Sá draumspaki er með úrslitin í landsleiknum á hreinu
14.11.2013 | 11:41
Við sem ekkert skiljum í draumum eru alltaf jafn undrandi á þeim sem segjast berdreymnir. Þeir geta ráðið í drauma sína og vita hvað framtíðin ber í skauti sér og hagað lífi sínu eftir því.
Hins vegar eru fæstir þeirra sem ég þekki eru þessarar náttúru, þrátt fyrir að sumir segi hið gagnstæða. Engan þekki ég sem hefur dreymt réttar tölu í lottóinu, vinningsnúmerið í happdrætti eða annað álíka þarflegt.
Ekki vantar að mann dreymi heil ósköp. Í æsku var það jafnan viðkvæði móður minnar þegar ég sagði henni frá draumum mínum að þeir væru fyrir snjóavetri. Og svo hló hún. Eftir því sem ég varð eldri áttaði ég mig á staðreyndum lífsins og hló með henni. Sumir segja að hún hafi verið berdreymin en í mín eyru gerði hún yfirleitt lítið úr slíku og þannig myndaðist draumaráðningin um snjóavetur.
Á morgun verður í Laugardal Reykjavíkur kappleikur í knattspyrnu milli tveggja þjóða, okkar og Króata. Ekki nokkur maður hefur dreymt fyrir úrslitunum, að minnsta kosti hefur enginn látið neitt uppi um draumfarir sínar. Tvær skýringar eru á því, annað hvort er ekkert að marka drauma eða úrslitin verða landsliði okkar verulega óhagstæð - enginn vill vera boðberi slæmra tíðinda.
Er ég hafði ritað ofangreint hérna á Moggabloggið hringdi síminn ...
Sigurður, sagði maður nokkur, djúpri röddu. Mig dreymdi draum í nótt ... Og þarna var sá draumspaki í símanum, sá sem ég hef vitnað æði oft til hér.
Honum var mikið niðri fyrir. Sagðist hafa dreymt risastóran snjóbolta sem stóð á miðjum Laugardalsvellinum og fjölda manna reyna að klífa hann. Að lokum stóðu fjórir menn á toppinum og réttu upp hendur eins og sigurvegarar.
Og hvað segirðu núna, skepnan þín, hvæsti sá draumspaki. Þú segir ekkert að marka drauma en þessi er skýrari en allt sem skýrt er.
Nei, sagði ég. Það vantar niðurstöðuna, hvernig fer leikurinn við Króata?
Það sjá nú allir, sagði draumspakur. Annað hvort liðið vinnur fjögur núll eða það verður jafntefli og bæði liðin skora tvö mörk.
Sum sé, mennirnir sem standa efst á risastórum snjóbolta tákna mörkin? Ég leyfði mér að andvarpa ókurteislega.
Já, sagð'ann, keikur.
Þá geta úrslitin líka verið þannig að annað liðið skorar þrjú, tvö eða eitt mark og hitt það sem upp á vantar, ekki satt? Leikurinn getur því farið 4:0 eða 3:1 fyrir annað liði eða jafntefli verður.
Já, að vísu ... sagði draumspakur, en eitthvað hafði sljákkað í honum.
Hvernig stendur á því að þig dreymir aldrei beinlínis það sem gerist heldur þurfum við alltaf að spá og spekúlera í niðurstöðunum? Geturðu ekki látið þig dreyma skýrari og einfaldari drauma? Það væri til dæmis ágætt ef þig dreymdi hreinlega fyrirsögnina á íþróttakálfi Moggans á laugardaginn. Væri ekki einhver sparnaður í því fólginn?
Það er nú andskotakornið aldrei hægt að ræða við þig, Sigurður. Þú ert alltaf með eilífan kjaft og skilur ekkert í yfirnáttúrulegum efnum hvað þá öðrum ... auk þess ertu ljótur og leiðinlegur.
Og með það skellti hinn draumspaki vinur minn á og mun eflaust ekki tala við mig næstu daga. Nema hann hafi lagt sig. Þá hringir hann aftur ef hann getur ráðið drauminn. Nema hann viti á snjóavetur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.