Veðrið hefur alltaf verið svona
8.7.2013 | 09:03
Gera má ráð fyrir að virkni sjávar og veðurkerfa sé nú eins og hún hefur verið í árhundruð hér á landi. Golfstraumurinn heldur áfram að streyma frá suðvestri og sama er með lægðirnar sem koma úr sömu eða svipaðri átt. Það er gott.
Andlegt ástand margra landsmanna byggist hins vegar á því að hér á landi komi öngvar lægðir úr suðvestri. Að öllum líkindum verða bænaskrár sendar til forseta lýðveldisins þess efnis að sól skíni framvegis á suðvesturhorn landsins, þar verði upp á hvern dag helst logn og tuttugu gráðu hiti yfir sumarið.
Fyrir nokkru var ég að glugga í ferðabók Sveins Pálssonar (1762-1840) sem var læknir og náttúrufræðingur. Hann ferðaðist mikið um landið á tíunda áratug átjándu aldar og lýsti athugunum sínum. Mér þótti einna merkilegast lýsingar hans á umhleypingum í veðráttunni, hér á suðvesturhorninu og víðar.
Sem sagt. Lægðir hafa komið hingað á færibandi lengur en elstu menn muna og heimildir eru um slíkt í gömlum bókum og jafnvel þeim fornum sem við gumum svo mikið af.
Ráð mitt er því þetta til landsmanna minna. Takið veðráttunni með jafnaðargeði. Annað er ekki hægt ella kann hið andlega ástanda að fara í hundana. Njótum útiveru, það lagar skapið. Veðrið skiptir þá litlu máli.
Meðfylgjandi mynd var tekin í rignunni síðasta laugardag á Reykjakolli við Hellisheiði. Yndislega fallegur rigningardagur. Tvísmellið á myndina til að njóta hennar.
Lægðir til landsins á færibandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.