Heiðmörk í niðurníðslu
9.5.2013 | 20:23
Heiðmörkin er einn fallegasti staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Þar er stórkostlegt að njóta útivistar, ganga, hlaupa, hjóla. Gallinn er sá að vegurinn um svæðið er ónýtur, hvort sem farið er frá Garðabæ eða Reykjavík.
Ég skil ekkert í því að vegir þarna skuli ekki hafa verið malbikaður fyrir áratugum. Orkuveitan stendur gegn því rétt eins og allri umferð fólks um Heiðmörkina. Telur hana geta valdið mengun. Það er nokkuð skrýtið vegna þess að þau óhöpp sem orðið hafa í Heiðmörk hafa einkum stafað af umferð vegna skógræktar, vörubílar farið á hliðina.
Talsvert ofan við Heiðmörk varð óhapp fyrir tveimur dögum er flutningur á olíu með þyrlu mistókst og olían, sem var í opnu keraldi, heltist niður fyrir framan augun á fulltrúa Orkuveitunnar. Getur verið að hann hafi samþykkt að fljúga ætti með keraldið opið?
Við sem höfum stundað útivist í Heiðmörk undanfarna áratugi erum orðnir dálítið þreytt, svo ekki sé meira sagt, á aðgerðarleysi sveitarfélaga, Skógræktarinnar og Orkuveitunnar. Nauðsynlegt er að laga vegi í Heiðmörk, göngustíga og endurbæta áningarsvæðin. Fyrir löngu voru settar upp skilti með upplýsingum um tré og fugla. Þessi skilti eru orðin upplituð og nær ólæsileg.
Heiðmörkin er eiginlega í bölvaðri niðurníðslu, einhverra hluta vegna.
Heiðmörk ófær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er nú óþarfi að ljúga uppá Þríhnúkamenn. Olían var í lokuðum plasttanki, sem sprakk við fallið, og þá lak olían út.
Börkur Hrólfsson, 9.5.2013 kl. 20:59
Varðar: "..óhöpp sem orðið hafa í Heiðmörk hafa einkum stafað af umferð vegna skógræktar, vörubílar farið á hliðina. "
Þetta er rangt hjá þér, Sigurður. Hið rétta er, að vörubílar fóru nokkrum sinnum á hliðina vegna vatnsveituframkvæmda Kópavogsbæjar veturinn 2006-2007. Þeir flutningar voru unnir undir ströngu eftirliti Orkuveitu Reykjavíkur.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 9.5.2013 kl. 22:51
Það er alvarlegt að segja annan ljúga, Börkur.
Já, rétt hjá þér, Aðalsteinn. Biðst forlátas. Minnið sveik mig, minnti að það hefði verið þegar tréin voru flutt, sem frægt var. Hið stranga eftirlit OR hefur greinilega ekki alltaf virkað og gerði það ekki núna í fyrradag.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.5.2013 kl. 23:25
Haustið 2005 fékk Vegagerðin 77 m kr. fjárveitingu til þess að bæta veginn um Heiðmörk og setja á hann bundið slitlag. Var í framhaldinu sótt um framkvæmdaleyfi til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðisins og til umhverfissviðs Reykjavíkurborgar til að malbika um 4 km kafla í norður frá Vífilsstaðahlíð. Þeirri beiðni var hafnað. Í framhaldinu afsalaði Vegagerðin yfirráðum sínum yfir veginum í hendur þeirra sveitarfélaga sem hafnað höfðu beiðninni um að vegurinn yrði bættur. Umrædd sveitarfélög hafa síðan hafnað að taka veg þennan í fóstur og því er hann "einskis manns barn".
Sjá nánar:
http://www.althingi.is/altext/raeda/132/rad20051116T153831.html
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 10.5.2013 kl. 21:51
Nú hefur andstæðingum útivistar almennings í Heiðmörk borist óvæntur liðsauki:
http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Efaglegt-kludur%E2%80%9C
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 10.5.2013 kl. 22:06
Bestu þakkir, félagi. Ótrúleg staða. Ef mig misminnir ekki þá held ég að í drögum að deiliskipulagi Reykjavíkur fyrir Heiðmörk sé gert ráð fyrir málbikuðum vegum. Orkuveitan sendi inn harðorð mótmæli og hef lagst eindregið gegn því. Held að hún vilji ekki einu sinni að maður sé að skokka þarna. Sviti gæti smitast út í vatnsbólin með hrikalegum afleiðingum. Til hvers að rækta upp stórkostlega fallegt svæði og fá svo ekki að njóta þess. í dag voru þarna vegheflar að laga veginn Reykjavíkurmegin. Á þurrum sumardögum er gífurleg rykmengun til mikilla ónota fyrir gesti.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.5.2013 kl. 22:10
Frétti af þessu viðtali í heita potting, þarf að hlusta á það.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.5.2013 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.