Rakel fjögurra ára

Rakel

Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að eiga fjögur barnabörn sem þegar nánar er að gáð aldeilis ótrúlegt fyrir ungan mann eins og mig.

Hvað sem því líður hlýnar manni um hjartarætur þegar maður sér þessar fallegu stúlkur. Að vísu býr sú yngsta með foreldrum sínum í Noregi og er aðeins rétt rúmlega mánaðargömul og hef ekki enn náð því að hitta hana.

Rakel Grétarsdóttir, sú númer tvö í röðinni, var fjögurra ára í gær. Af því tilefni tók mamma hennar þessa mynd af henni með nýja barnavagninn. Og þegar afi kom í heimsókn fékk hann stórt faðmlag og marga kossa, allt með þeirri barnsleg hlýju sem fær mann til að trúa því að þrátt fyrir alla óáran eigi mannkynið enn framtíð fyrir sér.

Og svo var sungið afmælisbarninu til heiðurs og hún varð svo feimin að hún fékk sig ekki til að blása á kertin fjögur. 

Sé núna eftir því að hafa ekki ræktað skáldagáfuna í mér en hana uppgötvaði ég eitt andartak um tvítugt og glataði henni stuttu síðar. Nú hefði ég einmitt getað ort eitthvað fallegt um hana Rakel mína en kann það ekki og geng því í smiðju Jóhannesar úr Kötlum sem orti af öðru tilefni. 

Þegar ég horfi í þessi augu þýð og fögur,
finnst mér eins og láð og lögur
leysist upp í kvæði og sögur.
 
Upp á hól þú hleypur þar og hoppar niður:
kringum þig er frelsi og friður,
fuglar, blóm og lækjarniður.
 
Þar er allt, sem illska minnar aldar smáði,
allt, sem skáldsins andi dáði,
allt, sem móðurhjartað þráði.
  
Ríktu þar á rauðum kjól, mín rós og lilja,
þar til allar þjóðir vilja
þína veröld sjá og skilja.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú er heppinn eins og ég  að vera svona ungur afi og að eiga svona yndisleg barnabörn!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.7.2013 kl. 07:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband