Enn skelfur jörð við Jarlhettur
11.2.2014 | 15:26
Athyglisvert er að fylgjast með jarðhreyfingum við Langjökul. Fjölmiðlar hafa hins vegar ekki sama áhuga á þeim og ég. Enginn þeirra hefur fjallað um þá. Líklega eru þeir frekar ómerkilegir, það er jarðskjálftarnir en ekki fjölmiðlarnir ... Engu að síður eru þeir sjaldgæfir á þessum slóðum, að minnsta kosti undanfarin ár.
Hérna er loftmynd af svæðinu fyrir suðaustan við Hagavatn. Þar, suðvestur af Jarlhettum, hafa nokkrir jarðskjálftar mælst.
Skjálftarnir hafa þróast þannig að þeir flytjast úr suðvestri í norðaustur eins og sjá má á skráningunum við þá. Hugsanlega eiga þeir uppruna sinn lengst úti á Reykjanesi, t.d. í haust. Svo hliðrast misgengin til, allt upp í Langjökul. Litlar líkur eru á því að þeir eigi rót í einhverjum kvikuhreyfingum.
Kortið er fengið úr Google Maps en ég skrifaði örlítið inn á það, örnefni og stærð, dags-, tímasetningu og dýpi skjálfta.
Vandinn er eiginlega sá að maður þyrfti að geta séð staðsetningu skjálfta í þrívídd til að átta sig á þeim og þó dugar það ef til vill ekki fyrir okkur leikmenn. Meðfylgjandi loftmynd finnst mér hins vegar vera dálítið meira upplýsandi en jarðskjálftakort Veðurstofunnar.
Forvitnilegast er að skjálftarnir hanga í Jarlhettum, þessum fallega 16 km langa móbergshrygg sem eitt sinn voru huldir jökli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.