Skúmhöttur, dimmt fjall eða með skýja hetti

Skumhottur
Um daginn fjallaði ég nokkuð um náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar og var það daginn sem hann var til moldar borinn.
  
Þá sendi Austfirðingurinn Ómar Geirsson mér línu í athugasemdadálki og sagði þetta:  
 
Ef þú vissir svo síðan merkingu örnefnisins Skúmhöttur, þá væri mér mikill fengur að fá að vita, því ég hef oft spáð í merkingu þess.
 
Allavega þá eru þetta skemmtilegar pælingar, það er að spá í uppruna orða sem við fengum í arf, notum en samt vitum ekki alveg merkingu þeirra. 
 
Ég svaraði Ómar og sagðist vita að Skúmhöttur væri hátt og fallegt fjall í Skriðdal, 1.220 m hátt. Annað fjall með þessu nafni er norðan við Vaðlavík, ca. 880 m hátt. Hið þriðja er í fjöllunum sunnar Borgarfjarðar fyrir austan, vestan Húsavíkur og norðan Loðmundarfjarðar, 778 m hátt.

Ég gúgglaði nafni enda hafði ég ekki hugmynd um merkingu þess. Á Wikipetiu hefur einhver skrifað þetta:

Skúmhöttur er úr líparíti, eða ljósgrýti, og er því bjartur yfirlitum. Fyrri liður nafnsins, „skúm“, getur þýtt ryk, dimma (húm) eða hula (skán), og vísar kannski til þess að á tindinum er dökkt líparítlag. En líklegra er þó að nafnið sé til komið vegna þess að stundum leika þokuhnoðrar um tindinn, og hylja hann sjónum, og er þá eins og fjallið sé með „myrkrahatt“. 

Þetta fannst mér ekki alveg nógu góð skýring og velti orðinu skúm dálítið fyrir mér. Í því er lykillinn fólginn að mínu mati. Líkast til væri merkti orðið eitthvað sem er dökkt eða dimmt. Fuglinn skúmur fellur að landinu vegna þess að hann er brúnleitur, dökkur eins og landið sem hann lifir sem mest í. Ég var samt ekki viss og sendi því tölvupóst á Örnefnasafn Árnastofnunar.
 
Í dag fékk ég svar frá Hallgrími J. Ámundasyni, verkefnisstjóra á Árnastofnun, og hann hefur með höndum örnefni ásamt fleiru. Hann segir í bréfinu:
 
Skúm- getur haft nokkur merkingartilbrigði. Skúm getur verið haft um ryk eða rökkur. Skúmaskot merkir þannig líklega skot þar sem birta nær illa til, dimmt skot. Skúmur er bæði haft um skuggalegan mann og líka um fugl af kjóaætt. Nafnið á fuglinum vísar áreiðanlega til dökka litarins.

Örnefnin sem hafa Skúm- í sér geta þannig vísað hvorttveggja til fuglsins eða dökks litar. Skúmhöttur er sagður vera oft þoku hulinn og kann nafnið að vísa til þess. Skúmsstaðir hafa verið til a.m.k. tveir á landinu en ekki er ljóst hvort það vísar til fuglsins eða hvort maður kynni að hafa borið þetta sem nafn eða viðurnefni. [...]

Hér er fróðleikur um fuglinn sem ég rakst á á netinu: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2708492

Ef maður ber orðið skúm- saman við orð í öðrum málum er ljóst að orðið hefur upphaflega merkt eitthvað sem var dimmt eða dökkleitt. Í færeysku er svipað orð t.d. haft um dökkleitt sauðfé. 
 
Þetta þótti mér gott svar og ekki síst niðurlagið, um að orðið sé t.d. haft í færeysku um dökkleitt sauðfé. Held að þetta komi mörgum á óvart.
 
Niðurstaðan staðfestir með þessu að hér er um að ræða eitthvað sem er dökkt eða dimmt, rétt eins og segir í Wikipediu hér að ofan. Það er svo annað mál hvort fjallið Skúmhöttur í Vöðlavík, Skúmhöttur í Skriðdal eða Skúmhöttur í Borgarfirði eystra séu öll eins, dimmleitt og þaðan komi nafnið eða ský hylji þau oft og þannig hafi örnefnið myndast.
 
Myndin er tekin á Borgarfirði eystri og er horft suður eftir fjallasalnum og örin bendir á Skúmhött.
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þórhallur fjallaði um nafnið á Skúmsstöðum og Skúmsstaðavatni í Landeyjum á fyrirlestri hans, sem ég sótti og gerði gys að útskýringu Landnámu: "Skúmur hét maður og nam land á Skúmsstöðum."

