Nei, nei, Samfylkingin ætlar ekki að taka af þér bílinn, en ...
29.5.2014 | 15:02
Setjum sem svo að einhver út í bæ kæmi til þín, lesandi góður, og tæki af þér bílinn og segði þér að fara ferða þinna gangandi eða hjólandi? Varla yrðir þú sáttur við það.
Undanfarin tvö ár hef ég hjólað og gengið um borgina. Ég á ekki bíl og hef því gripið til annarra kosta. Og ég skal segja þér það, að hjólreiðar og göngur eru ákaflega hollar og skemmtilegar. Þessi ferðamáti leysir þó ekki einkabílinn af hólmi.
Ég ætla að halda áfram að hjóla en á næstu dögum ætla ég að kaupa bíl. Ástæðan er einföld. Ég hef einfaldlega ekki tíma til að skjótast á milli bæjarhluta á gangandi, hjólandi eða í strætó. Þess vegna er einkabíllinn nauðsynlegur kostur.
En náunginn sem ég nefndi hér í upphafi hann er til og hann hefur þegar banka á dyrnar hjá þér. Hann heitir Samfylkingin og Björt framtíð sem saman boða frekar dapra framtíð eins og fram kemur í grein Mörtu Guðjónsdóttur í Morgunblaði dagsins:
Nýju Aðalskipulagi er fyrst og síðast ætlað að umbreyta ferðavenjum borgarbúa á mjög róttækan hátt. Skipulaginu er ætlað að tryggja að stór hluti borgarbúa hætti að aka á bílum sínum til og frá vinnu en fari þess í stað gangandi, hjólandi eða með almenningsvögnum.
Svona breytingum á ferðavenjum fólks er hægt að ná fram með góðu eða illu. Líklega myndu mun fleiri ganga, hjóla eða taka almenningsvagna til vinnu sinnar ef þeir kostir yrðu álitlegri en þeir eru í dag. Í þeim efnum má margt betrumbæta. En það fer lítið fyrir slíkum áþreifanlegum áformum í nýju Aðalskipulagi. Ferðavenjum okkar á því ekki að breyta með góðu heldur með illu: Með því að leggja stein í götu okkar.
Borgarrými með fjölþætt hlutverk ...
Og ekki nóg með þetta. Marta segir í grein sinni:
Meginhugmynd borgaryfirvalda og Aðalskipulags felst í þeim áformum að hægja svo á allri umferð vélknúinna ökutækja að fólk gefist upp á því að aka á bílum sínum til og frá vinnu. Í Aðalskipulaginu er þetta orðað svo, sem eitt helsta markmiðið í samgöngumálum: Götur verði endurhannaðar sem borgarrými með fjölþætt hlutverk.
Hvers konar talsmáti er þetta í aðalskipulaginu? Jú, þetta er dæmigert rugl þeirra sem hafa ekkert fyrir stafni og kalla svart hvítt og hvítt svart. Það gleymist að götur eru götur og eina meginmarkmið með götum er að greiða fyrir umferð. Hjá Samfylkingunni og Besta flokknum er það hins vegar ekki svo eins og Marta Guðjónsdóttir bendir réttilega á:
Skemmdarverk
Breytingar á Hofsvallagötu, Snorrabraut og Borgartúni eru því einungis forsmekkur að því sem koma skal. Hringbrautinni á að gera sömu skil innan skamms, sem og Miklubraut, frá Lönguhlíð að Kringlumýrarbraut.
Suðurlandsbrautin verður þrengd, fjórum mikilvægum samgönguæðum borgarinnar verður breytt úr stofnbrautum í tengibrautir, tuttugu tengibrautir missa það hlutverk sitt.
Akreinum Gullinbrúar verður fækkað úr fjórum í tvær, en sú brú er lífæð borgarinnar við tæplega tuttugu þúsund manna íbúðarhverfi.
Og hvað skyldi þetta þýða fyrir borgarbúa?
