ESB að verða sama bitbeinið og herstöðin og Nató

Þótt gert hafi verið út um málið í síðustu þingkosningum hefur ríkisstjórninni tekizt með vandræðagangi að vekja upp óvissu um framhaldið og hvernig og hvenær hinu formlega umsóknarferli verður lokið.

Sigmundur Davíð sagði á þingi í gær, að Evrópusambandið hafi með ákvörðun um að hætta greiðslum IPA-styrkja slitið viðræðum af sinni hálfu.

Úr því að forsætisráðherra lítur svo á verður að vænta þess að ríkisstjórn hans fylgi því mati hans á afgreiðslu framkvæmdastjórnar ESB á IPA-málinu eftir.

Hvernig ætlar hann að gera það?

Með ályktun frá Alþingi?

Í ljósi þess að það er forsætisráðherra sjálfur sem talar á þennan veg er ljóst að hann getur ekki látið þessa skoðun sína hanga í lausu lofti.

Hann hlýtur að fylgja orðum sínum eftir.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins á Evrópuvaktinni. Hann vekur hér máls á því að endanleg niðurstaða hefur ekki fengist í aðildarumsóknina að ESB.

Ég er einn þeirra sem krefst þess að þjóðin taki afstöðu til aðildarinnar. Þetta mál er pólitískt í eðli sínu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tóku þá ákvörðun að virða skoðun þjóðarinnar að vettugi og sækja um aðild án þess að spyrja um leyfi.

Hún skrökvaði því að landsmönnum að hægt væri að gera „samning“ við ESB sem jafnvel gengi gegn Lissabonsáttmálanum, sjálfri stjórnarskrá ESB. Þegar sá „samningur“ hefði litið dagsins ljós væri hægt að greiða atkvæði um hann. Og þessu hafa fylgismenn aðildar haldið fram hingað til jafnvel þó sjálft valdið í Brussel haldi allt öðru fram.

Ágreiningur um aðildina hefur verið mikill, rétt eins og um aðildina að Nató og veru varnarliðsins var í áratugi bitbein milli fylkinga í landinu.

Við höfum ekki efni á að eyða tímanum í þrátefli vegna hugsanlegrar aðildar að ESB. Þess vegna er tími kominn til að leggja málið í þjóðaratkvæði. Best væri að fá þetta mál út úr heiminum næsta vor enda hef ég enga trú á öðru en að þjóðin hafni aðildinni, rétt eins og skoðanakannanir hafa alla tíð sýnt.

Raunar skil ég ekkert í ríkisstjórninni að hafa ekki tekið ákvörðun um þjóðaratkvæði um ESB aðild. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldinn

Það er rétt hjá þér Sigurður að það er vont að hafa málið í þessum farveg.  Eina vitið er að klára viðræður og kjósa svo.  Ég get einnig fallist á að kjósa um hvort halda eigi viðræðum áfram.

Baldinn, 17.12.2013 kl. 11:03

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, bestu þakkir fyrir innlitið. Það er ekki hægt að halda áfram viðræðum við ESB. Ástæðan er einfaldlega sú að þær eru aðeins fyrir þær þjóðir sem ætla að ganga inn í sambandið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.12.2013 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband