyngjujökuls.
Vatnsstaða hækkað um 5-10 metra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.