Sprengjur í nafni siðferðis ... eða réttlætis

Nicholas Kristof setur fram þau rök í The New York Times að snögg refsing gæti knúið Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta til þess að hætta að nota efnavopn og beita „hefðbundnari vopnum til aðslátra þjóð sinni“. Þetta er mér óskiljanlegt. Vandin hlýtur að vera slátrunin, ekki aðferðin sem notuð er.

Hann heitir Ian Buruma sem er höfundur greinar í Morgunblaðinu í morgun og hann vekur upp forvitnilegar og siðferðilegar vangaveltur um fyrirhugaða árás á Sýrland. Ég held að flest almennilegt fólk geti tekið undir með höfundinum enda er þessi grein hans örugglega ekki sú fyrsta né heldur að hann sé í fyrsta sinn að velta svona siðferðilegum málum fyrir sér.

Buruma heldur því fram að morð á fólki sé röng, hver sem aðferðin er og hversu margir séu líflátnir. Hvernig á að bregðast við óréttlætinu. Þá kemur upp önnur hlið í rökræðunni:

 

Spyrja má áður en skorist er í leikinn með hervaldi í öðru landi hvort það er líklegt til að bæta úr skák, bjarga mannslífum og gera heiminn öruggari. Já, ofbeldi gegn óbreyttum borgurum er siðferðisleg viðurstyggð, hvort sem beitt er saríngasi eða þungvopnuðum þyrlum. Málið er hvernig bregðast eigi við, hvað muni virka?

 

Vandinn er auðvitað sá að fæstir hugsa fram í tímann þegar brugðist er við með vopnum. Stjórnarherrarnir í Sýrlandi hafa lengi barið á fólki sínu enda ekki að ástæðulausu að fólk reis upp. Hins vegar má skoða hverjir það eru sem berjast á móti stjórninni. Það er ekki einslitur hópur heldur fjöldi smárra hópa sem einungis hafa sameiginlegt markmið. Hvað gerist þar á eftir veit enginn. Líkur benda þó til að aðstæður verði eins og eru nú í Líbýu eftir fall Gaddafís. Þar er hver höndin upp á móti annarri og langt frá því að friður hafi komist á. Enn er fólk þar myrt fyrir alls kyns sakir eða sakleysi.

Þess vegna má vissulega spyrja, hvort allt bendi til að fólk þurfi að sætta sig við harðstjórnina vegna þess að byltingin virðist ekki vera nein lausn? Harðneskjuleg stjórnun getur hins vegar varla verið lausn. Er hún þá fólgin í hernaðarlegum afskiptum erlendra ríkja?

Svarið við þeirri spurningu er líklega eitt orð, eitt land: Afganistan. Þar var ástandið ómögulegt fyrir innrás bandamanna og er eiginlega ekkert skárra núna.

Hér er umræðan komin í rökfræðileg þrot. Siðfræði og réttlæti stefna í sitt hvora áttina. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband