Forsætisráðherra skýri stöðuna vegna ESB umsóknarinnar
30.9.2013 | 15:21
Fleirum en mér er órótt vegna meðferðar ríkisstjórnarinnar á aðildarumsókninni í Evrópusambandið. Styrmir Gunnarsson ritar góðan pistil á Evrópuvaktina og segir þar:
Það er afar mikilvægt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skýri stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar Íslands að ESB betur en ráðherrar hafa gert til þessa í stefnuræðu sinni á Alþingi.
Hvað þarf að skýra betur?
Í fyrsta lagi þarf að skýra stöðu þeirrar yfirlýsingar stjórnarflokkanna í stjórnarsáttmála að staða viðræðna við ESB verði metin svo og þróun Evrópusambandsins. Hvar er þetta mál á vegi statt?
Í öðru lagi þarf ríkisstjórnin að upplýsa hvenær og með hvaða hætti hún ætlar að draga aðildarumsóknina að ESB til baka. Ísland er enn umsóknarríki, þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á viðræðum.
Í þriðja lagi þarf forsætisráðherra að útskýra afstöðu stjórnarflokkanna til þeirra fyrirheita, sem gefin voru í kosningabaráttunni um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Þær útskýringar hafa ekki komið fram heldur hafa einstakir ráðherrar og þingmenn talað út og suður.
Það hefur verið haldið illa á þessu máli fram til þessa gagnvart almenningi. Áform ríkisstjórnarinnar um næstu skref eru óljós þótt enginn dragi í efa, að stjórnarflokkarnir séu samstiga í því að hætta viðræðum. Þeim gengur hins vegar augljóslega illa að ákveða með hvaða hætti það verði gert.
Ég er sammála Styrmi. Forsætisráðherra þarf að skýra málið. Það er út í hött að utanríkisráðherra taki sér löggjafarvald og álíti sem svo að hann einn geti afturkallað þingsályktun Alþingis eða látið sem svo að nýr meirihluti sé kominn og þurfi ekki að greiða atkvæði. Utanríkisráðherra er ekki Alþingi við megum ekki gleyma því að formið er ekki aðeins tildur heldur bráðnauðsynlegur hluti löggjafarvaldsins. Hlé er aðeins stundarfyrirbrigði.
Við eigum að leggja umsóknina um aðild að ESB undir þjóðaratkvæði. Það er eina leiðin til að fá málið út úr heiminum í eitt skipti fyrir öll. Ég er þess fullviss að þjóðin mun hafna aðildinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já ég er þér hjartanlega sannmála
Jón Sveinsson, 30.9.2013 kl. 21:18
Sammála þér, kjósum þessa ESB aðildarumsókn út af borðinu, sem allra fyrst! -
Því fyrr sem þessari ESB- óværu er komið frá þjóðinni því betra !
Gunnlaugur I., 30.9.2013 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.