Stórtap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, samt 41% fylgi í heildina
1.6.2014 | 11:00
Úrslit borgarstjórnarkosninganna eru áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn en svo er ekki með úrslitin víðast hvar annars staðar. Í því er vandinn fólginn að skilja hvað gerðist í Reykjavík en ekki í nágrannasveitarfélögunum.
Staðan í Reykjavík er þessi:
- Framsóknarflokkur 10,7 % 2 borgarfulltrúar
- Sjálfstæðisflokkur 25,7% 4 borgarfulltrúar
- Sambirtingur 46,4% 6 borgarfulltrúar
- Vinstri grænir 8,35% 1 borgarfulltrúi
- Píratar 5,90% 1 borgarfulltrúi
Samfylkingin og Björt framtíð eru sami flokkurinn. Á þeim er enginn málefnalegur, enginn ágreiningur hvorki málefnalegur né persónulegur. Björt framtíð var stofnaður með það í huga að búa til flóttamannabúðir frá óvinsælli Samfylkingu í ríkisstjórnarsamstarfinu við Vinstri græn. Þetta var snjöll hugmynd, afar djörf en hún heppnaðist fullkomlega. Spurningin er aðeins hvenær þessir tveir flokkar sameinast.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur greinilega tapað forystu sinni í borginni yfir til Sambirtings og sá síðarnefndi hefur gjörsamlega hirt kjörfylgi þess fyrrnefnda.
Að þessu slepptu er sigur Sjálfstæðisflokksins mikill víðast hvar um landið. Fylgi hans stendur víðast styrkum fótum þrátt fyrir að hann sé ekki alls staðar með meirihluta eða í merihlutasamstarfi um stjórn sveitarfélags.
Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta:
- Seltjarnarnes, með 4 bæjarfulltrúa af 7
- Garðabær, með 7 bæjarfulltrúa af 11
- Mosfellsbær, með 5 bæjarfulltrúa af 9
- Akranes, með 5 bæjarfulltrúa af 9
- Árborg, með 5 bæjarfulltrúa af 9
- Vestmannaeyjar, með 5 bæjarfulltrúa af 7
- Hveragerði, með 4 bæjarfulltrúa af 7
Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn verður líklega í meirihlutasamstarfi:
- Kópavogur, með fimm bæjarfulltrúa af 11
Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn verður líklega ekki í meirihlutasamstarfi:
- Reykjavík, með 4 borgarfulltrúa af 15
- Hafnarfjörður, með 5 bæjarfulltrúa af 11
- Akureyri, með 3 bæjarfulltrúa af 11
- Reykjanesbær, með 4 bæjarfulltrúa af 11
- Ísafjörður, með 3 bæjarfulltrúa af 9
- Fjarðabyggð, með 3 bæjarfulltrúa af 9
- Skagafjörður, með 2 bæjarfulltrúa af 9
- Borgarbyggð, með 3 bæjarfulltrúa af 9
- Fljótsdalshérað, með 2 bæjarfulltrúa af 9
- Grindavík, með 3 bæjarfulltrúa af 7
- Norðurþing, með 3 bæjarfulltrúa af 9
- Hornafjörður, með 2 bæjarfulltrúa af 7
- Fjallabyggð, með 2 bæjarfulltrúa af 7
Sé litið á öll ofangreind sveitarfélög kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er með 40,9% bæjarfulltrúa í þeim og það er mun meira en heildarfylgi flokksins í síðustu þingkosningum. Þetta er eins og kjörfylgið var í þingkosningunum 1999 er flokkurinn fékk 40,7% atkvæða á landsvísu.
Þetta breytir þó litlu. Staðan í stærsta kjördæminu er afar slæm. Þar þarf að skoða hvað fór úrskeiðis, hvers vegna listinn höfðaði illa til kjósenda og hvernig kosningabaráttunn var stjórnað. Frambjóðendur flokksins þurfa að líta í eigin barm því þeir voru ekki nægilega sýnilegir síðustu vikurnar. Þar að auki þarf Sjálfstæðisflokkurinn framar öllu öðru að líta til stefnumála sinna, hugsjónanna. Hugsanlega hafa aðrar áherslur verið ofar en grunngildin í Reykjavík.
Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll. Einhver myndi nú segja að Framsjallar hefðu fengið 36.4% :-) . En annars flott nafn á liðinu hans Sveins-nei Dags. Annars liggur nú nærri að þessi kosning sé ógild vegna kosningaþátttöku. Er þatta ekki merki um að fólk sé hætt að taka stjórnmálaflokkana alvarlega?
Jósef Smári Ásmundsson, 1.6.2014 kl. 11:21
Það er nú himinn og haf á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins miðað við Samfylkingu og Bjartrar, ekki saman að jafna.
