Er hætt að gera greinarmun á Goðalandi og Þórsmörk?
29.7.2013 | 08:56
Blaðamaður Morgunblaðsins fellur í sömu gryfju og svo margir aðrir í hans stétt. Í grein á blaðsíðu sextán kemur fram að 60 þúsund manns komi árlega í Þórsmörk. Svo virðist sem að blaðamaðurinn geri ekki greinarmun á Þórsmörk og Goðalandi sem í raun er ófyrirgefanlegt.
Þórsmörk er landið norðan Krossár og sunnan Þröngár. Ekkert annað. Þar, í Landadal er Ferðafélagið með aðstöðu og aðrir aðilar sjá um rekstur ferðaþjónustu í Húsadal.
Goðaland er að hluta til það land sem er sunnan Krossár. Þar, í Básum, er Útivist með aðstöðu.
Mikilvægt er að gera greinarmun á landsvæðum og halda í heiðri örnefni. Sé það ekki gert munu sömu örlög bíða þeim eins og tungumáli sem ekki er sinnt, hvoru tveggja hnignar og fellur um síðir í gleymskunnar dá.
Enginn heldur því fram að Reykjavík og Kópavogur væri sama sveitarfélagið. Verður einhvern tímann ekki gerður greinarmunur á Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri eða Heklu og öðrum fjöllum?
Ég hef enga trú á því að sextíu þúsund manns komi árlega í Þórsmörk. Hér er áreiðanlega átt við samanlagðan fjöldi þeirra sem sækja Þórsmörk og Bása. Krossá er gríðarlegur farartálmi og það hefur valdið því að á undanförnum tuttugu árum hafa miklu fleiri farið í Bása en í Langadal og Húsadal. Þetta er eðlilegt og sem betur fer reyna fáir sig við Krossá. Þeir sem fara oft á sumri á þessar slóðir hafa séð að mikill munur er á fjölda t.d. tjalda í Langadal og Básum. Af þeirri staðreynd má draga einfalda ályktun.
Tilefni greinarinnar í Morgunblaðinu er að nú eru áttatíu ár frá því fyrsta skipulagða hópferðin var farin á vegum Ferðafélags Íslands inn í Þórsmörk. Löngu síðar hóf ég að ferðast með Ferðafélaginu og á því mikið að þakka. Þar fékk ég að hluta þann brennandi áhuga fyrir ferðalögum og grunn í fjallamennsku sem ég hef lengst af stuðst við. Þar af leiðandi hefur mér alltaf þótt vænt um félagið þó að ég hafi um tíma unnið mest með Útivist, meðal annars í fararstjórn. Núorðið skipti ég mér ekkert af þessum félögum, ferðast á eigin vegum.
Myndin er tekin á svokölluðum Foldum sem eru ofan við Strákagil og neðan Heiðarhorns og þarna liggur m.a. um gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls. Horft er til norðvesturs. Fyrir ofan þessa ágætu menn sjást tvö fjöll. Vinstra megin er Réttarfell á Goðalandi og hægra megin er Valahnúkur í Þórsmörk. Á milli eru Krossáraurar og þar rennur samnefnt fljót og greina má það ef vel er að gáð. Sumir nefna dalinn sem Krossá rennur um einfaldlega Krossárdal en það nafn hefur ekki náð vinsældum enda gengur uppgjafartónninn út á að kalla þetta allt Þórsmörk, ekki að fjölga örnefnum. Vonandi er þó Þórólfsfell undanskilið en það er fjallið efst fyrir miðri mynd og er nokkuð slétt að ofan. Reyndar er það handan Markarfjóts og er ekki það sama og Krossá ...
Tuttugu ferðir á ári í Þórsmörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð ábending þótt ég telji að seint verði það svo að ferðaseljendur auglýsi ferðir í Goðaland þegar ferðinni er heitið í Bása eins og er um allar dagsferðir og áætlunarferðir þangað. Fyrir þeim og flestum Íslendingum er allt svæðið Þórsmörk. Blaðamanninum er því nokkur vorkunn.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.7.2013 kl. 10:30
Bestu þakkir fyrir innlitið, Svanur. Nei, eiginlega finnst mér blaðamanninum engin vorkun. Goðaland er ekki Þórsmörk og má ekki vera það vegna þess að þá missum við sjónar á því sem skiptir máli.