Þessi samgöngustefna er glórulaus. Hún mun innan tíðar leggja óheyrilegan tímaskatt á einstaklinga og fyrirtæki. Búast má við að ferðatími fólks til og frá vinnustað muni tvöfaldast á næsta kjörtímabili. Í mörgum tilfellum mun ferðatími vinnandi fólks til og frá vinnustað lengjast sem nemur öllu sumarfríi þess á ársgrundvelli.
Hvað finnst svo lesandanum um þetta? Er það ásættanlegt að eyða öllum þessum tíma í stað þess að einfalda og byggja upp samgöngur?
Nei, þetta er auðvitað ekkert annað en skemmdarverk. Hlutverk borgaryfirvalda er að byggja upp en ekki draga úr. Styrkja umferð akandi, hjólandi og gangandi fólks en ekki etja þessum ferðamátum saman rétt eins og þeir geti ekki þróast samhliða.
Hér í upphafi var spurt hvernig lesandanum yrði við ef einhver kæmi og vildi taka bílinn af honum. Sá er þegar kominn en hann er ekki svo blátt áfram eins og þar var lýst. Hann er Dagur Eggertsson sem hefur einlæga talanda sem mörgum þykir þægilegur en malið og öll orðaflækjan felur það markmið sem hér að ofan er lýst. Sérstaklega ættu kjósendur að leggja við hlustir þegar hann talar. Auðvitað ætlar Dagur ekki að taka af þér bílinn, kæri lesandi. Nei, nei. Hann ætlar bara að gera þér illmögulegt að nota hann.
Mér finnst, eftir fjögurra ára ofríki vinstri manna í ríkisstjórn og fjögurra ára klepptæka vinstri stjórn í borginni eiginlega nóg komið og tími til að vísa þessu liði úr valdastólunum.
Hlustum á hvað Dagur B. Eggertsson segir, ekki hvernig hann segir það. En ef þú, lesandi góður, nennir ekki að hlusta á Dag fara hring eftir hring í kringum málefnið án þess að komast nokkru sinni á kjarna málsins, lestu þá greinina eftir Mörtu Guðjónssdóttur. Svo væri ekki úr vegi að skoða bloggið hans Ívars Pálssonar og pistla hans um skipulagsmál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er fólk hissa að það kosti að búa í borginni?
Ásgrímur Hartmannsson, 29.5.2014 kl. 15:26
Sæll Sigurður mikið kemur þú orðunum vel frá þér, þetta er akkúrat málið og skelfilegt að hugsa til þess að þetta gæti orðið staðreynd, mig langar svo að fá að deila þessum pistli þínum á fésið mitt og vona að það sé allt í lagi. Kv.góð.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.5.2014 kl. 16:39
Ég er ekki kjósandi í Reykjavík, en sem Íslendingur tel ég mig heimilt að hafa skoðun á ýmsum málefnum höfuðborgarinnar.
Einstaka sinnum á ég erindi til borgarinnar. Ekki get ég komið á reiðhjóli eða gangandi, heldur verð ég að nota minn einkabíl til þeirra ferða. Það er ekki falleg mynd sem þú dregur af framtíðinni Sigurður, innan borgarmarkanna. Mér þykir orðið nóg um nú þegar.
Verst er þó sú frekja sem Samfylking sýnir gagnvart þeim eigum sem borgin á þó ekki, nema kannski að hluta. Flugvöllurinn og megnið af því landi sem hann liggur á, er í eigu allra landsmanna. Miklabraut er skilgreind sem þjóðvegur og tekið fé úr ríkissjóð til viðhalds þeirrar götu. Fleiri götur innan borgarmarkanna falla einnig undir slíka skilgreiningu og því ekki í valdi borgaryfirvalda að setja niður hreiðurkassa á þeim götum, eða þrengja þær á neinn hátt.
Í þágu "þéttingar byggðar" skal miskunnarlaust taka bílastæði af fólki í grónum hverfum og ekki nóg með það, það skal einnig teknir bílskúrar eignarnámi ef þörf þykir. Reyndar ætti ekki að þurfa að óttast þennan þátt skipulagsins, enda eignaréttur einstaklingsins varinn af stjórnarskrá. Enn og aftur þykist Samfylkingarfólk geta sniðgengið æðstu lög landsins!
