Samfylkingin skipuleggur atvinnuhúsnæði í grænum Laugardal
31.5.2014 | 10:25
Hjálmar Sveinsson, varaformaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir rétt að búið sé að opna fyrir möguleikann á því að á þessu svæði rísi tveggja til fjögurra hæða háar byggingar en að ekkert sé ákveðið í þeim efnum.
Þetta segir í frétt á bls. 19 í Morgunblaðinu í dag. Þar viðurkennir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að verið sé að ræða um breytingar á nýtingu Laugardals, byggja í stað þess að hafa hann sem grænt svæði til útivistar.
Þarna er fyrirhugað að byggja múr, blokkarmúr, þar sem nú er gróskumikill trjágróður og mikil prýði fyrir dalinn og Suðurlandsbraut.
Að vísu er Samfylkingin á harðahlaupum frá þessum áætlunum og þykist ekkert vita, þær séu á annarra vegum. Formanninum, Hjámari Sveinssyni, vefst hreinlega tunga um höfuð í þessu viðtali og hann fabúlerar um tortryggni, ... mikilvægt að menn átti sig á staðreyndum... og annað álíka. Alveg dæmigert fyrir talsmáta pólitísks flóttamanns í íslenskri stjórnmálaumræðu.
Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar, bendir á að fjögurra hæða blokk verði sex hæða frá Laugardal séð vegna hallans í landinu. Þar að auki verður pláss myndað fyrir baklóðir blokkanna. Hann segir í viðtalinu við Morgunblaðið:
Við vitum ekkert hvernig starfsemi verður þarna svo þar gætu menn verið með bílaverkstæði, bílhræ og vörugáma sem myndu blasa við fólki frá dalnum séð. Þessar blokkir takmarka og jafnvel eyðileggja svæðið fyrir neðan varðandi möguleika á íþróttavöllum og skuggavarpið verður alveg rosalegt.
Skúli Víkingsson, jarðfræðingur og formaður samtakanna Verndum Laugardalinn, segir í viðtali við Morgunblaðið.
Ef þessi áform ganga eftir munum við ekki sjá gróður og göngustíga heldur bakhliðar blokka sem verða með svipuðu móti og gengur og gerist í Síðumúla.
Ég efa það ekki að í dag flykkjast sumir á kjörstað og geta ekki beðið eftir því að greiða Samfylkingunni atkvæði vegna einstakrar frammistöðu í skipulagsmálum borgarinnar síðustu fjögur árin svo ekki sé talað um þá framtíðarsýn sem hér er lýst.
Ég er að minnsta kosti ekki einn þeirra og kýs Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst vegna skipulagsmála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tæknilega séð væri lítið mál að setja Elliðaárnar í rör og fylla dalinn af byggð. Skyldi vera til einhverjar hugmyndir SF og BF um slíkt?
Gunnar Heiðarsson, 31.5.2014 kl. 15:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.