Kosningaþátttakan var hörmulega léleg, víðast hvar. Ótrúlegt að kosningar skuli fara fram á svo gamaldags hátt, að við skulum þurfa að arka á einhvern stað og krossa á blað með blýant. Auðvitað eiga kosningarnar að vera rafrænar og þeir sem ekki vilja eða geta notfært sér tölvu fái að kjósa á gamla mátann. Eftir tvö til þrjú ár verða rafrænar kosningar í öllum kosningum á Íslandi. Annað er tóm della. Hins vegar er ekki víst að þátttaka í kosningum aukist fyrir vikið.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.6.2014 kl. 11:47
Rétt til ábendingar Sigurður þá eru Framsóknarmenn með hreinan meirihluta í Sveitarfélaginu Skagafirði og þurfa því ekki á neinum stuðningi að halda, ekki að þeim veiti ekki af. Sammála þér með Reykjavík, Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í verulega naflaskoðun.
Gunnlaugur Auðunn Ragnarsson, 1.6.2014 kl. 16:08
Fyrirbærið Björt framtíð er mjög merkilegt. Þetta er eins konar stjórnmálaflokkur með sömu stefnu í öllum málum (þar sem hann hefur á annað borð stefnu) og Samfylkingin og virðist settur á stofn til þess að setja undir fylgisleka frá þeim flokki. Þetta virðist hafa tekizt mjög vel. Nú gæti komið upp sú staða að þessir tveir systurflokkar lentu fyrir tilviljanir úrslita og meirihlutamyndana hvor sínum megin, annar í meirihluta en hinn í minnihluta. Þetta hefur ekki komið fyrir enn og núna er þetta hvergi líklegt nema etv. í Hafnarfirði. Fylgjumst með því sveitarfélagi til að efla skilning okkar á þessu fyrirbæri.
Skúli Víkingsson, 1.6.2014 kl. 20:13
Í Reykjavík þar sem borgarfulltrúar eru ekki í mjög nánum tengslum við fólkið í borginni, þá lít ég svo á að stærstur hluti Sjálfstæðismanna hafi setið heima og ákveðið að taka ekki þátt í þessum kosningum. Í flestum öðrum sveitarfélögum eru sveitarstjórnarmenn í meiri tengslum við almenning og ræður því persónukjör meiru þar um heldur en í borginni.
Af hverju ætli Sjálfstæðismenn hafi setið heima??? Mín skýring á því er sú að þeir séu að láta í ljósi skoðun sína á Sjálfstæðisflokknum sem situr í ríkisstjórn og þeim svikum flokksforystunnar að vera ekki búnir að klára ESB-málið. Það er nefnilega ekki að sjá að það sé nein alvara á bak við loforðið um að loka því máli. Forusta flokksins er ekki að standa sig og flokksmenn eru að fá nóg af flumbrugangi flokksforustunnar. Bjarni Benediktsson kemst hvergi nærri með tærnar þar sem nafni hans hafði hælana þegar kemur að forustuhlutverki.
Bjarni heitinn Ben. var ekki bara forustumaður fárra útvalinna, hann var forustumaður allra Sjálfstæðismanna og allra Íslendinga. Nú vantar slíkan mann sem hann eða Ólaf Thors til að fara fyrir þjóð okkar og koma okkur út úr þessum vandræðagangi.
Tómas Ibsen Halldórsson, 2.6.2014 kl. 11:27
Bjarni hefur átt erfiða daga við að halda friðinn innan flokks, en það átti líka við forvera hans eins og alnafna hans og Ólaf Thors. Það kann þó aldrei góðri lukku að stýra að ganga þvert á stefnu flokksins en það hefur Bjarni gert þegar hann (1) studdi Icesave samninginn, (2) lofaði atkvæðagreiðslu um ESB þar sem Landsfundur hafði afdráttarlaust krafizt þess að viðræðum yrði slitið. Nú síðast (3) viðraði hann skoðun sína um að einkavæða Landsvirkjun, en Landsfundur hafði ályktað gegn því.
Í borgarstjórnarkosningunum gæti þetta hafa haft áhrif en líklegra er hitt að borgarfulltrúar flokksins stóðu að hluta með meirihlutanum í fjölda mála og gegn vilja almennra flokksmanna.
Skúli Víkingsson, 2.6.2014 kl. 13:04
Goð athugasemd og rétt hugsað Skuli.
það er vafrandi formaður sjálfstæðisflokksins og ákvörðun hans að vinna gegn samþykktum Lansfundar sem að dregur fylgi Sjálfstæðisflokksins niður.
Til hvers að eyða fé og tima i Landsfund ef formaðurinn Bjarni Ben fer ekki einu sinni eftir samþykktum Landsfundarins hvað eiga allir undirlingarnir að gera?
Þetta kemur fram eins og það se engin samstaða innan flokksins.
Og við hverju var að búast ef að oddviti flokksins i Reykjavik hefur ekki fullan stuðning fra Valhöll?
Kveðja fra Houston
Jóhann Kristinsson, 2.6.2014 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.