Þá birtist frekjan óheft í viðtölum við frambjóðendur Samfylkingar, þar sem talað er niður til fólks. Hversu oft hefur ekki Hjálmar Sveinsson mætt í fjölmiðla þar sem hann nánast segir berum orðum að kjósendur hafi ekki vit á hlutunum? Dagur notar aðra og ömurlegri aðferð til að niðurlægja kjósendur. Hann talar lengi um ekki neitt, segir falleg orð án samhengis og skilur fólk eftir fullt efasemda um eigin visku. Ljótari leik er vart hægt að stunda og næsta undarlegt að fólk átti sig ekki á því að ástæða þess að það skilur ekki öll þessi fallegu orð er ekki vegna heimsku þess sjálfs, heldur vegna þess að maðurinn sagði akkúrat ekki neitt!!
Gunnar Heiðarsson, 29.5.2014 kl. 16:49
Klepptæk stjórn lýsir þessum stjórnmálamönnum saman, nema hvað er vinstri-stjórn? Stjórn sem vinnur fyrir rænandi fjármálafyrirtæki og vogunarsjóði? Vanalega segir samfylkingarfólk aldrei neitt sem venjulegt fólk skilur, Gunnar. Það sem þau hafa fram að færa er: Við ætlum að gera nákvæmlega það sem okkur sýnist hvað sem ómerkilegum landsmönnum finnst. Við ætlum að rústa öllu í landinu, við ætlum að rústa borginni, forsetaembættinu, fullveldinu, ríkissjóði, stjórnarskránni.
Elle_, 29.5.2014 kl. 17:17
Eiga gamlir og fatlaðir að hjóla ?
Eða eru allir í Höfuðborginni hraustir milli 20 og 40 ára ?
Hvað með borgarstjórann sem vildi gera allt fyrir aumingja ???
Erla Magna Alexandersdóttir, 29.5.2014 kl. 19:06
Já, og 9 manna fjölskylda með 2 ungbörn, 2 fötluð börn og 3 önnur börn á líka að hjóla saman í skólana og vinnuna.
Elle_, 29.5.2014 kl. 19:41
Bestu þakkir fyrir innlitið, gott fólk. Hélt ég fengi nú bara skammir fyrir að tala illa um leiðtoga Sambesta. Mér þykir gott að hjóla en maður verslar ekki og hjólar heim með innkaupin, í mesta lagi að maður kaupi lítið í einu. Það þýðir margar verslunarferðir - óþolandi. Og víst skil ég að aðstæður fólks geta verið mismunandi og strætó og hjól eru ekki fyrir alla. Það sem eftir stendur að fyrst og fremst tilgangur borgaryfirvalda í skipulag sínu að stuðla að heill allra og ekki gera neinum rangt til eða koma einhverjum illa. Mér sýnist að núverandi borgarstjórnarmeirihluti ætli að koma almenningi illa meðal annars með því að tefja fyrir umferð og þrengja að grænum svæðum. Nú verður skynsamt fólk að kjósa gegn þessum ósköpum og Gunnar Heiðarsson verður að koma vitinu fyrir vini og ættingja í Reykjavík sem og við hin.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.5.2014 kl. 19:54
Þetta hefur einkennt borgarstjórn sambesta, allir eiga að hugsa eins og við og gera eins og við viljum, í staðin fyrir að hvetja fólk til að breyta lífstíl "til hins betra" (að þeirra mati) þá skulum við neyða fólk til þess, náttúrulega af því að við vitum betur sko!!
Og mesta hræsnin við þetta allt saman er að þetta sama fólk atast í sjálfstæðisflokknum og framsókn og sakar flokksmenn þeirra um að vera með frekju og yfirgang, eitthvað sem sambesti gerir best sjálfur!
Halldór Björgvin Jóhannsson, 29.5.2014 kl. 22:22
Hún skefur ekki af því hún Kristín Soffía frambjóðandi S.F. þegar hún býsnast yfir lóðaúthlutun til rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Helga Kristjánsdóttir, 30.5.2014 kl. 02:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.