Óvanir útlendingar sem villast í hrikalegar aðstæður

Vatnajokull

Göngu- og skíðaferðir um hálendi og jökla landsins geta verið ákaflega skemmtilegar og ánægjulegar og skilja eftir sig góðar minningar. Stundum er gott veður en erfitt er að treysta á slíkt.

Leiðangur fatlaðs íþróttamanns frá Bretlandi varð tilefni til dálítilla vangaveltna sem ég færi hingað í þeirri von að fleiri leggi gott til mála. Tilgangurinn eru þó engan veginn bein gagnrýni eða lítilsvirðing við ferðamanninn sem um er rætt í fréttinni, til hans og félaga veit ég of lítið.

Af reynslu minni og góðra félaga minna í fjallamennsku hér á landi þurfa að minnsta kosti nokkur atriði að vera í góðu lagi. Þessi eru þau helstu:

  1. Göngufólk þarf að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi
  2. Að baki þarf að vera mikil reynsla
  3. Útbúnaður verður að vera góður og leiðangursfólk kunni að nota hann
  4. Nesti þarf að vera rétt og gert sé ráð fyrir aukadögum í tafir
  5. Talstöðvar- eða símasamband þarf að vera við umheiminn
Oraefajokull
Eflaust má bæta við þennan lista og útfæra hann nánar. Ljóst má hins vegar vera að skemmtileg ferð á jökli getur snögglega breyst, aðstæður geta hreinlega orðið lífshættulegar. Þá skiptir andlegt og líkamlegt form leiðangursmanna miklu, fólk geti tekist á við þá erfiðleika sem að steðja án þess að láta hugfallast eða gefast upp af þreytu. 
 
Sagt er að þeim fjölgi sem leggja leið sína á Everest, hæsta fjall í heimi. Margir af þeim sem reyna sig við fjallið er ríkisbubbar sem hafa afar fátæklegan bakgrunn í fjallamennsku en ætlar að komast upp af því að það hefur efni á því. Auðvitað er gaman að geta gortað af afrekum sínum og ferðum, það er mannlegt og jafnvel skemmtilegt. Nálgun fjallamanna er hins vegar allt önnur og byggist á skipulagi og framkvæmd ferðar, mörgum einstökum sigrum á leið upp fjall. Hvert skref er í sjálfu sér sigur og síðan er það leiðin til baka sem flestir gleyma.
 
Langt er síðan að hingað til lands fóru að tínast útlendir leiðangrar af ýmsu tagi sem reynt hafa sig við Vatnajökul og talið sig vera að setja met af ýmsu tagi. Sumir hafa haldið því fram að þeir hafi fyrstir farið yfir hann frá vestri til austurs eða öfugt, sem er auðvitað tóm vitleysa. Aðrir hafa sett margvísleg önnur „met“, mörg hver hafa þó verið í heimsku og óheiðarleika.
 
Minnistæður er mér einn leiðangur sem mikið var frá sagt og þótti í heimalandi sínu stórmerkilegur hafandi sett einhvers konar „met“ á ferð yfir Vatnajökul og gert kvikmynd um afrekið. Skemmst er frá því að segja að á sama tíma vorum við nokkrir félagar á leið yfir jökulinn og komum degi síðar en hann í Grímsvötn þar sem áttu að bíða okkar matarbirgðir, vel merktar. Og hvað gerðist, jú leiðangursliðar stálu matnum okkar og átu með góðri lyst. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir sig frekar en aðrir þjófar. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem menn stela mat í fjallaskálum og þarf ekki einu sinni útlendinga til.
 
Vandinn við ferðamennsku hér er að landið er auglýst sem  sólar- og blíðuland þar sem allt er skínandi fagurt og frítt. Ég hef hitt fólk á hálendisvegum á fólksbílum og það ætlar sér yfir ár og fljót eins og ekkert sé. Á gönguferðum hef ég hitt fólk með plastpoka í hendi sem spurt hefur hvar hótelið í Landmannalaugum sé. Á Fimmvörðuhálsi hef ég ítrekað hitt vanbúið fólk sem er gjörsamlega búið að keyra sig út, heldur að uppi á Hálsinum sé veiting- og gistihús. Jafnvel á Esjunni hef ég hitt fólk á strigaskóm og margir með slíkan skófatnað hafa meitt sig í stórgrýti. Það verst er að Íslendingar eru í þessu rugli líka.
 
Í vetrarferð var ég einu sinni samferða finnskum fjallamanni sem hafði aldrei kynnst öðru eins veðurfari og hér á landi. Sama daginn hafði verið sól og blíða, síðan rigndi, eftir það snjóaði, þá kom hríðarbylur og aftur rigndi og svo kom slydda. Með allan sinn fína finnska búnað var hann að drepast úr kulda. Þetta var að vísu fyrir „flísbyltinguna“ og við samlandar vorum í stingandi föðurlandi sem hélt vel á okkur hita.
 
