Gullkorn eftir Magnús Thoroddsen
15.10.2013 | 08:50
Orðið dómgreind er fallegt orð í íslenzku máli og það er sjálflýsandi, eins og svo mörg orð á okkar fögru tungu. Vitanlega þarf dómari að kunna góð skil á íslenzkum rétti, bæði hvað varðar fræði og framkvæmd. En það er ekki nóg. Góður dómari verður að hafa góða dómgreind, vita og finna, hvar er sannast og réttast í hverju máli og helst að lögum, og dæma samkvæmt því.
Þetta þykir mér vel sagt og lýsir væntanlega vel innræti og viðhorfi þess sem þarna mælir. Sá hét Magnús Thoroddsen, lögfræðingur, hæstaréttarlögmaður og fyrrum hæstaréttardómari. Frétt um andlát hans birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á lestri og les mér til ánægju margt af ólíklegasta tagi og þá gerist það að mér finnst ég orðið þekkja fjölda fólks jafnvel þó persónuleg kynni séu oftast engin. Þetta er svona einhliða vinskapur sem skapast hefur í mörgum tilvikum. Ekki þar fyrir að margir þeirra sem ég les bækur eða greinar eftir heilla mig lítið en það er önnur saga og annar handleggur.
Magnús Thoroddsen þekkti ég ekki persónulega, hitti hann samt nokkrum sinnum, og er næsta öruggur um að hann hafi hvorki þekkt haus né sporð á mér. Það skiptir hins vegar engu máli. Mest er um vert að hann skrifaði talsvert, hafði auga fyrir stíl og gat verið spaugsamur í greinum og pistlum. Framar öllu var hann fræðandi og fyrir það ber að þakka.
Tvær fyrstu tilvitnanirnar í þessum pistli eru úr grein Magnúsar þar sem hann á afar hógværan hátt tyftir hagfræðing nokkurn fyrir meinlegan misskilning í vefgrein. Hann gerir það á afar hógværan og einfaldan hátt. Ég orðaði það í pistli hér, að rök Magnúsar séu svo einföld að mér sé til efs að hagfræðingur hafi orðið þess var að hann hefur verið rassskelltur - sviðinn hlýtur að hafa verið óbærilegur þegar hann fattaði það.
Grundvallaratriðið er hins vegar ekki hvort maður hafi haft yfirhöndina í rökræðum heldur miklu frekar hvernig hann svaraði gagnrýni, jafnvel þeirri sem telst ómerkileg. Magnús sagði:
Þurfa dómarar að hafa dómgreind? Mér finnst spurningin kjánaleg! En svarið er einfalt. Það er já.
Einhverju sinni skrifaði Magnús Thoroddsen um fyrirhuguð jarðakaup kínversks kaupsýslumanns á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá sagði hann eftirfarandi sem vert er að menn hugleiði mjög ítarlega:
Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur og íslenzkur ríkisborgari. Ekki á ég lóðina undir húsi mínu, heldur leigi ég hana af borginni, svo sem títt er um aðra hús- eða íbúðareigendur í þéttbýli hér á landi. Þykir mér það sjálfsagt fyrirkomulag og hygg ég að svo finnist öðrum Íslendingum. Jarðir og lendur eru einu veraldargæðin, sem varanleg eru. Hvers vegna í ósköpunum eigum við að vera að selja erlendum aðiljum þessi gæði úr því að obbinn af Íslendingum nýtur þeirra ekki og lætur sér vel lynda? Þá segja menn: Við þurfum erlenda fjárfestingu inn í landið og það kann að vera rétt. En það er ekki sama hvernig hennar er aflað. Sjálfstæð þjóð gerir það ekki með því að selja undan sér landið. [...]
Samkvæmt lögfræðinni þurfa þrjú skilyrði að vera fyrir hendi til þess að um þjóðríki geti verið að ræða, þ.e.: Land, fólk og lögbundið skipulag. Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir því, að heimskapítalið getur keypt upp Ísland Milli mjalta og messu, ef Íslendingar halda ekki vöku sinni? Vilja menn það? Ekki trúi ég því. Það er viðbúið að ásókn erlendra auðhringa aukist stórlega í framtíðinni, vegna hinna miklu endurnýjanlegu náttúruauðlinda, er Ísland á yfir að ráða, nú þegar hratt gengur á óendurnýjanlegar auðlindir heimsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fjársjóður. Og takk fyrir skýringarnar, Sigurður. Eftirfarandi hitti mig mest. Og það síðara ætti að vera sett í skyldunám fyrir alla samfylkinga og aðra landsölumenn.
Samkvæmt lögfræðinni þurfa þrjú skilyrði að vera fyrir hendi til þess að um þjóðríki geti verið að ræða, þ.e.: „Land, fólk og lögbundið skipulag“. Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir því, að „heimskapítalið“ getur keypt upp Ísland „Milli mjalta og messu“, ef Íslendingar halda ekki vöku sinni? Vilja menn það?
Þá segja menn: Við þurfum erlenda fjárfestingu inn í landið og það kann að vera rétt. En það er ekki sama hvernig hennar er aflað. Sjálfstæð þjóð gerir það ekki með því að selja undan sér landið.
Elle_, 16.10.2013 kl. 21:38
Sammála, Elle.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.10.2013 kl. 22:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.