Arfleið hans sem var borgarstjóri að nafninu til
5.6.2014 | 08:39
Sem stjórnmálamaður var hann einnig óvenjulegur að því leyti að hann þóttist ekki skilja allt og kunna allt. Þess vegna setti hann sig aldrei á háan hest og sumum fannst það skrýtið því þeir töldu að borgarstjóri ætti að vera virðulegur. Jón Gnarr var aldrei virðulegur borgarstjóri en samt var fjarska auðvelt að bera virðingu fyrir honum.
Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu ritar ofangreint í Pistli dagsins. Oft er ég sammála henni en ekki núna. Ástæðan er einföld. Þegar verk stjórnmálamanna eru skoðuð hlýtur að þurfa að taka með fleira i reikninginn en framkomu og klæðaburð. Hvernig sinnti til dæmis Jón Gnarr starfi sínu og hvað skilur hann eftir?
Því er auðvelt að svara. Jafnvel samstarfsmenn hans og Besta flokknum sáu að hann gæti ekki staðið undir öðrum starfsskyldum borgarstjóra en að vera nokkurs konar kynningarstjóri. Honum var settur aðstoðarmaður sem lærði hratt og skildi hvað þyrfti að gera og hvernig. Flóknu vandamálin voru sett undir skrifstofustjóra embættis borgarstjóra sem í rúm tvö ár var hinn raunverulegi borgarstjóri.
Til að almenningur kæmist ekki að getuleysi borgarstjórans var settur saman hópur fólks sem starfaði í kringum Jón Gnarr, passaði upp á kynningarmálin og gætti þess að blaðamenn næðu ekki í hann óforvarendis. Raunar var fjölmiðlafólki skipað að koma fyrirfram með þær spurningar sem spyrja ætti því þá gæfist aðstoðarfólkinu tækifæri til að svara þeim og láta manninn læra svörin. Þetta tóks svo vel að jafnvel Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, heldur að Jón Gnarr hafi staðið sig vel í embætti.
Þannig liðu nú fjögur ár hjá manninum sem óritskoðaður glopraði því út úr sér í útvarpsþætti að eitt af því merkilegasta sem hann hefði lært væri að einn milljarður væri eitt þúsund milljónir. Hann kom hann óritskoðaður í viðtal í sjónvarpi, þekkti ekki til mála og þurfti að hvísla að aðstoðarmanni sínum sem stóð baka til hvernig hann ætti að orða svar sitt. Þá var varnarmúrinn í kringum Jón Gnarr settur upp.
Allir aðrir stjórnmálamenn hafa hingað til þurft að sæta því að þekking þeirra sé á einum tíma eða öðrum dregin í efa. Ráðherrum er stundum legið á hálsi þekkingarskortur eða kunnáttuleysi í stjórnun ráðuneytis, jafnvel leti.
Jón Gnarr fékk frítt spil í fjögur ár. Enginn annar stjórnmálamaður gæti komist upp með að gera lítið úr almenningi og svíkja kosningaloforð. Jón Gnarr gerði það og sumum fjölmiðlamönnum þótti það fyndið.
Ófyndinn maður sem ekkert kann og ekkert veit fengi aldrei sama brautargengi í stjórnmálum jafnvel þó hann sé góður maður, sagður mannvinur, setti sig ekki á háan hest og reyndi að gleðja okkur fávitanna. Jafnvel fyndinn maður í Sjálfstæðisflokknum, Framsókn eða Samfylkingunni myndi aldrei ná sama árangri nema hann hefði eitthvað annað til brunns að bera.
Hitt kann þó að vera rétt að Jón Gnarr kann að hafa eyðilagt þá ímynd að karlmaður í stjórnmálum þurfi að vera í gráum jakkafötum og í rykfrakka til að falla inn í mynstrið. Ef til vill er það eina arfleið mannsins sem aldrei var borgarstjóri nema að nafninu til. Því ber að sjálfsögðu að fagna.
Jón Gnarr er ábyggilega hinn vænsti maður, góður við menn og málleysingja. Ofangreindu má ekki blanda saman við persónuna og manninn sem gengdi embætti borgarstjóra. Hér er sá síðarnefndi til umræðu.
Það er hins vegar ástæða til að taka undir með Kolbrúnu Bergþórsdóttur að Jóni Gnarr gleymist ekki, ekki frekar en ævintýri Hans G. Andersen.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.