Væri Vífilsfell ekki á sínum stað vantaði mikið

Vífilsfell2

Við gos undir jökli myndast móbergsfjöll, og nái gosið að bræða sig upp úr jöklinum þannig að ekki komist bræðsluvatn að gígnum renna hraun. Slík fjöll, með hraunlögum ofan á móberginu, nefnast stapar.

Þekktustu dæmin um stapa á Íslandi eru Hlöðufell og Herðubreið. [...]  

Stallurinn á Vífilsfelli er stapi, það er efsti hluti hans er blágrýtislög en móberg undir.

Toppurinn á Vífilsfelli er hins vegar yngri myndun sem liggur ofan á blágrýtinu og utan í vesturhlíð stapans. Hann er úr móbergi og er hluti af NV-SA gossprungu sem teygir sig frá Henglafjöllum suður fyrir Sandskeið. [...]

Vífilsfell er semsagt myndað í tveimur gosum, þar sem hið síðara varð undir þykkari jökli en hið fyrra -- sennilega hvort á sínu jökulskeiði.

Ekki Vífilsfell2

Mér þykir afskaplega varið í Vífilsfell. Tel það með fallegustu fjöllum á landinu. Bæði er að tilsýndar er það einkar fallegt, sérstaklega úr norðri eða vestri. Ekki síður er móbergið uppi á toppfjallinu afskaplega fallegt, sérstaklega sunnan megin.

En hvernig skyldi Vífilsfell líta út ef toppurinn hefði ekki myndast samkvæmt því sem segir hér að ofan (tekið af Vísindavef Háskóla Íslands)?

Einhverjir gætu nú gert þetta betur en ég, en þetta var tilraunarinnar virði. Raunar hefði ég líka átt að fjarlægja Vífilsfellsöxl, það er fellið vinstra megin við Vífilsfell.

Mikið ansi verður nú fjallagarðurinn kollóttur og lítið skemmtilegur ef toppurinn á Vífilsfelli væri þar ekki. Eflaust hefði stapinn fengið annað nafn, Vífill leysingi hefði ábyggilega ekki nennt að hlaupa upp á þessa þúfu til þess að kanna fiskigengd í Faxaflóa eins og sögusagnir herma.  

Svona virðist nú landslagið vera rétt saman sett að maðurinn getur eiginlega ekki bætt um betur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband