Fornmenn voru fæstir víkingar

... af hverju fornkapparnir okkar sem við lærum um í sögubókunum og lesum um í Íslendingasögum þurfa allir að heita víkingar nú á dögum. Sannleikurinn er sá að þeim hefði fæstum þótt sómi að því heiti. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar - og raunar alveg fram á okkar daga - merkti víkingur sjóræningi, maður sem stundar vígaferli og rán, yfirleitt utanlands.
 
Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og blaðamaður ritar fróðlegan pistil í Moggann sinn í morgun og vekur máls á staðreyndum sem fæst okkar hafa leitt hugann að. Sjálfur verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því að fæstir fornmenn íslenskir voru „víkingar“. Guðmundur nefnir að Halldór Laxnes hafi áttað sig á því að sjálfur Ari fróði nefnir ekki víkinga.
 
Hann [Ari fróði] virðist ekki einu sinni kannast við orðið. Ef dæma skyldi eftir þeim fróðleik sem í Íslendingabók er veittur virðast ekki líkur á því að nokkru sinni hafi verið víkingar á Íslandi, skrifaði Halldór eitt sinn.
 
Og svo segir Guðmundur í lok pistilsins:
 
Það var ekki fyrr en á 19. öld og síðar að farið var að nota heitið víkingur sem samheiti yfir allt norrænt fólk snemma á miðöldum. Þetta byrjaði í enskumælandi löndum en náði svo fótfestu annars staðar, þar á meðal á Íslandi á síðustu árum. Því miður er orðið of seint að vinda ofan af þessari merkingarbreytingu, en ef menn átta sig ekki á því að sama orðið er haft um tvö ólík hugtök er hætt við að þeir lendi í vandræðum þegar þeir lesa forna texta.
 
Víkjum nú frá Morgunblaðinu og yfir til Njálssögu. Þar segir af honum Gunnari Hámundarsyni, að hann hafi verið í Noregi og viljað fara í „hernað“ sem merkir ekkert annað en að hann fór í „víking“. Hvers vegna orðar höfundur Njálu það á þennan hátt í stað þess að segja beinum orðum að Gunnar hafi viljað fara í víking?
 
Á einum stað segir í Njálu:
 
Þaðan héldu þeir [Gunnar og félagar] suður til Danmerkur og þaðan austur í Smálönd og börðust jafnan og höfðu ávallt sigur. Ekki héldu þeir aftur að hausti. 
Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. 
 
Þarna mættu Gunnar og félagar öðrum víkingum eftir að hafa sjálfir barist í Smálöndum og líklega rænt þar og ruplað að víkinga hætti. Hins vegar er höfundur Njálu svo „háttvís“ að hann segir fátt illt um Gunnar Hámundason og hefði til dæmis aldrei ritað að hann hefði ráðist á varnarlaust fólk í Smálöndum eða víðar og rænt það og drepið þá sem í móti stóðu.
 
Þetta var raunar það sem gerðist um allar miðaldir, víðs vegar um Evrópu. Ræningjar gerðu strandhögg þar á sem byggðin virtist veik, hirtu það sem þeir náðu og létu aungva standa í vegi fyrir sér, gætu þeir ráðið. Þetta gerðist um allt Miðjaðarhafið og allt upp til Íslandssstranda löngu eftir að Gunnar leið og á ég þá við „Tyrkjaránið“.
 
Líklega er hér mál að hætta enda er ég líklega kominn út á hættulegar slóðir, geri Gunnari upp níðingsverk og hugsa unnendur hans mér ábyggilega þegjandi þörfina. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég hitti eitt sinn mann vestur á fjörðum sem gekk um í rósóttum slopp og taldi Gunnar og Njál hafa verið samkynhneigða og átt í ástarsambandi. Best að hætta hér áður en ...

Víkingahjal og keltamanía sumra Íslendinga er sem betur fer "sannindi" á undanhaldi og er Guðmundr Víkingur Magnússon, sem líka var ágætur þjóðminjavörður í of stuttan tíma, skeleggur að færa mönnum þann gamla en góða sannleika. Því miður hafa sumir þó ekki meira vit en að halda áfram að gaspra "We are Vikings".því þeir telja sig geta selt eitthvað út á það.

Meðal íslendinga haf verið margir góðir sölumenn, og harla fínir landssölumenn.

FORNLEIFUR, 16.10.2013 kl. 12:13

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góður ... We are the TRUE vikings ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.10.2013 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband