Hjörleifur tugtar Steingrím J. til vegna ESB
5.12.2013 | 10:20
Í umdeildri ályktun landsfundar í mars 2009 sagði síðan: Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér kemur fram sú tvöfeldni sem fylgt hefur málflutningi VG-forustunnar alla götu síðan.
Í sjónvarpsumræðum flokksformanna kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 þvertók Steingrímur fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB. Orðrétt sagði hann við alþjóð: Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.
Hálfum mánuði síðar var búið að gera aðildarumsókn að Evrópusambandinu að leiðarljósi nýrrar ríkisstjórnar og lagt að þingmönnum VG að styðja tillögu þar að lútandi.
Þetta segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni Skriftamál Steingríms J og ESB-aðildarumsóknin og finna má að honum er þungt niðri fyrir.
ESB-umsóknin hefur legið eins og mara á óbreyttum flokksmönnum VG. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar flokksforystan hreyfði engum mótmælum þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði fram tillögu um aðildarumsókn fyrir Alþingi og fékk meirihluta.
Almennir flokksmenn sem stóðu utan við klíku forustu VG urðu afar reiðir og síðan hefur gneistað á milli þeirra og forustunnar sem þó hefur jafnan haft betur í atkvæðagreiðslum innan flokksins. Ekki samt án fórna. Fjöldi fólks sagði sig úr VG og niðurstöður síðustu þingkosninga voru hrikalega slæmar fyrir flokkinn meðal annars vegna afstöðunnar til ESB. Og enn furða þeir sem eftir eru í flokknum sig á hlandvolgri afstöðu forustunnar til ESB.
Að baki grein Hjörleifs virðist tvennt liggja til grundvallar. Annars vegar bein svik vegna ESB-umsóknarinnar og viðhorf til ESB og svo hins vegar reiði hans og annarra vegna þess að forustan einangraði sig frá almennum flokksmönnum og lét eins og stefnuskrá flokksins skipti minna máli heldur persónulegur frami einstakra manna.
Þetta endurspeglast í eftirfarandi orðum Hjörleifs. Þau eru gríðarlega ávirðing á störf og stefnu Steingríms og hann sakar Steingrím um þekkingarleysi. Hvað er verra að segja slíkt við formann flokks og geta fært fyrir því óhrekjanleg rök (greinaskil og feitletranir í tilvitnunum eru mínar):
Svo virðist sem Steingrímur og fleiri í forystusveit VG hafi haft mjög takmarkaða þekkingu á leikreglum ESB áður en ákvörðun var tekin um að sækja um aðild.
Í aðdraganda umsóknar Íslands vísaði forysta VG t.d. ítrekað í aðildarsamning ESB og Noregs frá árinu 1994. Eftir aldamótin 2000 hafði framkvæmdastjórn ESB hins vegar breytt leikreglum, innleitt svonefnt aðlögunarferli, og útdeilir í því skyni umtalsverðum fjármunum í formi IPA-styrkja.
Þetta fé er notað í aðdraganda aðildar til að undirbúa lagaumhverfi og stjórnsýslu umsóknarlandsins og til að plægja akurinn að öðru leyti, hérlendis m.a. með rekstri sérstakrar ESB-skrifstofu.
Steingrímur talar um fjandans IPA-styrkina og segir ástæðuna að þeir voru notaðir í andspyrnunni gegn málinu, algjörlega að ósekju að hans mati (s. 149).
Kærleikar eru greinilega litlir milli Hjörleifs og Steingríms en hvernig má annað vera þegar sá síðarnefndi hefur gjörbreytt stefnu VG upp á sitt eindæmi og fylgi flokksins er svo að segja í rjúkandi rúst. Lesandinn fær þá mynd af Steingrími að hann sé erfiður í umgegni, einangraður og lýðræðisást hans sé frekar í orði en á borði.
Ef til vill er Hjörleifur ekki besta heimildin um Steingrím. En hverjir yfirgáfu þingflokk VG á síðasta kjörtímabili og hvað sögðu þeir hinir sömu um formanninn og ástæður sínar? Her falder brikkerne på plads, eins og danskurinn segir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hjörleifur Guttormsson er góð heimild um Steingrím og það er Ragnar Arnalds líka. Óheiðarleiki og sjálfmiðun og svik Steingríms koma enn skýrar fram í flótta trausts fólk úr VG út um allt land og í ýmsum yfirlýsingum fólksins. Steingrímur er ómerkingur.
Elle_, 5.12.2013 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.