Loforð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og ósannindi Samfylkingar
3.3.2014 | 09:07
Stefna Sjálfstæðisflokksins var mótuð með skýrum hætti á síðasta landsfundi, sem taldi að hagsmunum Íslands væri betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað var að aðildarviðræðum við ESB yrði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta segir Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, í vel skrifaðir og málefnalegri grein í Morgunblaði dagsins. Ég er fyllilega sammála honum. Tvö mikilvæg atriði vil ég hins vegar bæta við og þau þurfa jafnt sjálfstæðismenn sem andstæðingar þeirra að átta sig á:
Loforð forystu Sjálfstæðisflokksins
Ekki eins og hægt sé að láta sem forystumenn flokksins, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, hafi í aðdraganda síðustu þingkosninga hafi ekki lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fjölmiðlar hafa rakið ummæli formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins í þá veru sem og annarra ráðherra. Þessi ummæli gengu lengra en landsfundarsamþykktin og raunar óskiljanlegt að þau skuli hafa leyft sér slíkt.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Hitt skiptir afar miklu máli, jafnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem og þjóðina, að gert sé út um það deilumál sem aðildarumsóknin að ESB hefur valdið meðal þjóðarinnar. Ég hef haldið því fram margoft áður og geri það enn, að ríkisstjórnin á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og besti tíminn til þess væri næsta haust. Þar með verður umsókninni í eitt skipti fyrir öll ýtt út af borðinu miðað við óbreyttar aðstæður því ég er ekki í vafa um að þjóðin mun hafna henni.
Aðlögunarviðræður búa ekki til samning
Að þessu sögðu þarf að hafa það í huga að viðræður við ESB um aðild gefa ekki samning. Þessu hafa nær allir þingmenn Samfylkingarinnar logið að þjóðinni og bent á samning sem Norðmenn, Svíar, Finnar og Austurríkismenn fengu er þjóðarinnar sóttu um aðild á tíunda áratug síðustu aldar.
Samfylkingarliðið sleppir hins vegar að nefna það að síðan hefur reglum um aðildarumsókn verið breytt og ESB gefur ekki kost á samningum eins og glögglega kemur fram í reglum sambandsins. Þetta hefur stækkunarstjóri þess einnig staðfest svo óumdeilanlegt er.
Engar undanþágur í boði
Þar af leiðandi er útilokað að benda á einn einasta samning um undanþágur frá lögum og reglum ESB frá því að reglunum var breytt. Hins vegar þreytast ESB sinnar ekki á því að tala í kringum hlutina og halda því fram að alltaf sé hægt að ná samningum enda sé slíkt eðli allra samninga. Það er bara rangt. Viðræður við ESB eru ekki samningaviðræður.
Ástæðan fyrir ósannindum Samfylkingarinnar
Þar af leiðandi er ekki hægt að halda áfram aðlögunarviðræðunum við ESB vegna þess að þær leiða til þess að við tökum upp allar 100.000 blaðsíðurnar af lögum og reglum sambandsins og niðurstaðan er aðeins ein: Ísland verður aðildarríki að ESB með eða án aðild. Já, sérkennilegt er þetta og í því liggur ástæðan fyrir því að Samfylkingin vill halda samningaviðræðunum við ESB áfram.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.