Þeir sömu og skrökvuðu um Icesave segja nú ósatt um ESB
10.3.2014 | 09:02
Úr háskólunum kom lofsöngurinn um snillingana, fræðimennirnir klöppuðu hrifnir með, allskyns forsvarsmenn út atvinnulífinu drógu ekki af sér og heill stjórnmálaflokkur lagðist flatur. Þjóðþekktir rithöfundar og listamenn dásömuðu útrásarhöfðingjana. Allir sameinuðust svo um að níða þá fáu sem voru grunaðir um að vera ekki á bandi útrásarvíkinganna.
Mikið óskaplega er gaman að lesa einlæga og vel skrifaða grein og ekki spillir fyrir að vera eitthundrað prósent sammála höfundinum að lestrinum loknum. Í Morgunblað dagsins ritar Ósk Bergþórsdóttir, sem kallar sig húsmóður, aldeilis frábæra grein. Hún rekur í hóflegu háði (get ekki fundið aðra lýsingu) æfingar hinna bráðungu eigenda milljarða hlutafjár í stórum almannahlutafélögum.
Margt venjulegt fólk átti bágt með að skilja þetta. En skilninginn vantaði ekki annars staðar og þar hikuðu menn ekki við að sannfæra venjulega Íslendinga um að í viðskiptalífinu væri allt gull sem glóði.
Og Ósk rekur Icesave og kröfur gáfumennanna um að við tækjum á okkur skuldir annarra og svo segir hún:
Og enn eru þeir komnir. Nú er það hvorki útrásin né Icesave, heldur er það umsókn Íslands í Evrópusambandið sem alls ekki má afturkalla, þótt hvorki þing né þjóð vilji fara þangað inn. Elítuna langar inn. Þess vegna krefst hún þess að inngöngubeiðnin hennar standi óhögguð, hvað sem lýðræðislega kjörnu Alþingi finnst. Þeir óforskömmuðustu leyfa sér meira að segja að kalla það sáttatillögu, að inngöngubeiðnin fái að standa í mörg ár enn, í óþökk Alþingis.
Menn sem aldrei sáu neitt að því hvernig Jóhanna og Steingrímur reyndu ítrekað að koma Icesave á herðar komandi kynslóða, eða hvernig þau réðust gegn stjórnarskránni eða hundeltu pólitíska andstæðinga, standa núna þrútnir af réttlætiskennd yfir því að lýðræðislega kjörnir alþingismenn ætli að voga sér að draga umsókn Íslands í ESB til baka.
Oft á dag segja þeir þjóðinni, sem ekki vill að Ísland gangi í ESB, að Ísland eigi samt að vera umsóknarríki í ESB. Staðreyndin er hins vegar auðvitað sú að þegar umsóknin er ekki afturkölluð líta allir svo á að Ísland hafi ákveðið að ganga í ESB.
Það er dæmigert að þeir, sem telja þetta sjálfsagt mál, séu einmitt þeir sömu og aldrei sáu neitt að því að íslenska þjóðin, venjulegt fólk, tæki að ósekju á sig Icesave-skuldirnar.
Allt er þetta svo hárrétt hjá Ósk að vart er neinu við að bæta. Sama liðið lemur nú skildi og hristir spjót á Austurvelli og við það hefur bæst hræðslukór fjölmargra atvinnurekenda. Allir heimta að aðlögunarviðræðurnar verði teknar upp aftur en enginn þeirra hefur fyrir því að skýra út fyrir almenninga hvað aðlögunarviðræðurnar þýða.
Þær þýða ekki að gerður verði samningur um ævarandi yfirráð Íslendinga yfir eigin fiskimiðum, þær þýða ekki að íslenskur landbúnaður fái að þróast og dafna og styrkja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þær þýða ekki að Ísland fái að halda fullveldi sínu. Og hver er ástæðan? Jú, samkvæmt reglum ESB verður umsóknarþjóð að taka upp öll lög og reglur ESB og samþykkja Lissabonsáttmálann. Þetta er markmiðið með aðlögunarviðræðunum
Og rétt eins og skrökvað var að okkur almenningi þegar við áttum að taka á okkur skuldir óreiðumanna er enn verið að skrökva að okkur um eðli viðræðna við ESB. Finnst engum undarlegt að þarna eru sömu aðilarnir komnir?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2014 kl. 11:10
Já Sigurður mikið er ég sammála þér, það sem mér finnst líka svo ömurlegt er að það er hópur af fólki að mótmæla þó svo að það vilji ekki inn í ESB, vilja bara fá að sjá samning...
Fólk er ekki að gera sér grein fyrir því hvað það þýðir að sjá þennan ESB samning, að fá að sjá samningin á borði er ekki hægt fyrr en regluverk ESB hefur verið innleitt hér.
Það er kannski lausn að senda regluverk ESB inn á öll heimili Landsmanna og Landsmenn lesi og kynni sér regluverkið ásamt Lissabonsáttmálanum og þeir sem eru efins gefi sér tíma fram að næstu Alþingiskosningum...
Þar með er hægt að segja að allir fái að sjá samninginn sem í boði er þegar í enda er komið..
Meirihluti Þjóðarinnar sagði hug sinn í þessu ESB máli í síðustu Alþingiskosningum þegar meirihluti Þjóðarinnar kaus þá 2 flokka í meirihluta sem höfðu það ofarlega á stefnuskrá sinni að inn í ESB vildu þeir ekki fara og því er ekkert eðlilegra en að afturkalla þessa ESB umsókn og þeir sem eru ósammála því verða bara að bíta í sitt súra epli...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 10.3.2014 kl. 14:35
Alveg sammála þér. Undarlegt að fólk skuli ekki vera betur að sér en svo að það haldi að samningar hafi verið í gangi milli Íslands og ESB. Sé svo, um hvað hefur verið samið hingað til?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.3.2014 kl. 14:40
Sammála þessum pistli Sigurður.
Svo má ekki gleyma því að allt þetta umsóknarbrölt og aðlögunarviðræður eru búnar að kosta skattgreiðendur vel á fjórða milljarð var ég að heyra - og tekið fram að um mjög varlega áætlun sé að ræða og kostnaðurinn sé mun meiri.
Við höfum ekki efni á nokkurra hundraða milljóna lífsnauðsynlegum tækjabúnaði á Landsspítalann, en marga milljarða umsóknarbrölt þykir fólki í lagi ! Eitthvað er skrítið í kýrhausnum þeim eins og sagt er.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.3.2014 kl. 20:16
(y) (y) (y)
Ívar Páll Arason, 10.3.2014 kl. 23:05
Ég skil sammt ekki hræðsluna við að taka upp lög ESB. Við tökum upp c.a 70 % af lögunum nú þegar. Það væri gaman ef þeir sem eru svona á móti ESB mundu berjast fyrir því að fella úr gildi þau lög sem eru komin.
Ómar Már Þóroddsson, 11.3.2014 kl. 23:32
Ómar Már.
Þetta er langt í frá raunveruleikinn - hún er í eins stafa tölu. Ca. 4-6 % samkvæmt úttekt i fyrra minnir mig.
Ekki gleyma að allt laga og regluverk sem ESB krefst að við tökum upp í aðl-guninni er 100.000 bls. !
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.3.2014 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.