Vel útilátin flenging verklýðsforingja en ekki klapp á kinn
27.9.2013 | 08:56
Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, hélt því fram á fésbókarsíðu sinni að Kári Stefánsson væri að ganga erinda alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Amgen þegar hann tjáði sig um slæma fjárhagsstöðu íslensks heilbrigðiskerfis.
Fróðlegt er að lesa grein Kára í Morgunblaðinu í morgun en hún birtist á blaðsíðu tuttugu og níu undir fyrirsöginni Verkalýðsforinginn.
Auðvitað bjóst maður við að Kári myndi myndi í grein sinni löðrunga Gylfa fram og ausa svívirðingum yfir hann. Þannig fór það nú ekki. Vel ritfær maður og aukreitis vel menntaður hagar sér ekki eins og götustrákur eða þaðan af verra þegar hann vill segja mönnum til syndanna í blaðagrein.
Vissulega fær Gylfi að finna til tevatnsins en svo meistaralegur er stíll Kára að maður yrði ekki hissa á því að hann fengi blóm frá Gylfa fyrir blíðuyrðin.
Hvassari en þetta er Kári ekki í grein sinni:
Samkvæmt útvíkkaðri kenningu Gylfa gæti allt tal um vanda heilbrigðiskerfisins átt rætur sínar í fjárhagslegum hagsmunum manna sem vilja selja heilbrigðiskerfinu eitt eða annað. Þetta er eina framlag Gylfa til umræðunnar um þann vanda heilbrigðiskerfisins sem er farinn að vega að vellíðan, heilsu og lífi meðlima þeirra stéttarfélaga sem mynda ASÍ. Báturinn er að sökkva, marar í hálfu kafi, og Gylfi er ekki að ausa út úr honum heldur inn í hann.
Kári ber síðan smyrsl á sár Gylfa, setur á plástur og kyssi loka á bágtið og án efa verður sá síðarnefndi hoppandi glaður og telur greinina ekkert annað en hól. Hann þarf þó að minnast þess að ekki er allt sem sýnist, jafnvel þó Kári segi þessi fallegu orð:
Ég er í litlum vafa um að Gylfi gæti leitt þannig byltingu innan verkalýðshreyfingarinnar vegna þess að hann ber til hennar sterkar tilfinningar þótt þær geri það að verkum að hann skjóti stundum föstum skotum í vitlausa átt. Það er nefnilega þannig að tilfinningar, ærlegar og kraftmiklar, eru lykillinn að öllu góðu í lífinu, líka að verkalýðshreyfingu sem þjónar sínu samfélagi vel.
Þegar öllu er á botninn hvolft er innihaldið í grein Kára þetta: Gylfi, þú gerðir upp á bak í þessari fésbókarfærslu. Hættu að skrökva upp á annað fólk eða ljúga til um tilgang þess í lífinu. Haltu þig við launþegamálin, þar ertu einfaldlega í stórkostlegum vanda. Reyndu ekki einu sinni að beina athygli fólks frá mistökum þínum með því að gera lítið úr öðrum ... asninn þinn!
Eða eins og götulýðurinn í athugasemdakerfum ákveðinna fjölmiðla myndi sega: Gylfi, hoppaðu upp í ...
En mikið asskoti er nú Kári Stefánsson góður penni að geta flengt mann svo rækilega og sá sem fyrir flengingunni verður heldur að hann hafi fengið klapp á kinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gengur þessi forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, erinda Evrópusambandsins með því að hamast í gær á málefni sem hann hefur lengi fylgt, að koma Íslandi undir jarðarmen og æðsta löggjafar-, dóms- og stjórnvald téðs ríkjasambands, þrátt fyrir að 70% Íslendinga vilji EKKI að landið vrði tekið inn í það stórveldi?
Jón Valur Jensson, 27.9.2013 kl. 09:37
Já, Jón Valur, sá er maðurinn. Menn láta að sjálfsögðu ekki af skoðunum sínum þó svo að meirihluti landsmanna sé á annarri skoðun.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.9.2013 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.