Þjálfarinn ætlar að leggjast í helgan stein

Alltaf gaman af orðtakavillum sérstaklega þegar þær koma eins og þruma úr heiðskírum læk.

Herr Hitzfield er í fréttinni sagður ætla að leggjast í helgan stein. Eiður Guðnason sagði á bloggi sínu um daginn frá einum sem ætlaði að leggjast undir helgan stein.

Sagt er að tvisvar verði sá feginn sem á steininn sest. Til skýringar skal þess getið að í fyrra sinni verður þreyttur maður feginn að setjast á steininn og í síðara sinni verður hann glaður að standa upp og það helst áður en honum sárverkjar undan hörðu grjótinu.

Hitt er öruggt að örðugt mun flestum reynast að leggjast í helgan stein jafnt og þeim sem ætla að leggjast undir hann nema sá steinn sé helgur legsteinn, hvar margir enda fyrr eða síðar.

Á Vísindavefnum segir eftirfarandi um steininn helga og er það góð útskýring:

 

Í nútímamáli er merkingin í orðasambandinu að setjast í helgan stein að ‘draga sig í hlé, hætta að vinna’ og elsta dæmi Orðabókar Háskólans um þá notkun er frá fyrri hluta 19. aldar.

Í fornu máli var merkingin að ‘ganga í klaustur’. Að vísu var lýsingarorðið heilagur ekki með í orðasambandinu í elsta máli heldur var talað um að setjast í stein eða ganga í stein. Steinn er þarna í merkingunni ‘klaustur’.

Undir lok Grettis sögu segir frá samtali þeirra hjóna Spesar og Þorsteins drómundar. Spes sagði: „Nú skulum við kaupa að þeim mönnum sem hagir eru á steinsmíði að þeir geri sinn stein hvoru okkru og mættum við svo bæta það sem við höfum brotið við guð.” Þarna á Spes við að láta reisa tvö klaustur. Síðar í sama kafla stendur: „Og lyktaði þessari smíð og á viðurkvæmilegum tíma og öllum hlutum tilbúnum skildu þau sína stundlega samvist að sjálfráði sínu að þau mættu því heldur njótandi verða heilagrar samvistu annars heims. Settist þá í sinn stein hvort þeirra og lifðu þau langan tíma sem guð vildi skipa og entu svo sína ævi“ (Grettis saga 92. kafli).

Í Flateyjarbók er þetta dæmi: „Konungrinn ... gékk í stein ok var einsetumaðr, meðan hann lifði“ (Fritzner, Johan III:539).

Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um helgan stein er frá miðri 17. öld en einnig er í kvæði eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld talað um kyrran stein: ,,Nú er mér kært í kyrran stein / að setjast sælu hjá, / sú leiðin þókti bein.“

Heimildir

Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. III. Oslo 1954.

Grettis saga. Í: Íslendinga sögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík 1985.

 


mbl.is Hitzfeld hættir þjálfun eftir HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband