Frelsi fólks til ferðalaga um landið er grundvallaratriði
9.11.2013 | 13:33
Ég er á móti svokölluðum náttúrupassa. Landsmönnum á að vera frjálst að ferðast um landið án þess að greiða landskatt, hvorki til ríkis né landeigenda. Ein af grundvallarréttindum frjálsrar þjóðar er að mega fara um land sitt óhindrað en um leið að hlíta lögum og reglum sem sett eru.
Verði hindranir á ferðum um landið leiddar í lög, hvort heldur í formi skatta eða annars er ástæða til að rísa upp berjast og um leið gegn því fólki sem þau setur.
Náttúrupassi mun verða til þess að eyðileggja hefðbundin ferðalög okkar Íslendinga, takmarka möguleika okkar til akstursferða eða gönguferða. Það má aldrei gerast
Útvarpsgjaldið hafði slæmar afleiðingar
Fyrir nokkrum árum var tekið um svokallað útvarpsgjald sem er ekkert annað en skattur, innheimta áskriftargjalds fyrir Ríkisútvarpið.
Enginn á að vera skyldaður með lögum til að kaupa vöru eða þjónustu sem hann vill ekki. Þeir sem ekki vilja nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins eiga ekki að þurfa að sætta sig við lögþvingaða áskrift. Að auki er það ekki þeirra vandamál þó fjölmiðillinn sé rekinn með halla. Hins vegar hefur útvarpsgjaldið haft skelfilegar afleiðingar fyrir samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
Gríðarlegar tekjur af ferðaþjónustu
Í Morgunblaðinu í morgun er viðtal við Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræði við HÍ. Í viðtalinu er haft eftir Önnu Dóru (feitletranir eru mínar):
Á árinu 2013 stefni í að tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu verði 17 milljarðar og 10 milljarðar í viðbót sé tekið tillit til allra þátta. Um 7.000 störf hafi skapast í ferðaþjónustu, hún skili 239 milljarða gjaldeyristekjum og sé ein af þremur undirstöðuatvinnugreinum landsins.
Ferðaþjónustan leggur til gríðarlegar fjárhæðir í ríkissjóð og gjaldeyristekjur hennar eru himinháar. Því er ekki furða þótt við, sem leggjumst á móti náttúrupassa spyrjum hvort ríkissjóðir hafi ekki efni á að sinna verkefnum fyrir atvinnugrein sem hann mokgræðir á?
Ekki slæmt að ferðamönnum fjölgi hægar
Anna Dóra nefnir skýrslu á vegum Boston Consulting Group sem flestir er fylgjast með umræðunni þekkja. Um hana segir Anna Dóra (feitletranir eru mínar):
Ein af mótbárunum í skýrslunni við komu- eða brottfarargjaldi sé sú að þá myndi ferðamönnum ekki fjölga eins ört og undanfarin ár. En er það slæmt að ferðamönnum fjölgi hægar? Er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum á að halda til þess að við getum vandað okkur betur við að byggja upp greinina til framtíðar? spyr Anna Dóra. Lengi hafi verið talið eftirsóknarverðara að fjölga vel stæðum ferðamönnum, frekar en einblína á fjölgunina sem slíka. Það sé ekki hollt fyrir neitt land að ferðamönnum fjölgi um 20% á milli ára, ár eftir ár, líkt og hér hafi gerst.
Auðvitað er þetta rétt. Komu- eða brottfarargjald er einfaldlega skattur rétt eins og aðrir skattar og ríkisvaldinu í sjálfsvald sett hvernig hún ráðstafar tekjum af honum.
Göfug fyrirheit en slæmar afleiðingar
Hitt er hrikalega vont ef löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið ætli sér að kollvarpa ferðaháttum landsmanna með því að segja á náttúrupassa. Aðeins með nafninu er verið að fara í feluleik með tilganginn. Hann er einfaldlega sá að afla enn frekar tekna, skattleggja almenning enn meira og nú í því skjóli að aurinn fari í náttúruvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir. Með göfug fyrirheit er farið af stað með verkefni sem hafa mun ljótar afleiðingar.
