Flóttamannaleiðir bæjarstjórans í Garðabæ

Nei, Gunnar leggur á flótta inn á fjórar leiðir, sem kalla mætti flóttamannaleiðir, svo að notað sé heiti á vegi, sem Bretar lögðu fyrir ofan Garðabæ á stríðsárunum. Nafnið varð til þegar Bretar voru á flótta á nær öllum vígstöðvum víða um heim og gárungum fannst líklegt að vegurinn væri lagður til að auðvelda þeim flóttann hér. 

Rökræður byggist á því að komið er með rök á móti öðrum rökum eða fullyrðingu. Þessi íþrótt getur verið skemmtileg ef menn eru málefnalegir. Þetta er svona ping-pong út í hið óendanlega, rétt eins og borðtennis. Þegar annar slær heyrist væntanlega „ping“ og þegar hinn verst kemur ábyggilega hljóðið „pong“.

Þetta datt mér í hug þegar ég las grein Ómars Ragnarssonar í Morgunblaðinu í morgun en hún er svar við grein Gunnars Einarssonar, bæjarstjórans í Garðabæ, um vegagerð bæjarins og Vegagerðar ríkisins í Gálgahrauni.

Rök flóttamannsins 

Tilvitnunin hér að ofan er úr grein Ómars og eftir að hafa sagt þetta kallar hann slæleg rök Gunnars „flóttamannaleiðir“.

Skemmst er eiginlega frá því að segja að sjaldgæft er að sjá embættismann sveitarfélags flengdan á opinberum vettvangi og það af hinum friðsama Ómari Ragnarssyni.  Í greininni hrekur Ómar í fjórum liðum staðhæfingar sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, bar á borð fyrir lesendur Morgunblaðsins í síðustu viku sem eiga að rökstyðja að núverandi Álftanesvegur sé lagður af og vegurinn lagður um Gálgahraun.

Ómar segir meðal annars:

Og raunar væri hægt að gera það í núverandi vegarstæði og lagfæra það sem Gunnar telur að lagfæra þurfi. Umferð um Skeiðarvog, sem liggur um öllu meiri byggð og þrengsli en Álftanesvegur, er 14 þúsund bílar á dag án þess að menn séu að fara á límingunum yfir því. Gunnar talar um gríðarlegan vöxt umferðar um Álftanesveg. Hún var þó aðeins 13% meiri 2011 en 2007. 

Rök Ómars eru góð og skemmtigildi greinarinnar þó hún hafi ekki átt að vera það. Eini gallinn er að hún er án nokkurra greinaskila, öll í belg og biðu, en það er nú annað mál.

Ping, ping, ping, ping ... 

Hins vegar er forvitnilegt að fylgjast með því hvernig bæjaryfirvöld í Garðabæ hrekjast úr einu víginu í annað með því að fara annað hvort ekki rétt með eða brúka hálfsannleik.

Bæjarstjórinn nær ekki einu sinni að hitta hvítu kúluna sem hvín yfir netinu, svo tekinn sé upp samanburður við bortennis. Þá heyrist í sífellu; ping, ping, ping, ping, en ekkert pong. Pongleysið hlýtur að vera pirrandi fyrir þá sem stóðu að því að stórskemma Gálgahraun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband