Réttlætingin og ruglið í borgarstjórnarmeirihlutanum
3.5.2014 | 15:21
Okkur finnst strætó ekki vera að tefja einkabílaumferð. Í strætó er fullt af fólki sem gefur meiri meiningu í umferðarkerfinu en þegar einn eða tveir eru í hverjum bíl. Þar af leiðandi finnst okkur réttlætanlegt að strætó hægi á umferð endrum og eins.
Þegar fólk snýr hlutunum á hvolf eða heldur því fram að svart sé hvítt og hvítt sé svart þá er ástæða til að staldra eitt augnablik við og gera örlítið stöðumat. Engin ástæða væri að velta vöngum yfir ofangreindri tilvitnun ef hún hefði komið úr kaffistofunni eða athugasemdadálkum netmiðla.
Pólitísk yfirlýsing
Staðreyndin er hins vegar sú að hér er um að ræða pólitíska yfirlýsingu, ekki stjórnmálamanns heldur embættismanns eða starfsmanns hjá Reykjavíkurborg í viðtali við fjölmiðil fyrir hönd borgarinnar. Hið fyrrnefnda er svo sem allt í lagi en þegar embættismenn troða upp með pólitískar yfirlýsingar svo ekki sé talað um að þeir færi þær í einhvers konar faglegan búning þá getur voðinn verið vís.
Og hvað er svo sem að þessari pólitísku yfirlýsingu Pálma Freys Randverssonar, borgarhönnuðar, starfsmanns á skrifstofu Skipulags, bygginga og borgarhönnunar Reykjavíkurborgar? Hann er að ræða um tilraunastarfsemi á umferð um Borgartún, sem er nokkuð dýrari en sú sem var gerð á Hofsvallagötu.
Sáttarrof
Tilvitnunin felur það einfaldlega í sér að aðstæður skipti engu máli heldur formið og gengur þannig þvert á viðtekna sátt um skipulag þéttbýlis.
Greið umferð hefur þannig minna vægi en tafir á umferð, svo fremi sem strætisvagn valdi. Í þessu er vopnið fólgið, tefja umferð einkabíla til þess að þvinga fólk úr þeim og í strætó. Algjörlega glórulaus hugmyndafræði sem gengur út á þvingun, taka valið frá fólki og reyna að nota valdið til að breyta aðstæðum og fá fólk til fylgis við hugmyndina með góðu eða illu.
Sama hugmyndafræði byggir á því að koma í veg fyrir byggingu einbýlishúsa til að auka nýtingu lóða og byggja þeirra í stað fjölbýlissteinsteypubjörg.
Skálkaskjól fyrir rugl
Í skálkaskjóli þessarar stefnu getur meirihlutinn í borgarstjórn gert kröfu til þess að önnur ökutæki en strætó aki ekki fram úr vegfaranda á reiðhjóli. Með því móti er hugsanlega hægt að þvinga fólk til að fara leiðar sinnar á hjóli frekar en einkabíl. Einnig má leggja niður umferðaljós á gangbrautum. Nóg á að gangandi vegfarandi stig fæti út á götu til að bílar verði að nema staðar umsvifalaust.
Hin hliðin
Fleiri hliðar eru á þessu sé sá kostur valinn að fara gegn viðtekinni sátt um skipulag þéttbýlis.
Komi fyrir að í meirihluta borgarstjórnar veljist fyrir einhverja tilviljun fólk sem er andsnúið almenningsfarartækjum, reiðhjólum og gangandi vegfarendum snýst sáttarrofið upp í andstæðu sína. Tengingnum hefur verið kastað og þess vegna má gera bílismanum hærra undir höfði en öllum öðrum ismum og takmarka uppbyggingu göngu- og hjólastíga, leggja minna í strætó og svo framvegis.
