Þarf ekki að skipta um seðlabankastjóra?
12.5.2013 | 10:57
Núverndi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, var settur í embættið á pólitískum forsendum og virðist hafa gengið samhliða ríkisstjórninni sem nú hefur fengið reisupassann í eftirminnilegum þingkosningum.
Seðlabankastjórinn hefur stutt ríkisstjórnina í óhæfuverkum sínum. Hann hélt því fram að nota ætti skattpeninga ríkisins til að greiða Icesave-skuldina. Vonandi man fólk eftir því að hún hafði orðið til vegna starfsemi gamla Landsbankans sem var í einkaeigu. Maðurinn taldi þá lítið tiltökumál fyrir þjóðina að greiða kröfur Breta og Hollendinga.
Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, segir á mbl.is:
Af hverju skyldi þessi afneitun hafa verið. Gæti það haft eitthvað með þjónkun Seðlabankans við fráfarandi ríkisstjórn að gera? Skoðum aðrar álitsgerðir Seðlabankans, þar sem kvað við annan tón en í nýjustu stöðugleikaskýrslu (sem ætti auðvitað að heita óstöðugleikaskýrsla!). 15. júní 2009, ríflega mánuði eftir að Svavars-samningurinn vegna Icesave-málsins var undirritaður, skilaði Seðlabankinn inn álitsgerð þar sem sagði:
Ljóst er að hagstjórnarákvarðanir næstu ára munu ákvarða í hvaða mæli Icesave-skuldbindingarnar verða byrði á komandi kynslóðum. Ef áhersla verður lögð á hagvöxt þurfa efnahagsleg áföll að dynja yfir til að Icesave-skuldbindingar einar og sér leiði til þess að ríkissjóður geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar.
Sigurður bendir jafnframt á að í dag sé Seðlabankinn að vara við slöku greiðsluhæfi ríkissjóðs. Þá veltir maður ósjálfrátt fyrir sér hvernig bankinn gat fullyrt á sínum tíma að ríkissjóður gæti staðið undir Icesave til viðbótar við að fjármagna þann vanda sem hann varar nú við og segir:
Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Því mun íslenska þjóðarbúið ekki skapa nægan gjaldeyri að óbreyttu gengi krónunnar til að losa út krónueignir búa gömlu bankanna til erlendra kröfuhafa og það jafnvel þótt þær yrðu verðlagðar mjög lágt í erlendum gjaldmiðlum.
Leikmaður sem skoðar þetta sér að hér ganga orðin þvert á það sem áður hafði verið sagt.
Munum líka að það var Seðlabankinn sem átti þátt í að gera Árna Páls-lögin sem sett voru til að bregðast við dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán sem reyndust ólögleg. Þá fannst ríkisstjórninni og Seðlabankanum alveg ófært að fjármögnunarfyrirtækin fengu ekkert fyrir afnám gengistryggingarinnar og setti afturvirk ákvæði í lög um vexti í staðinn. Auðvitað kom annar Hæstaréttardómur sem sagði afturvirknina ólöglega.
Af þessu má sjá að Seðlabankinn undir stjórn Más Guðmundssonar er ekki sjálfstæð stofnun heldur hefur hún unnið náið með fráfarandi ríkisstjórn í óhæfuverkum hennar. Már hefði hæglega getað spyrnt við fótum og sagt að hann taki ekki við fyrirskipunum úr stjórnarráðinu. Það gerði hann ekki. Því er ástæða til að íhuga hvort ekki eigi að skipta um seðlabankastjóra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Seðlabankastjórinn á að mínu mati ekki að vera pólitískt valinn heldur ráðinn á faglegum forsendum.Ef á að skipta út bankastjóranum sem ég ætla að láta ósagt um hvort þurfi á að sjálfsögðu ekki að ráða einhvern pólítískt tengdan eins og þegar Davíð Oddsson var skipaður,heldur alvöru fagmann sem á að starfa sjálfstætt .
Jósef Smári Ásmundsson, 12.5.2013 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.