Sannast sagna er komið nóg. Ríkissjóður á ekki annarra kosta völ en að draga úr útgjöldum, hann getur ekki gengið frekar í veski landsmanna. Punktur.
Á að láta þetta yfir sig ganga?
Frá barnæsku hef ég ferðast um landið og hef fullan hug á að halda því áfram meðan ég hef tvo fætur og heilsu. Ég ætla ekki að borga ríkissjóði gjald fyrir að ganga yfir Fimmvörðuháls, upp á Esju, um Hornstrandir og Firði, yfir jökla, sigla niður ár, róa um firði, aka vélsleðum eða jeppum svo dæmi sé tekið. Frekar mun ég sleppa því yfirleitt að greiða skatta ...
Það eru einfaldlega siðferðileg takmörk fyrir því hvað ríkisvaldið má gera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Algerlega sammála fyrirsögninni á þessum pistli, Sigurður. Ég er reyndar alveg fylgjandi því að selja slíkan passa til útlendinga, vegna þess að við vitum fullvel að stjórnvöld láta varla grænan eyri til viðhalds ferðamannastaða á næstu árum, eins og fjárhag ríkisins er nú háttað. En ef einhverjar heimskulegar jafnræðisreglur segja að íslenskir ríkisborgarar þurfi líka að borga fellur málið dautt. En svo er líka til sú leið að bjóða erlendum ferðamönnum að kaupa slíkan passa fyrir lítinn pening og þá þarf varla að skikka okkur Íslendinga til að borga ef um frjálst val er að ræða. Ég er nokkuð viss um að stæstur hluti erlendra ferðamanna myndi með glöðu geði, láta 10-15 evrur renna til íslenskrar náttúru ef það væri auglýst á jákvæðan hátt og fólki gert það auðvelt, annað hvort á netinu eða við komuna til landsins.
Þórir Kjartansson, 9.11.2013 kl. 17:06
Í fljótu bragði sýnist mér að það sé hægt að setja á alls kyns gjöld á þá sem koma til landsins (eða fara) og að stangast ekkert á við nein lög eða reglur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.11.2013 kl. 17:21
Sæll Sigurður.
Frá mínum bæjardyrum séð er þetta ekki flókið; ég fer líkt og áður þangað sem ég vill fara. Sá sem er ekki ánægður með þann gjörning, kallar þá einfaldlega til lögreglu og þar fram eftir götunum. Að borga sig inn í Kerið er eitt að labba þar framhjá er annað og ef stjórnvöld vilja brjóta Stjórnarskránna vísvitandi, þá verða þau að súpa seiðið af þeim gerningi.
Náttúrupassar og allir jafnir innan EES er eitt. Við getum einfaldlega úthlutað þessum passa til íslenskra ríkisborgara í gegnum skattkerfið. Segjumst einfaldlega borga fyrir hann í okkar sköttum.
Sé pappírstígrisdýrin fyrir mér reyna að hrekja það.
Sindri Karl Sigurðsson, 9.11.2013 kl. 23:56
Sæll Sigurður
Ég tek heilshugar undir fyrirsögn pistilsins og megninefni hans.
Það sem mér líst verst á af öllum hugmyndum varaðandi fjármögnun vegna viðhalds er uppsetning miðasöluskúra við helstu náttúruperlur landsins. Þegar er farið að selja inn á hverasvæðið í Hveragerði og Kerið. Í umræðunni er að byrja að selja inn á hverasvæðið við Geysi, og hver veit nema listinn eigi eftir að lengjast hratt: Gullfoss, Dimmuborgir, Þórsmörk, Jökulsárlón, Seljalandsfoss, Reynisfjara, Fimmvörðuháls, Landmannalaugar, o.s.frv. o.s frv. Auðvitað er tilgangurinn ekki aðeins viðhald göngustíga o.þ.h., heldur má reikna með að margis séu með dollaraglampa í augum og ætli sér að hagnast.
Ef að þessu verður, þá er nokkuð öruggt að það spyrjist fljótt út erlendis og afleiðingin verði að útlendingar missi áhugann á Íslandi og verulega dragi úr komu ferðamanna til landsins... Ferðaiðnaðurinn mun hrynja.
Ágúst H Bjarnason, 10.11.2013 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.