Staðreyndin er bara þessi: Ferðamaðurinn þarf að vera vanur, hann verður að kunna á ólíkar aðstæður og hann þarf að vera vel undirbúinn. Á þessu er mikill misbrestur jafnt meðal Íslandinga og útlendinga.
 
Nú er spáð mikilli fjölgun útlendra ferðamanna og margir hverjir eru á eigin vegum. Af reynslu minni gerist ég svartsýnn og óttast mikla fjölgun slysa í fjallaferðum á Íslandi. Spái því að innan nokkurra ára muni hjálparsveitir ekki anna útköllum miðað við óbreytt skipulag og mannafla.
 
Hvað er þá til ráða? Læt þær vangaveltur bíða að sinni. 

 

 


mbl.is „Hr. Vatnajökull, við klárum þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sum atvik og óhöpp á ferðalögum vegna mannlegra mistaka verða því miður stundum til þess að menn ausa á grundvelli sleggjudóma svívirðingum úr skálum reiði og vanþóknunar yfir ferðafólk almennt.

Þannig fékk ég nýlega gusur af reiðilestri inn á fésbókarsíðu mína vegna bloggpistils sem ég skrifaði um það hvernig tiltölulega afar lítill sparnaður í farþegaflugi hefur leitt til mikilla vandaræða varðandi leit á þotum eins og hinni malasísku.

Þetta varðar það að þrátt fyrir stórauknar framfarir í gerð rafhlaðna er verið spara innan við þúsund dollara með því að láta þær aðeins endast í mánuð við að senda merki frá týndum svörtum kössum.

Hvarf malasísku þotunnar yrði líklega til þess að krafa um endingu á rafhlöðunum yrði hert upp í 90 daga.  

Dúkka þá allt í einu upp tveir menn með athugsemdir, þar sem hellt er svívirðingum yfir vélsleðafólk almennt, sportið kallað "fávitaháttur", "fífldirfska" og ég veit ekki hvað og hvað.

Við þessi skrif, algerlega úr samhengi við bloggpistilinn, meira að segja með nafngreiningu á "fávitum" undir rós voru þessir tveir menn að dunda upp úr klukkan eitt aðfararnótt páskadags.

Ég svaraði þeim með hægð og benti þeim á að nýlega væru liðnir nokkrir vetrardagar þar sem hundruð fólks hefði dottið og beinbrotnað og spurði, hvort öll slík slys eða óhöpp eða ganga fólks í hálku almennt flokkuðust undir alhæfingu um "fávitahátt" og "fífldirfsku".

Fékk ekki svör við því.   

Ómar Ragnarsson, 21.4.2014 kl. 13:47

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Einhvern tímann sagðist einn hér í athugasemdadálki ætla að gera það að köllun lífs síns að sýna öllum fram á hversu mikil fábjáni ég væri. Það þótti mér slæmt enda fer best á því að sem fæstir viti af því.

Hins vegar eru athugasemdir við bloggið mitt oftast barnagælur miðað við þau ósköp sem stundum er ausið yfir þig. Skil ekkert í því hvernig sumir geta gert eintóm leiðindi út úr vel meinandi hugsun höfundar.

Það er eins og keppikeflið sé að sýna fram á að höfundur sé fífl og í þokkabót vondur að eðlisfari. Annars held ég að þetta séu óhjákvæmilegir fylgifiskar frægðarinnar.

Þegar ég skrifaði pistilinn hér fyrir ofan var ég mest hræddur um að einhverjir héldu að ég væri að amast við ferðum fatlaðra.

Í mörgum tilvikum eru athugasemdadálkar hreinasta gullnáma fyrir jákvæð skoðanaskipti og þar koma fram viðbætur sem auka hreinlega við það sem segir í pistlum. Stundum fæ ég athugasemdir frá góðu fólki og vel meinandi og það þykir mér verulega vænt um ekki síður að það skuli yfirleitt lesa það sem ég sendi frá mér. Við slíka hugsun hlýnar manni um hjartarætur. Ég veit að þrátt fyrir allt hugsar þú þannig.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.4.2014 kl. 15:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er betra að mismunandi skoðanir og hugsanir komi upp á yfirborðið heldur en að talað sé á bak fólki. Slíkt segir oft meira um þann sem skrifar og talar heldur þá sem hann eys níði.

Og nú sé ég á fréttinni um björgun fatlaða mannsins að hann varð veikur og fékk sótthita.

Það breytir málinu talsvert því að fæst okkar gætu hætt okkur mikið út fyrir hússins dyr ef við þyrðum það ekki af ótta við að fá einhverja pest með sótthita.  

Ómar Ragnarsson, 21.4.2014 kl. 15:49

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

Vildi bara bæta við að umræddur maður veiktist hastarlega. Slíkt getur hent hvern sem er og skiptir þar engu máli hvort menn eru fatlaðir eða ekki, vanir eða ekki vanir, íslenskir eða erlendir:)

Kveðja

Arnór Baldvinsson, 21.4.2014 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband