Aldrei heyrði ég almennilega hvað hún Helga söng ...
22.12.2013 | 17:04
Eitt kostulegasta jólalag sem fyrirfinnst er líklega það sem hin ágæta söngkona Helga Möller syngur og glumið hefur í útvörpum allra landsmanna í tugi ára og er orðið límfast í hausnum á manni. Það eru engin jól nema það heyrist.
Þetta er auðvitað lagið Aðfangadagskvöld, en textann gerði Þorsteinn Erlingsson og Gunnar Þórðarson samdi lagið. Svona er fyrsta erindið
Eitt sinn voru mjög fátæk hjón,
tvö að ferðast, dag og nótt,
uns þau komu í litla borg,
en konan, var með sótt.
Það var skemmtun borgin
að hjálpa þeim sem þurftu.
Og alls staðar var sama svar:
Snautið í burtu!
Þannig var að í mörg ár gat ég aldrei almennilega heyrt hvað söngkonan tónaði þarna í viðlaginu. Það er svona í opinberri útgáfu:
Það var aðfangadagskvöld,
fyrsta aðfangadagskvöld að jólahátíðinni,
þetta aðfangadagskvöld
fyrsta aðfangadagskvöld
er enn barnahátíðin mest,
la la la la barnahátíðin best.
Ég feitletra hérna það sem ég aldrei gat greint, raunar ekki fyrr en ég las þennan texta fyrir nokkrum dögum. Maður þorir varla að segja frá þessu, svo mikið skammast maður sín, en tóneyrað mitt heyrði alltaf sungið:
... er eldvarnarhátíðin best
Mér til varnar er að atkvæðin í misskilningnum eru jafnmörg og hrynjandin hin sama. Auðvitað vissi ég innst inni að þarna væri ég að misskilja eitthvað. Og enn í varnarskyni finnst mér textinn dálítið hnoð, finnst að höfundurinn sé dálítið að rembast þarna. Held að honum hafi oft tekist miklu betur upp.
Hitt er þó annað mál að ósjálfrátt raular maður með ... eða hummar enda er lagið vel samið. Takturinn kemur samt út með textann í undurfurðulegum skömmtum.
Það var- aðfanga-dags-kvöld,
fyrsta- aðfanga-dags-kvöld- að jólahátíð-inni,
þetta- að-fanga-dags-kvöld
fyrsta- að-fanga-dags-kvöld
er eldvarnar-hátíðin best
la la la la eldvarnar-hátíðin best.
Ég bið svo alla aðdáendur lags, texta og flytjanda mikllar afsökunar enda er tón- og brageyra mitt ekki upp á marga fiska, eiginlega til háborinnar skammar.
Þó er ekki laust við að mér þyki þetta dálítið hlægilegt allt saman og sú er eiginlega ástæðan fyrir því að ég segi frá þessu. Maður er náttúrulega alveg stórskrýtinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.12.2013 kl. 01:34 | Facebook
Athugasemdir
Já það getur verið afar spaugilegt þegar mann misheyrist framburður texta. Rifjum oft upp í fjölskyldu minni þegar einn af yngstu sonum mínum,heyrðist Vilhjálmur heitinn syngja “átján mækar” í stað “Á Jamaica”..
Helga Kristjánsdóttir, 23.12.2013 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.