Blaðamenn bera mikla ábyrgð og það er ekki þeirra að segja til um hvernig málvenjan þróast og því ber þeim undantekningalaust að fara rétt með landafræðina. Rétt eins og tungumálið. Hitt eru líka rök, hvernig veit maður hvort blaðamaðurinn er að tala um Goðaland, Þórsmörk eða bæði svæðin. Í blaðagreinni er enginn munur þar á.
Veistu að nýja hraunið uppi á Fimmvörðuhálsi var nefnt Goðahraun vegna tengingarinnar við Goðaland? Það hefði verið þokkalegt hefði það verið nefnt Þórsmerkurhraun ... ;-)
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.7.2013 kl. 10:39
Þetta er sams konar fyrirbæri og þegar sagt er að Hellisheiði sé á Reykjanesi en 80 kílómetra akstursleið er að milli þessara tveggja staða.
Aðalkrafan, sem gerð er til fjölmiðlafólks er að hafa upplýsingar sem réttastar. Það á ekki virða neinum fjölmiðlamanni það til vorkunnar að hann éti gagnrýnislaust upp misskilning einhverra annarra, - krafan um sem réttastan fréttaflutning í einu og öllu er númer eitt í fjölmiðlun.
Ómar Ragnarsson, 30.7.2013 kl. 00:19
Örnefni hafa engan sérstakan rétt til lífs, tilgangur þeirra er að auðvelda okkur að tala um landslag.
Reykjavík er örnefni sem nær yfir bæði víkina og sveitarfélagið. Reykjanesið er örnefni sem notað er yfir bæði nesið sjálft og stærra svæði sem afmarkast af fjöllum í norðri og hefur oft verið kallað "Landnám Ingólfs".
Þórsmörk er notað jöfnum höndum yfir svæðið "norðan Krossár og sunnan Þröngár" sem og svæði sem nær yfir dalinn norðan Eyjafjalla ásamt móbergshryggnum norðan Krossár.
Örnefni þjóna ákveðnum tilgangi og stundum verða til ný örnefni eða þá að gömul fá nýtt hlutverk. Ágætt dæmi er "Kambaskriður", örnefni sem ekki var til fyrir nokkrum árum. Vegurinn liggur um skriður upp af Kambanesi, milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar, meðal annars um Kambanesskriður sem svo hafa heitið frá fornu fari. En skriðurnar eru fleiri og heita fleiri nöfnum. Vegagerðin notaði fyrst "Kambanesskriður" sem samheiti fyrir allar skriðurnar.
Einhverjum fornhattinum þótti það ótækt að nota orðið "Kambanesskriður" sem samheiti um veg sem lá í gegnum minnst 4 skriður sem hann gat nafngreint frá blautu barnsbeini. Núna hefur Vegegerðin breytt nafninu í "Kambaskriður", ekki veit ég hvort fornhattinum hefur tekist að beygja Vegagerðina - en nýja nafnið er einfaldlega ljótt. Enda er vegurinn hvergi nálægt Kömbunum á Kambanesi, hann liggur hins vegar um skriður sem í munni flestra heita Kambanesskriður.
Þegar sagt er að 60.000 manns hafi farið í Þórsmörk, þá er verið að nota örnefnið í þeim skilningi sem flestir hafa - menn fara í Þórsmörk og gista í Langadal, Húsadal eða Goðalandi. Hvort einhverjir smalamenn hafi áður notað eitt nafnið hér og annað nafnið annars staðar skiftir ekki máli, núna eru það ferðamenn sem nota nafnið og hafa breytt merkingunni svo hún henti betur þörfum þeirra.
Brynjólfur Þorvarðsson, 30.7.2013 kl. 06:22
Fróðleg umfjöllun um Kambanesskriður, Brynjólfur. Annars ertu þarna í þversögn. Þórsmörk er notað af örfáum eins og þú heldur fram. Ferðafélag Íslands, Útivist og fjöldi fólks skilur muninn á þessum tveimur örnefnum, Þórsmörk og Goðaland, rétt eins og margir munu eflaust taka undir með þér með Kambanesskriður. Hins vegar er það alveg hárrétt hjá þér að örnefni hafa engan sérstakan rétt til lífs. Þau lifa og deyja með því fólki sem notar þau. Og hversu mörg hafa ekki horfið í gegnum tímann og önnur orðið til? Hitt er svo annað mál að örnefni eru menningarverðmæti og hafa auk þess mikilvægu hlutverki að gegna til að skilja staðsetningar, alveg eins og mannanöfn greina á milli fólks. Verra væri ef ekki væri hægt að marka þau. Sama er með landafræðina, rétt eins og Ómar segir.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.7.2013 kl. 07:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.