Yfirlýsingahnoð
Staðreyndin er einfaldlega sú að einkabíllinn hverfur ekki þó borgaryfirvöld reyni með valdi að útrýma honum. Ekki heldur þó einhverjir embættismenn eða stjórnmálamenn hnoði saman sennilegum yfirlýsingum á borð við þá sem hér er nefnd í upphafi. Þær verða alltaf tómt rugl vegna þess eins að þegar öllu er á botninn hvolft má svo auðveldlega gagnálykta út frá þeim. Sáttarrof kemur mönnum alltaf í koll. Þegar friðurinn um skipulagsmál er rofinn verður einfaldlega ófriður. Hvað annað?
Hugmyndafræði um eignaupptöku
Hugmyndafræði núverandi borgarstjórnarmeirihluta ríður hins vegar ekki við einteyming. Hin pólitíska yfirlýsing starfsmanns á skrifstofu Skipulags, bygginga og borgarhönnunar Reykjavíkurborgar í viðtali við mbl.is þann 1. apríl 2014 er í ætt við hana. Allir vita hvað er ætlunin að gera með Reykjavíkurflugvöll, leggja hann niður og byggja blokkir. Síðan er ætlunin að taka eignarnámi eignir fólks, bílskúra sem ábyggilega eru engum til gagns nema eigendum þeirra ... Nema hvað'
Muna menn eftir fyrri vinstri meirihlutum. Einu sinni setti einhver þeirra sig mikið upp á móti því að einn einstaklingur byggi í stóru húsi eða stórri íbúð. Þá átti hreinlega að banna einum manni að búa í stærri íbúð en átta tíu fermetrum. Þetta er auðvitað sósíalismi andskotans. Hvernig getur ætternið verið annað?
Næsta kjörtímabil
Áróðurinn gegn einkabílnum, stefnan um eignaupptöku, þrenging byggðar, lokun gatna og sáttarrofið í skipulagsmálunum er ábending um það sem koma skal á næsta kjörtímabili. Jafnvel sá sem þetta ritar áttar sig á þessu þó svo að hann fari allra sinna ferða um borgina á reiðhjóli, noti ekki strætó og eigi ekki bílskúr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður ertu ekki sammála um að við kjósum fulltrúa til að vinna að bestu lausnum í allra þágu og það þýði að óheimilt verði að mynda meirihluta í Reykjavík sem stjórni í krafti valds en ekki skynsemi?
Þessi uppákoma að meirihlutinn falli frá vitlausri stefnu finnst mér merki um stjórnmálaþroska og boða nýja tíð. Sjálfstæðismenn ættu að fagna þessu og taka þátt í stefnumörkun sem fulltrúar sinna kjósenda í stað þessara átakastjórnmála sem þeir boða.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.5.2014 kl. 21:24
Kannski meirihlutinn sé tilbúinn að gefa eftir fluvöllinn. þá þurfa þeir að minnsta kosti ekki að flýta sér svona við að eiðileggja aðflugið, og kannski fengju þeir meira fylgi út á það, hver veit. Batnandi mönnum er best að lifa!
Eyjólfur G Svavarsson, 4.5.2014 kl. 13:42
Það er margbúið að fara yfir forsendur flugvallarmálsins Eyjólfur. Það var ekki eins og Dagur B hefði barizt fyrir því máli að sínu frumkvæði. Nefnd sem Sturla Böðvarsson skipaði 2005 minnir mig, komst að þeirri niðurstöðu að þjóðhagslega hagkvæmast væri að flytja miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur. Þetta geta allir lesið um á netinu ef þeir kunna að gúgla. Það að flytja miðstöð flugsins kemur ekki í veg fyrir að í Reykjavík verði áfram ein flugbraut. Þá yrði Reykjavík bara eins og aðrir áætlunarvellir sem væri þjónað af öðrum flugrekendum en Flugfélagi íslands. Allt tal um mikilvægi Reykjavíkurvallar sem varavallar fyrir Keflavík er svo mikil blekking að manni verður óglatt yfir lyginni og bullinu sem menn láta út úr sér. Staðreyndin er sú að Reykjavíkurvöllur hefur ekki verið nýttur sem varavöllur síðan Akureyravöllur og Egilsstaðavöllur voru endurbyggðir.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.5.2014 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.