Má ekki gleðjast án þess að vera minntur á leiðindin?
19.11.2013 | 15:55
Fótbolti er í eðli sínu bardagaíþrótt, enda fundinn upp af Grikkjum í árdaga siðmenningarinnar til að efla baráttuanda í herdeildum, og honum fylgja alls kyns ógeðfelldar hliðarverkanir. Þjóðremban er þar efst á blaði og þótt ýmsum þyki eflaust ekki veita af því að hrista þjóðina saman í eitt allsherjarbandalag fylgir rembunni þeirri ofmat á eigin getu og árásir á "óvinina" sem minna helst á múgæsingar sem notaðar hafa verið til að réttlæta styrjaldir í gegnum tíðina. Allra leiða er leitað til að koma höggi á andstæðinginn, gera lítið úr honum og getu hans.
Af hverju þarf að vera með leiðindi? Getur leiðarahöfundur Fréttablaðsins ekki skrifað einn heilan leiðara án þess að vera með alhæfingar og leiðinleg ummæli. Í heildina fær þessi leiðari blaðsins í dag slæman dóm, að minnsta kosti hér.
Skemmtunin
Fótboltaleikur er skemmtun fyrir flesta. Svo er um svo margt annað. Fólk gengur á fjöll, fer í leikhús, sækir skemmtistaði, sinnir fjölskyldunni, horfir á sólarlagið, fylgist með fjölmiðlum og svo framvegis út í langan óendanleikann.
Leiðindin
Hefði höfundur leiðarans verið að rita um fjallgöngu hefði hann ábyggilega rætt um slys sem kunna að fylgja frekar en að leggja áherslu á gleðina, útiveru og þjálfunina. Hann gæti ekki nefnt skemmtistaði án þess að segja frá litlum minnihluta sem hefur ekki stjórn á hegðun sinni né drykkju. Hann gæti ekki nefnt fjölskylduna og þá líffyllingu sem hún gefur foreldrum, gleði og ánægju fyrir alla án þess að nefna skilnaði, ofbeldi og önnur leiðindi. Hann gæti ekki tjáð sig um fegurð sólarlagsins án þess að nefna að hægt sé að blindast á því óvörðum augum í sólina.
Gleðispillar
Auðvitað eru leiðindi sem fylgja öllu í tilverunni en er ekki stundum hægt að gleðjast? Má ekki einblína á það sem gott er án þess að troða hinu neikvæða upp á þá sem heyra?
Alls staðar eru til gleðispillar. Sumir eru það óviljandi aðrir eru bara að fylla tilsettan fjölda orða í dálk en hafa ekki dýpri áhuga á því sem þeir rita.
Alltaf má gleðjast
Ég segi fyrir mína parta, fjölskyldu minnar og vini og vandamanna: ÁFRAM ÍSLAND og því fylgja ekki nein skilyrði.
Verði úrslitin ekki á besta veg þá segi ég eins og meginhluti þjóðarinnar: GENGUR BETUR NÆST og það án nokkurra leiðinda.
Það hefur nebbbbnilega alltaf dagur eftir þennan dag. Fyrir því er órofin hefð svo lengi sem elstu menn muna. Yfir því má einatt gleðjast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er fínn leiðari. Fjöldi fólks hefur svo engan eða lítinn á huga á fótbolta og ágætt að rödd þeirra heyrist.
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.11.2013 kl. 16:55
Höfundurinn var nú ekkert að taka málstað ykkar, nafni. Hann flæktist bara úr einu í annað, án markmiðs. Slíkt er slæmt. Ég ætla að hjóla í í Laugardalslaugina, á móti norðanáttinni, sem er vissulega leiðinleg, en í öllu erfiðinu fæst þó nokkur gleði.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.11.2013 kl. 17:04
Auðvita er alltaf ánægjulegt þegar okkur Íslendingum gengur vel og breytir þar engu þó að ég hafi skömm á boltaleikjum.
En fjölmiðlar sumir gera bolta unnendum mun hærra undir höfði en okkur hinum sem höfum annarskonar áhuga mál.
Hrólfur Þ Hraundal, 19.11.2013 kl. 17:44
Nei, ansakornið, Hrólfur. Þú hefur varla skömm á boltaleikjum, er það ekki dálítið of mikið sagt?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.11.2013 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.