Fækkar nú óðum skreytifjöðrum Obama
27.10.2013 | 10:20
Þegar Barack Obama bauð sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna varð hann samstundis eftirlæti allra. Hann hafði fallega framkomu og margir líktu honum við John F. Kennedy sem enn þann dag í dag er talinn hafa verið flekklaus forseti þrátt fyrir alla flekkina ...
Heimurinn stóð eiginlega á öndinni þegar Obama var kjörinn og víða féllu gleðitár. Norska Nóbelsverðlaunanefndin skenkti honum samstundis friðarverðlaunin sem hann tók þó við, en að því er virtist.
Margt hefur breytst síðan Obama varð forseti eða ætti maður að segja fátt hefur breyst. Guantanamo er enn í fullri notkun. Bandaríkjamenn reka ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ferðum með þá tegund fanga sem hættulegir þykja og senda í upprifjunarvist í löndum sem hafa ekki leiðinleg mannréttindaákvæði í lögum. Þeir senda mannlausar flugvélar í hernaðaraðgerðir, bora eftir olíu í Alaska, menga og sóða út eftir bestu getu.
Obama þykir, eftir því sem þessi frétt á mbl.is ber með, sér ekkert tiltökumál að láta hlera síma stjórnmálamanna í Evrópu, vina jafnt sem andstæðinga.
Svo ótraustar eru hins vegar bandarískar njósnastofnanir, að þær mígleka. Jafnvel lágt settir starfsmenn eins og Edward Snowden geta gripið sér þar hnefa og horfið á braut með nægar upplýsingar sem borga ævilanga dvöl í landi Pútíns.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er sár. Uppvíst hefur verið um að sími hans hefur verið hleraður í að minnsta kosti ellefu ár, það er þremur árum áður en hún varð kanslari. Þó hafa bandarískir njósnarar aldrei verið svo forspáir að geta bent á þann sem í framtíðinni verður útvalinn sem kanslari. Líklegra er að allir séu hleraðir og það rækilega.
Sárindi kanslarans kunna að vera dálítil uppgerð því ljós má vera af öllum því umstangi sem fylgir njósnastarfsemi að Bandaríkjamenn eru ekki einir um að njósna um vini og samstarfsaðila. Munurinn er hins vegar sá að ekki hefur enn komist upp um þannig njósnir Þjóðverja að Bandaríkjamenn hafi ástæðu til að verða sárir. Raunar vantar mikið einhvern uppljóstrara á borð við Snowden í Þýskalandi og jafnvel öðrum Evrópulöndum. Þjóðverjar kunna þó margir til verka í hlerunum enda eru enn margir uppistandandi sem voru á launum hjá Stasi. Þeir kalla ekki allt ömmu sína og telja ábyggilega að þýskir stjórnmálamenn geti nú bara unað vel við sitt, færri njósni um þá en áður.
Hitt stendur nú eftir að fjaðrirnar eru teknar að falla af eftirlætinu honum Barack Obama en ekki er víst að hann skaðist mikið, ekki frekar en minning John F. Kennedys við allar uppljóstranir um pólitík hans og einkamál.
Obama upplýstur um hleranir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir vitræn og vönduð skrif.
p.s.
Obama hefur verið kallaður "Teflon forsetinn" því allar lygarnar og skandalarnir sem hafa hrannast upp í kringum hann hafa ekki loðað lengi við hann. Þessi nýjasti skandall mun falla í gleymsku um leið og heimspressan fer að tala um skóna hans eða eitthvað álíka gáfulegt.
Hins vegar hafa sögurnarnar af John Fitzgerald verið ýktar mjög t.d. af lyfjanotkun og kvennafari.
Davíð, 27.10.2013 kl. 10:46
Takk fyrir innlitið, Davíð. það er nú bara eðli mannsins að hann gleymir eða yfir það fyrnist sem hann þarf ekki að nota dags daglega. Svo er stundum sagt: Skil ekkert í jafn geðugum manni og honum Óbama að láta svona ...
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.10.2013 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.