Dvínar gildi þingsályktunar með breyttum þingmeirihluta?
26.8.2013 | 10:41
Þingsályktun fellur ekki beinlínis niður eða úr gildi við kosningar eða þegar þingstyrkur að baki henni breytist, en varði hún umdeilt pólitískt stefnumál getur framkvæmd hennar verið undir því komin að stefnumálið njóti áfram tilskilins stuðnings í þinginu.
Ef þingstyrkur að baki þingsályktun breytist eða hverfur hlýtur pólitísk þýðing slíkra fyrirmæla að dvína í samræmi við það og eftir atvikum fjara út, t.d. ef meirihlutinn missir umboð sitt í kosningum.
Pólitísk þýðing þingsályktunar helst þannig í hendur við þann meirihluta sem er í þinginu hverju sinni og tryggir að völd og ábyrgð fari saman.
Ofangreint er úr lögfræðiáliti starfsmanna utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknarinnar að ESB (greinaskil eru mín). Björn Bjarnason fyrrverandi þingmaður og ráðherra ræðir þetta mál á Evrópuvaktinni og segir:
Í álitsgerðinni er fjallað um hvort þingsályktanir geti haft bindandi áhrif á stjórnvöld umfram það sem leiðir af þingræðisreglunni það er af þeirri reglu að ríkisstjórn beri á hverjum tíma að hlíta vilja meirihluta alþingis, meirihlutinn geti sett ríkisstjórn af með ákvörðun sinni.
Í fljótu bragði er ég ekki alveg sammála Birni. Þingsályktun hlýtur að halda gildi sínu hvernig svo sem meirihluti þingsins er skipaður, jafnvel þó þingsályktunin sé pólitísk. Þingsályktun er auðvitað ekkert annað en pólitísk yfirlýsing hvert svo sem efni hennar er. Hún hlýtur að gilda þangað til önnur ályktun um sama efni er samþykkt.
Þingsályktun um aðildarumsókn að ESB sem samþykkt var í júlí 2009 gildir þar til þingið samþykkir að afturkalla hana. Þó svo að þingmeirihluti hafi breyst er ekkert sem sannar það annað en ný ályktun.
Mér finnst ótrúlegt að lögfræðingar utanríkisráðuneytisins álíti sem svo að efni þingsályktunar dvíni eða fjari út með breytingum á meirihluta. Formið er slíkt að ályktun hlýtur að halda gildi sínu sé henni ekki breytt.
Að mínu áliti skiptir hér mestu formfestan í störfum þingisins, að það sé ljóst hver sé skoðun þess hverju sinni, ekki aðeins í samtíð heldur þegar síðar meir er litið til baka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er nýrri ríkisstjórn til mikils vansa, hversu klaufalega og ósamstíga hún er varðandi umsóknarferlið að esb. Það virðist skorta bæði kjark og samstillingu varðandi þetta mál. af hálfu beggja flokka. Ákveðnum hlutum var lofað fyrir kosningar og nú er runninn upp tími til að efna þau. Þetta með að álytanir Alþingis geti "dvínað" eða jafnvel "fjarað út" er málflutningur sem er illskiljanlegur og er enn eitt dæmið um orðhengilshátt og útúrsning, þar sem núverandi stjórnarflokkar reyna að koma sér undan loforðum sínum fyrir kosningar. Klaufalegt, vandræðalegt og beinlínis pínlegt að að hlusta á og lesa þvaðrið og þæfinginn sem flokkarnir leyfa sér nú að bera á borð fyrir almenning. Loforð er loforð og þegar maður lýgur að vinnuveitanda sínum í vinnunni, kostar það í flestum tilfellum starfsmissi. (Verst hve uppsagnarfresturinn er langur, þegar misvitrir stjórmálamenn eiga í hlut)
Halldór Egill Guðnason, 26.8.2013 kl. 15:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.