Kynjaskipting er ekki vandi Sjálfstæðisflokksins ...
20.11.2013 | 12:39
Þannig er það skelfilegt að fimm þúsund flokksmenn [Sjálfstæðisflokksins] kjósi með þessum hætti en fullkomlega eðlilegt að fámenn klíka Besta flokksins hafi valið þrjá karla í efstu sætin fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í snjallri grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann gerir að umtalsefni niðurstöður prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þá staðreynd að kynjahlutfallið er jafnt sé miðað við þau sem urðu í tíu efstu sætunum.
Hann bendir á að forystukona Besta flokksins, flokks Jóns Gnarrs, núna Bjartrar framtíðar, hafi sagt niðurstöðu prófkjör Sjálfstæðismanna vera skelfilega vegna þess að í þremur efstu sætunum séu karlar. Þetta sé einfaldlega rangt. Óli Björn hrekur þá fullyrðingu að konur eigi erfitt uppdráttar innan Sjálfstæðisflokksins og tekur dæmi um hið gagnstæða.
Réttilega nefnir Óli Björn að kynjaskiptingin sé ekki vandamál Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík heldur slök þátttaka í prófkjörinu. Engu að síður kusu helmingi fleiri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins núna en í hjá Samfylkingunni vegna þingkosninganna í fyrra.
Engu að síður segir Óli Björn:
Dræm kjörsókn er vísbending um slaka stöðu Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni og staðfesting á niðurstöðum skoðanakannana undanfarna mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð að fóta sig að nýju í Reykjavík.
Út á þetta gengur málið og þetta þarf Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík að taka fyrir og skoða, rétt eins og Styrmir Gunnarsson segir á Evrópuvaktinni:
Það mun segja töluverða sögu um það, hvort einhver kraftur er í flokknum hvort hann verður tilbúinn til þess að ræða þennan pólitíska veruleika fyrir opnum tjöldum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið tilbúinn til að ræða opið þá kreppu, sem hann hefur verið í frá hruni fram að þessu. Kannski opnar áhugaleysið um prófkjörið nú augum manna fyrir því að slíkar umræður verða að fara fram.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.