Sjálfstæðisflokkurinn týndur í borgarmálunum
22.11.2013 | 10:25
Meirihluti almennings er án efa þannig gerður að hann vill fá að vera í friði fyrir stjórnvöldum. Þannig var þetta um langa hríð í Reykjavík. Nær helmingur kjósenda studdi Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma er Geir Hallgrímsson var borgarstjóri og síðar er Davíð Oddsson tók við. Þetta voru góðir forystumenn borgarinnar og fólk treysti þeim. Þeir sinntu góðum málum, stóðu sig vel fyrir borgina og ávirðingar á þá voru léttvægar og skiptu litlu, engir skandalar.
Miklar breytingar urðu þegar vinstri flokkarnir sameinuðust undir nafni R-listans. Þá hélt landsmálapólitíkin innreið sína inn í borgarmálin. Þá voru umdeildar ákvarðanir teknar, borginni breytt til framtíðar, gamla góða borgin hvarf og sú nýja birtist, köld og oft fráhrindandi. Og sama má eiginlega segja um stjórnarhætti R-listans, þeir voru kaldir og fráhrindandi.
Besti og Samfylkingin
Framboð Besta flokksins var í raun afar undarlegt. Fáeinir vinir og kunningjar, sem voru þekktir sem skemmtikraftar, drógu aðra með sér í borgarmálin. Án nokkurs baklands eða lýðræðislegrar uppbyggingar stofnaði þetta fólk fámennan stjórnmálaflokk en náði frábærum árangri í borgarstjórnarkosningunum. Síðan hefur flokkurinn starfað með Samfylkingunni við stjórn borgarinnar.
Í raun og veru hefur Besti flokkurinn og Samfylkingin ekkert markvert gert í borgarmálum. Meirihlutinn treystir á borgarstarfsmenn sem gera það sem þarf að gera til að reksturinn gangi áfallalaust. Á meðan eru stjórnmálamenn Besta flokksins í einhvers konar starfsnámi hjá borginni, að læra að vera stjórnmálmenn án þess að kannast við að vera slíkir.
Skortur á skandölum
Þegar litið er yfir feril þessara tveggja flokka stendur upp úr að fólk virðist ekki vera mjög ósátt við þá. Í raun og veru hefur fólk að mestu fengið að vera í friði. Á móti kemur að meirihlutinn virðist ekki hafa gert neitt stórkostlega alvarlegt af sér. Það sem er helst gagnrýni vert hefur týnst í leikrænum tilburðum borgarstjórans sem hingað til hefur ekki starfað sem slíkur heldur verið í því að beina athygli almennings frá borgarmálunum og að allt öðru. Aðrir hafa sinnt störfum hans. Og kjósendur eru eiginlega þakklátir fyrir fjögurra ára skort á skandölum, þeir vilja bara vera í friði.
Sjálfstæðisflokkurinn í vinavæðingu
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið tröllum gefinn á þessu tímabili. Hann hefur ekki sinnt hefðbundinni stjórnarandstöðupólitík, heldur látið ráðaleysi meirihlutans hafa áhrif á sig, unnið með honum og lítið gert til að halda meirihlutanum við efnið.
Hann hefur eiginlega einbeitt sér að því að vingast við meirihlutann, sem kalla má nokkurs konar vinavæðingu borgarstjórnarflokksins. Auðvitað hefði hann átt að tileinka sér harða en málefnalega stjórnarandstöðu. Í stað þess að vera vinur sem til vamms segir virtist hann bara vera vinur Besta og Samfylkingar. Flokkurinn hvarf næstum því af yfirborðinu.
Eiginlega hefur einn borgarfulltrúi flokksins staðið upp úr en það er Kjartan Magnússon. Marta Guðjónsdóttir varaborgarfulltrúi hefur ekki látið meirihlutann eiga neitt inni hjá sér og haldið þeim við efnið.
Margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins farnir
Sjálfstæðisflokkurinn nær aðeins 27% stuðningi í síðustu skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ. Fylgið hefur tvístrast um allar jarðir.
