Finn nú skyndilega fyrir greindarskorti og athyglisbresti ...

Svíar kalla nú ekki allt ömmu sína þegar kemur að rannsóknum. Nú hafa þeir uppgötvað að því eldri sem feður eru því meiri áhætta fyrir andlega heilsu barnanna.  Sko ... ég krosslagði fingur og bað til guðs um að greindarskortur fylgdi ekki í ofanálag við athyglisbrest, tvískautaröskun, geðklofa og önnur persónuleg óþægindi barna sem við fæðingu eiga föður eldri en fjörtíu og fimm ára. Ég var ekki bænheyrður.

Alltaf þegar ég les eitthvað um sjúkdóma og pestir finn ég til einkenna sem eiga tvímælalaust við þá. Faðir minn hafði eitt ár yfir hálfri öld er ég fæddist og nú, allskyndilega, finn ég greinilega fyrir greindarskorti og tvískautaröskun. Er þó ekki alveg viss um hvað hið síðarnefnda er en það skýrist af hinu fyrrnefnda.

Verst af öllu er að ég er yngstur af nærri tug systkina. Nær alla æfi hafa þau haft það fyrir reglu að benda mér á yfirsjónir mínar og sömuleiðis á þá borðliggjandi staðreynd að að þau hafi rétt fyrir sér en ég ekki. Að sjálfsögðu trúði ég þeim aldrei sem er ábyggilega afleiðing af alvarlegum greindarskorti. Enginn má þó við margnum en í sjálfsvörn minni datt ég út í þá ósvinnu að tala langt og flókið mál. Það hefði ábyggilega verið tekið sem glöggt dæmi um tvískautaröskun ef einhver hefði á æskuárum mínum dottið í hug að brúka það orð yfir þá þungbæru raun að þurfa að standa fyrir orði mínu og á eftir þá gleði að losna undan því.

Svíar eru manna skynsamastir og glöggastir. Þeir hafa fundið út margt gagnlegt eins og að meiri líkur eru á því að barn verði örvhent lesi konur í rúminu á kvöldin. Einnig munu meiri líkur vera á því að sá sem hreyfir sig lítið fái hjartaáfall. Sömuleiðis eiga þeir sem hreyfa sig mikið í meiri hættu að snúa á sér ökklann en þeir sem hreyfa sig lítið eða ekkert.

Ójá, og ekki er enn allt upptalið. Þeir fundu það líka út að hættulegasti staðurinn sé rúmið heima, þar deyi flestir. Það finnst mér eiginlega dálítið vafasamt og raunar rangt því þar hefur enginn hefur dáið, svo ég viti til, er ég þó daglega heima hjá mér.

Hins vegar kann það að vera merki um athyglisbrest af minni hálfu. En samt ...


mbl.is Eldri feður auka líkur á geðröskunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband