40 zetulaus ár ...
18.9.2013 | 08:15
Það er nokkuð algengur misskilningur (og hefur ratað inn í fræðibækur) að bókstafurinn zeta hafi verið afnuminn úr íslensku ritmáli árið 1974. Það skiptir kannski ekki miklu máli en það var einu ári áður, eða þann 4. september 1973, sem Magnús Torfi Ólafsson, þáverandi menntamálaráðherra, undirritaði auglýsingu nr. 272/1973 um afnám zetunnar úr íslensku ritmáli og var hún birt daginn eftir í Stjórnartíðindum og tók þar með gildi. Það eru því um þessar mundir liðin 40 ár frá afnámi zetunnar.
Þannig skrifar Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur í lítilli grein í Morgunblaðinu í morgun. Og í niðurlagi greinarinnar segir hann:
Það var því ákvörðun eins manns, Magnúsar Torfa Ólafssonar menntamálaráðherra, sem afnam zetuna úr ritmáli Íslendinga. Bráðlæti ráðherrans var svo mikið að hann gat ekki beðið eftir að hans eigin nefnd lyki störfum. Í auglýsingunni var ekki vísað til nokkurra laga enda engar lagareglur til um stafsetningu. Tekið var þó fram að hið zetulausa ritmál gilti einungis um bækur sem ríkið gæfi út og eins um þá stafsetningu sem kennd væri í skólum. Öllum öðrum var því heimilt að skrifa zetu áfram og gera margir ágætir menn það enn í dag, svo sem ritstjóri Fréttablaðsins.
Alla mína skólagöngu þurfti maður að kunna skil á zetunni og þeim reglum sem lágu að baki ritunar hennar. Þetta fannst mann á sínum tíma bölvað torf. Svo skyndilega þegar maður var í Menntaskólanum í Reykjavík gufaði setan upp, flestum til mikillar ánægju.
Það er nú hins vegar svo að flest lærir maður með skilningi og tileinkar sér. Oft gerist þó það að skilningurinn er ekki fyrir hendi og kemur ekki fram fyrr en síðar. Þannig er það með zetuna og skilning fólks á henni. Hún segir svo mikið til um uppruna og skilning orða að við liggur að maður sakni hennar. Að minnsta kosti veitti ungu kynslóðunum ekki af því að þekkja eitthvað til hennar.
Mér þykir þessi grein eftir gamlan félaga úr Vöku í Háskólanum hin fróðlegasta lesning og vil hér vekja athygli á henni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.