Um 9% kjósenda Bjartrar framtíðar eru úr Sjálfstæðisflokknum, 13% af stuðningsmönnum Framsóknarflokksins, 4% af stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, 1% af stuðningsmönnum Vinstri grænna. Hvorki meira né minna en 26% af þeim sem teljast annars staðar eða hvergi eru Sjálfstæðismenn.
Hvers vegna er þetta eiginlega svona? Hvað hefur flokkurinn gert rangt? Hvers vegna flúði þetta fólk?
Fólkið sem tapaði í hruninu
Við hrunið komst mikið rót á stuðning við Sjálfstæðisflokkinn. Fjölmargir þeirra eiga um sárt að binda vegna stökkbreytingar skulda, margir töpuðu miklu og aðrir gátu andæft og haldið sjó. Þetta fólk kenndi Sjálfstæðisflokknum um og skipti óhikað um flokk í næstu kosningum og hafði fyrir því sín eigin rök og þá fyrst og fremst þau fjárhagslegu.
Svokallað uppgjör Sjálfstæðisflokksins á landsfundi skipti ekki nokkru máli fyrir þetta fólk, ekki frekar en að koss á báttið lagaði fjárhagslegt tjón.
Þetta fólk kemur ekki í bráð til baka í stuðningslið Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað verður það fyrir miklum vonbrigðum með aðra flokka en viðbáran verður einfaldlega þessi: Stjórnmálamönnum er ekki treystandi.
Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að gera?
Hér að ofan hef ég rakið dálítið ástæðurnar fyrir slöku fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Svo virðist sem forystumenn borgarstjórnarflokksins og flokksfélögin í Reykjavík vilji ekki ræða þessi mál eða kunni það ekki.
Fjölmargir málsmetandi menn hafa opinberlega hvatt flokkinn til að ræða stöðu sína í borginni, og við hinir ræðum okkar á milli um stöðuna. Í heita pottinum hrista menn höfuðið og spyrja í forundran á hvaða leið flokkurinn sé og manni vefst tunga um höfuð og getur ekkert sagt.
Fæstir nenna að taka þátt í prófkjöri og fáir mæta á stjórnmálafundi. Æ fleiri segjast ekki nenna að fylgjast með stjórnmálum, þau séu ekki þess virði og allir stjórnmálamenn séu eins, ekki treystandi.
Hér áður fyrr byggði Sjálfstæðisflokkurinn á áhrifaríkum flokksmönnum sem byggðu upp stuðninginn við flokkinn í kosningum. Þessu fólki hefur fækkað og því fer sem fer, líka í skoðanakönnunum. Ljóst má vera að kjörnir fulltrúar flokksins eru ekki í þeirri stöðu í dag að styrkja Sjálfstæðisflokkinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Athugasemdir
Stæðistu mistök Sjálfstæðisflokksins voru að hleypa Halldóri Halldórssyni í Framboð fyrir Flokkinn...
Vilhjálmur Stefánsson, 22.11.2013 kl. 10:54
Ótrúlegt hornsílaminni sumra..nú ætlar Vilhjálmur að kenna Halldóri Halldórssyni um hörmungar Sjálfstæðisflokksins...ætli mistökin sem þessu valda hafi ekki átt sér stað nokkuð löngu fyrr og hann búinn að gleyma ( viljandi )
Jón Ingi Cæsarsson, 22.11.2013 kl. 13:01
Blokkhöfundur skrifar: „Svokallað uppgjör Sjálfstæðisflokksins á landsfundi skipti ekki nokkru máli fyrir þetta fólk, ekki frekar en að koss á báttið lagaði fjárhagslegt tjón."
Ef ég skil höfund rétt þá er hann efins um að alvöru uppgjör hafi farið fram innan flokksins. Ég er sammála því. Mig grunar að hið „svokallaða" uppgjör Sjálfstæðisflokksins við það sem sumir kalla í alvöru „hið svokallaða hrun" sé alls ekki nægilega mikið uppgjör að áliti þeirra kjósenda sem hafa orðið afhuga flokknum.
Tilraunir Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins til að endurskrifa söguna og hanga í hálmstráum gera sennilega illt verra. Að lesa skrif Davíðs og Hannesar er eins og að hlusta á gamla hljómsveit sem hefur engu gleymt og ekkert lært.
Wilhelm Emilsson, 22.11.2013 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.