Þórhallur fann allmörg vötn í Skandinavíu með nafninu Skomsjö, en slík vötn fengu þar nafn vegna litar síns, þ. e. þau voru ekki tær.

Hið sama á við um Skúmsstaðavatn, sem er gruggugt að lit. Þórhalli fannst líklegt að upphaflega hefði vatnið heitið Skúmsvatn svipað og álíka vötn á heimaslóðum landnámsmanna.

Síðan hefði bærinn fengið nafnið Skúmvatnsstaðir, sem hefði kannski styst í Skúmsstaði, og vatnið síðar breytt um heiti, Skúmsstaðavatn, enda búið að finna upp sérstakan landnámsmann til að láta bætinn heita eftir.

Della?

Nei, ekkert einsdæmi. Eitt af skörðunum í Langadalsfjalli í Austur-Húnavatnssýslu hét upphaflega Geitaskarð. Bærinn fyrir neðan skarðið fékk síðan sama nafn, Geitaskarð, en eftir það breyttist nafnið á skarðinu yfir í Skarðsskarð! Della?  Já, en augljós tilhneigin eins og með Skúmsvatn.

Nú er um síðir víst aftur farið að kalla skarðið Geitaskarð og er það vel.

Norðvesturendi Vatnsdalsfjalls hét Öxl og bærinn undir henni fékk sama nafn.

Síðar sneru menn þessu við og fóru að láta fjallið draga nafn af bænum og nefna hana Axlaröxl!  Della? Nei, staðreynd.

Laxness sá kómikina í þessu með því að finna upp bæinn Fót undir Fótarfæti.   

Ómar Ragnarsson, 19.12.2013 kl. 23:45

2 Smámynd: Sesselja Guðmundsdóttir

Varðandi örnefnið Skúmhött f. austan:  Mér hefur alltaf fundist nafnið gangsætt. Skúm = þoka og höttur= toppur. Austfjarðaþokan er landsfræg. Orðið húsaskúm var til í minni æsku og merkti  'rykvefi' ´í skotum, einskonar þokutásur.

Skúm(s)örnefnin í Landeyjum eru fastlega dregin af fuglinum skúmi.

Orðið 'skúm' þarf ekki ekkert endilega að tengjast einhverju dökku,  alveg eins einhverju sem er hulið - eða óljóst.

Skúmhöttur er fallegasta fjallsnafn á landinu!

Sesselja Guðmundsdóttir, 20.12.2013 kl. 01:09

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sesselía, ég er sammála og hef það á tilfinningunni „að orðið ‚skúm‘ ekki ekkert endilega að tengjast einhverju dökku, alveg eins einhverju sem er hulið - eða óljóst“, eins og þú orðar það.

Bestu þakkir fyrir innlitið, Ómar. Þetta er afar fróðlegt og minnir mig á þegar ég var í Útivist og var eitthvað að þenja mig út af kjörnefnd sem í félaginu var kölluð „nefndanefnd“, fannst þetta ægilegavitlaust nafn. Benti á hliðstæður eins og Hoffellsfjall, Staðarstað, Hólahóla og annað álíka, vitlausar tvítekningar í örnefni. Og undirtektirnar voru bara ansi góðar á þessum aðalfundi. Þá stóð formaðurinn félagsins upp og sagði að þetta væri allt hárrétt hjá síðasta ræðumanni en vildi bara minna á að nafn mannsins væri Sigurður Sigurðarson. Þá sprakk salurinn og hló lengi og innilega en ég hafði vit á að þegja það sem eftir lifði fundar.

Hvað skyldu vera til mörg örnefni sem eru tvítekningar, eins og til dæmis Axlaröxl, Hólahólar eða Staðarstaður?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.12.2013 kl. 11:18

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Sigurður.

Ég er þó nokkuð nær, finnst líklegt að örnefnið tengist skýjaleiðingunum sem oft hylja tindinn, þegar annars hvergi sést ský á himni.

Ég sá að frændi minn úr Víkinni tók undir þessa skýringu á Feisbók, sagði oft hefði hann séð Skúmhött með þokubakka efst.

Svona er þetta, maður notar oft orð án þess að hugsa útí merkingu þeirra, en er fróðari á eftir þegar hugsanleg merking þeirra er krufin.

Og lokaorð mín eru stolin, en sagt vildi ég hafa þau líka.

"Skúmhöttur er fallegasta fjallsnafn á landinu!".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.12.2013 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband