Góð grein Páls Magnússonar um arðinn af auðlindinni

Þetta er þó ekki efni þessa greinastúfs heldur sú miðborgarmeinloka - að það séu bara „sægreifar“ sem njóti arðsins af auðlindum í sjónum en ekki „íslensk alþýða“. Þessum málflutningi fylgja gjarnan þau hughrif, ef það er þá ekki sagt beinum orðum, að útgerðarmenn séu upp til hópa blóðugir arðræningjar og samtök þeirra skipulagður bófaflokkur. Fyrir þann sem er alinn upp í námunda við allskonar útgerð og útgerðarmenn er þetta ótrúlega alhæfingasamur og yfirborðslegur málflutningur.

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og blaðamaður, ritar góða grein í Morgunblað dagsins.

Hann ræðst gegn þeirri þjóðsögu sem Gróa á Leiti hefur statt og stöðugt reynt að koma inn hjá almenningi að þeir sem stunda útgerði séu einfaldlega bófar og arðræningjar. Auðvitað er þetta rangt og ekki til annars gert en að skapa pólitíska upplausn í þjóðfélaginu og skaða efnahagslíf þjóðarinnar svo hægt sé að sýna fram á að hið kapítalíska markaðssamfélag sé vont og þess í stað þurfi „eitthvað annað“.

Páll rekur sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Raunar er hún keimlík sögum víða um land. Harðduglegt fólk sem hefur byrjað smátt en stækkað við sig og rekur fjárhagslega sjálfstæða útgerð. Á slíkri vegferð hefur sumum tekist að að koma undir sig fótunum en öðrum ekki, saga sem er hvorki ný né gömul, þetta hefur gerst í öllum atvinnugreinum. Þannig eiga hlutirnir að vera. Vill einhver skipta á þessu og miðstýrðum fyrirtækjum í opinberri eigu? Getur einhver haldið því fram að „alþýða“ landsins hagnist þá meira af afrakstri útgerðarinnar?

Útgerðarfyrirtækin greiða skatta og skyldur og standa við bakið á samfélaginu. Það dugar hins vegar ekki úrtöluliðinu sem í heilagri vandlætingu talar um „alþýðuna“ en gleymir því að fólkið sem á og rekur útgerðir, starfar hjá þeim eða hefur framfæri sitt af þjónustu við þær er einfaldlega alþýða þessa lands. Þetta eru ekki ljótu kapítalistarnir með digran vindil í kjafti og sem berja starfsfólk sitt áfram. Nei, í langflestum tilfellum eru þetta burðarásar í samfélaginu, leggur til þess mikið fé fyrir utan skatta. Án þessara fyrirtækja myndi þjóðfélagið ekki þrífast.

Þetta á líka við um aðrar atvinnugreinar sem vinstra liðið sér ofsjónum yfir vegna þess að það er ósköp venjulegt fólk sem á fyrirtækin sín og rekur þau. Þetta eru oftast lítil eða meðalstór fyrirtæki með undir fimmtíu manns á launaskrá.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Páll Magnússon eftir að hafa rakið sögu lítils útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum:

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni? 

Undir hver orð í greininni má taka.

Mikið óskaplega er nú gott að Páll Magnússon sé laus undan oki Ríkisútvarpsins og geti loks tekið til máls um það sem raunverulega skiptir máli fyrir þjóðfélagið, atvinnulífið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Hann er nú ekki "sonur hans pabba síns" fyrir ekki neitt. - Laus undan oki RÚV segir þú...en hann getur talað Sjall-málið reiprennandi..Engu gleymt, var bara geymt um stund.

Tækifærissinni, var þetta kallað síðast þegar ég vissi.... En hann þarf nú að fara að huga að því hverja hann þekkir og úr hvaða ranni hann í raun er. - Launin sem við borgum honum meðan hann er á "bið" renna út fyrr en varir....

Þessir hálaunamenn verða aldrei í takt við hið raunverulega í þjóðfélaginu....eins og greinin hans sannarlega sýnir.

Már Elíson, 5.4.2014 kl. 12:51

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Pabbi hans var nú alla tíð krati ...

Ég borga Palla engin laun, Ríkisútvarpið gerir það.

Mér finnst Páll vera ágætlega í takt við raunveruleikann í þjóðfélaginu, dreg þá ályktun af greininni og út á það gengur pistillinn minn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.4.2014 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband