Sagan af gúmmípakkanum dularfulla úr Sandvíkurfjöru
21.10.2013 | 23:21
Hérna ætla ég að segja frá dálitlu ævintýri sem enn sér ekki fyrir endann á. Það skemmtilegasta við það er ímyndunaraflið sem að vísu fer dálítið langt frá raunveruleikanum í mínu tilviki, rétt eins og draumur, skemmtisaga eða bíómynd. Afþreyingin er hins vegar alltaf góð.
Aldrei hef ég fundið neitt merkilegt á göngum mínum um fjörur og er þó hinn mesti fjörulalli. Síðasta laugardag gerðist hins vegar dálítið sem í sjálfu sér er merkilegt og til að festa atvikið enn frekar í minni ætla ég að rekja það eins og það kom mér fyrir sjónir. Vara þó við því að ég er bæði gleyminn og á það til að ýkja dálitið, þó ég telji að allt sem hér fer á eftir sé sannleikanum samkvæmt ... held ég.
Fjara á Reykjanesi
Þannig var að við tveir félagar ákváðum að ganga um Reykjanes, helst að fara Reykjaveginn. Þar sem við fundum ekki hið formlega upphaf hans álpuðumst við nokkru austar og að vík sem á korti nefnist Mölvík. Þekktust er hún væntanlega fyrir þá sök að í henni urðu fyrir rúmri viku miklir jarðskjálftar, jafnt inni á landi sem og á sjávarbotni.
Við gengum frá leifunum af fiskeldisstöð sem líklega náði aldrei fullum þroska, hrötuðum við ofan í fjöruna í Sandvík, en hún er vestan við Mölvík. Hvorug víknanna stendur undir nafni. Í þeim eru áberandi hlussustórir hnullungar, minna er þar af sandi og möl, en það er nú annað mál.
Þar sem við röltum í hægðum okkar, horfum til gígsins á Háleyjarbungu, og veltum við því fyrir okkur hvort þar væri ekki ágætur staður til að fá sér nestisbita. Ef til vill um tveir kílómetrar þangað. Þá hrekkur úr félaga mínum, honum Jóni, sem horfir betur fyrir neðan fætur sér en ég: Hvað í ósköpunum getur nú þetta verið. Gæti þó verið að hann hafi einfaldlega sagt: Sjáðu eða eitthvað annað merkilegra.
Gúmmípakkinn
Við störum á hlut sem í fljótu bragði virðist vera þakinn þara en er það þó ekki heldur er hann klæddur gúmmíi. Svo virðist sem gúmmíið sé lagskipt, hefur flagnað af honum að hluta en langt í frá að hann sé opinn. Var þetta gúmmí-bobbingur? Nei! Var þetta eitthvað sem notað er við fiskveiðar? Nei, ekki sýndist okkur það. Ef þetta líktist einhverju þá var þetta eins og frekar lítil taska vafin inn í gúmmí, mörgum lögum að því er virtist.
Þar með opnaðist fyrir flóðgáttir ímyndunaraflsins og við létum vaða. Dóp, pakkað í gúmmí. Innpakkaðir dollaraseðlar, gull og gersemar. Og svo náðum við flugi í getgátum: Gralið helga sem nasistar náðu í síðasta stríði og settu í skip sem sökk. Nei, frekar bráðdrepandi veira sem ábyrgur aðili hefur pakkað inn í mörg lög af gúmmíi og sökt í miðju Atlantshafi og ætlast til þess að pakkinn sykki niður á mörg þúsund metra dýpi og geymdist þar um aldir alda.
Ég er nú eiginlega orðinn svangur, hrökk svo upp úr Jóni.
Já, ég líka, sagði ég
Langur gangur
Við röltum svo þessa rúmu tvo kílómetra vestur fyrir Háleyjarbungu þar sem við fundum skjól fyrir gjólunni og úðuðum þar í okkur nesti. Þessu næstu héldum við áfram, skoðuðum björgin, gengum um hið sundursprungna Hrafnkelsstaðaberg en þar fyrir neðan hefur margur báturinn og skipið strandað. Og loks komum við að Reykjanestá og skoðuðum vitann. Héldum áfram um hraunið og að Valahnúkamöl og Valahnúk þar sem bíllinn beið. Þetta var þá orðin um sautján kílómetra gangur þennan daginn.
Hurðu? segir þá Jón er við settumst inn í bílinn. Eigum við ekki bara að kíkja á þennan dularfulla hlut í fjörunni í Sandvík.
Jú, svaraði ég.
Pakkinn sóttur
Við ókum að þangað, fylgdum slóðanum framhjá eldisstöðinni sem aldrei varð, sáum mann með stóran riffil sem lá húddinu á bílnum sínum. Hann skaut eitthvað út í fjarskann og notaði kíki, líklega nákvæmnismaður.
Í hvarfi frá honum lá gúmmíhluturinn efst í fjörunni og beið okkar. Við drösluðum honum upp að bílum og settum í skottið. Örugglega fimmtíu eða sextíu kílóa hlass.
Nú vandaðist máli. Hvað ættum við að gera við hann? Jón stakk upp á því að við keyptum okkur hníf í Grindavík og skærum pakkann upp. Mér leist ekkert vel á það. Við þyrftum ábyggilega sög, fullyrti ég, og reyndist um síðir sannspár sem gerist sjaldan.
Förum þá með'ann heim í bílskúr. Þar á ég fullt af verkfærum, sagði Jón, örlítið rogginn.
Ertu vitlaus, maður, hrópaði ég í æsingi. Hvað ef þetta er einhverskonar sprengja eða eitthvað þaðan af verra, til dæmis mannshausar sem mafían var að senda milli landa. Ekki viltu fá þá á gólfið í bílskúrnum?
Þetta dugði. Eftir að hafa íhugað þessar röksemdir mínar í smá tíma fannst honum ekkert vit í því að fara með pakkann heim í bílskúr.
Gagnslausar varúðarráðstafanir
Við ókum engu að síður beinustu leið heim til Jóns, sóttum verkfæri út í bílskúr og fórum síðan yst út á Kársnes, en þar er tippur. Í skjóli fyrir fornvitnum augum söguðum við í gúmmíið, skárum í það með dúkahníf en allt kom fyrir ekki. Loks stakk ég skrúfjárni inn og barði á það með hamri.
Einhvern veginn var ég búinn að steingleyma öll tali um hugsanlega sprengihættu. Engin sprenging varð en skrúfjárnið stóð fast í gúmmíinu. Hef ekki náð því síðan. Sem betur fer var þetta gamla skrúfjárnið hans Jóns og löngu afskrifað. Líklega hefði hann orðið reiður ef ég hefði festi hitt.
Sem sagt, allt gekk á afturfótunum og við ekki nógu miklir verkmenn til að geta opnað þennan dularfulla hlut. Því fórum við aftur heim til Jóns. Gleymdum öllu tali um sprengihættu, geislavirkni, ógeðsleka og öðru óþægilegu. Skelltum einfaldlega óværunni á borð í bílskúrnum. Svo nenntum við ekki meiru og ég fór heim, sótti sunddótið og hélt í Laugardalslaugina.
Allir muna eftir Einari Herjólfssyni
Morguninn eftir, það er mánudaginn, hringdi Jón og kvartaði undan skilningsleysi konu sinnar. Hún heldur að þetta geti verið sprengja og kann frekar illa við svoleiðis í bílskúrnum okkar, sagði hann, rólegur að vanda.
Ég hafði hins vegar öðrum hnöppum að hneppa. Hélt suður að Gálgahrauni og mótmælti pínulítið eyðileggingunni á þessu fallega hrauni. Þar hitti ég gamlan félaga en hann var rétt nýbyrjaður í löggunni þegar ég var þar sumarmaður fyrir frekar mörgum áratugum. Hann er núna í rannsóknarlögreglunni og vegna gamallar vináttu fékk hann að heyra sólarsöguna en í staðinn kom hann í veg fyrir að ég væri handtekinn, borinn á braut og sektaður. Hann skemmti sér hið besta við að giska á innihaldið í gúmmípakkanum.
Nei, nei, minn kæri, sagði hann. Ég held að það sé vonlaust að þú lendir í neinum vandamálum út af þessum fundi, hvort heldur pakkinn innihaldi dollara, dóp eða dauðaveiru.
Mér fannst það ekki líklegt. Enn man þjóðin eftir Einar Herjólfssyni sem kom hingað til lands um 1402 eftir ferðir sínar um Evrópu ... Jú, hann bar óafvitandi svartadauða til Íslands ...
Þessi ágæti rannsóknarlögreglumaður ráðlagði mér að hafa samband við Landhelgisgæsluna og láta sérfræðinga þar gegnumlýsa pakkann. Mér þótti það óráð. Ef eitthvað væri að dópi inni í honum værum við félagarnir handteknir fyrir smygl. Væru peningar í pakkanum yrðum við án efa handteknir fyrir peningaþvætti. Og væri þetta dauðaveira á borð við svartadauða yrði nafn mitt við hana kennd við hana um næstu aldir.
Ég hringdi í Jón og sagði honum frá þessu makalausa ráði. Fínt, sagði hann. Ég hringi í Gæslunna, og skellti á áður en að ég gat stunið upp mótmælum.
Víkinga- og sprengjusveitin og aðrir árásaraðilar
Nokkru síðar hringdi hann aftur og sagði að sprengjudeild Landhelgisgæslunnar væri á leiðinni heim til sín. Mér krossbrá auðvitað og spurði hvort víkingasveitin komin á staðinn og búið væri að rýma hverfið, jafnvel búið gefa út handtökuskipun á mig.
Rólegur, maður, sagði Jón, enda sallarólegur sjálfur. Þeir ætluðu nú eiginlega ekki að gera neitt, en þegar ég sendi þeim myndina sem þú sendir mér [og fylgir með þessum pistli], varð greinilega jarðskjálfti upp á fjóra og nú eru tveir menn á leiðinni.
Er ekki betra að ég fari í felur? spurði ég, skelkaður. Líkega best að ég skrifi mína útgáfu af fundinum, setji hana á bloggið svo landslýður viti sannleikann í málinu ef ske kynni að við myndum hreinlega týnast í meðförum víkingasveitarinnar eða njósnadeildarinnar sem vinstri menn hafa lengi haldið fram að væri starfandi í landinu. Menn hafa lent í Guantanamo fyrir minni sakir ... hugsaði ég.
Jón bað mig lengstra orða að vera rólegan og koma heim til sín. Ég gerði það með hálfum huga og við öllu búinn. Fer ekki nánar út í það hvernig viðbúnaður minn var. Þó sneri bíllinn rétt miðað við flóttaleið, númeraplöturnar hafði ég skrúfað af og þar að auki litað hann í felulitum.
Það fór eins og mig grunaði. Stuttu eftir að ég kom til Jóns renndu þrír bílar frá Landhelgisgæslunni í hlað auk bíla frá lögreglunni og sóttvörnum ríkisins. Ég var gripinn á hlaupum út í Jarisinn og Jón handteknn með nýja skrúfjárnið inni í bílskúr. Síðan vorum við settir í fangelsi upp á vatn og brauð meðan sprengjan var gerð óvirk með aðstöð kjarnorkusérfræðinga bandaríska öryggisráðsins ...
Nei ... Nú lét ég ímyndunaraflið aldeilis hlaupa með mér í gönur ... úbs! Þeir komu bara tveir saman, geðugir ungir menn, úr sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, til að skoða pakkann. Þeir höfðu samt engan húmor fyrir fundinum og það sem verra var, ekki nokkurn skilning á ofurmannlegu ímyndunarafli okkar. Ólíklegt að þeir hafi lesið æsilegar strákabækur, til dæmis um hann Hjalta litla, Tom Swift, Prins Valiant, Ben Húr, Svarta prestinn og alla þá félaga sem héldu manni í ofurspennu langt fram á unglinsárin.
Fljótræði hinna ungu sprengjumanna
Þeir hurfu síðan á braut með gúmmípakkann aftan í Landcruser-jeppa. Sögðust hugsanlega ætla með hann út á æfingasvæðið við Keflavíkurflugvöll og sprengja hann þar.
Jæja, drengir mínir, sagði ég yfirlætislega. Þið ætlið sem sagt að eiga það á samviskunni að hafa í einhverri fljótfærni eyðilagt gralið helga, brennt upp þúsundir dollaraseðla, stórskemmt gull og gersemar, eyðilagt egyptska muni úr grafhýsi Tutankamons eða rústað handritum sem rituð voru af samtímamanni hans Jesúsar frá Nasaret ...
Þeir horfðu á mig opinmynntir.
Við munum fylgjast með ykkur, bætti ég við. Ef þið hættið í Gæslunni einhvern tímann á næstunni, þá merkir það að einhver verðmæti hafa verið í þessum pakka.
Haka þeirra seig enn neðar meðan Jón tjáði sig.
Með þessar kveðjur í farteskinu hurfu hinir vösku sprengjuleitarmenn Landhelgisgæslunnar á braut, sögðu ekki einu sinni gúddbæ, farvel, áfvídersen, aloa ...
Framhald næst
Hvað síðan hefur gerst, vitum vér eigi, en hér, á þessum vettvangi, verður áreiðanlega sagt frá framhaldinu og það áður en langt um líður. Fylgist með ... eins og þeir segja á ensku í sjónvarpinu.
Og þess má hér geta að sá sem kemst næst því að giska á innihald pakkans fær pínulitla viðurkenningu.*)
*) Ofangreind frásögn er ekki sannleikanum samkvæm, heldur byggist á ímyndunarafli höfundar, og hana má hvurgi staðar endurtaka nema með Leifi. Myndirnar eru úr blaði danskra fjallamanna. Höfundarrétturinn er ljósmyndarans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.10.2013 kl. 13:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.