Endurreisn krefst réttrar forgangsröðunar
8.5.2013 | 07:47
Stöðugleiki samfara góðum hagvexti næst ekki ef krónískur hallarekstur ríkissjóðs heldur áfram. Endurreisn skattstofna, samhliða róttækum uppskurði í ríkisrekstrinum og réttri forgangsröðun, er forsenda þess að jafnvægi náist í fjármálum ríkisins.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann bendir réttilega á að það sé ekki eftirsóknarvert að taka við efnahagsstjórn landsins við þær aðstæður sem ríkisstjórn vinstri manna skilur við.
Óli Björn brýnir ný stjórnvöld til að forgangsraða. Hann segir:
Með þetta í huga eiga forystumenn nýrrar ríkisstjórnar að senda skýr skilaboð um að tími réttrar forgangsröðunar sé genginn í garð:
- Á meðan það molnar undan heilbrigðiskerfinu og ekki er hægt að tryggja öllum landsmönnum viðunandi þjónustu höfum við ekki efni á því að ráðast í tuga milljarða króna byggingu á nýjum spítala.
- Á meðan þjóðvegir landsins liggja undir skemmdum er rangt að byggja hús í nafni íslenskra fræða fyrir milljarða.
- Á sama tíma og ekki er hægt að tryggja öfluga löggæslu um allt land er tómt mál að tala um að verja milljörðum króna í byggingu glæsilegs fangelsis.
- Á meðan ekki er búið að rétta við hlut aldraðra og öryrkja er rangt að setja hundrað milljónir í að koma upp náttúruminjasýningu.
- Á sama tíma og ekki er hægt að endurnýja úr sér gengin lækningatæki sjúkrahúsa höfum við ekki efni á að láta milljarða renna í »grænkun fyrirtækja«, »græn innkaup« eða í »grænan fjárfestingarsjóð«.
- Á meðan Landhelgisgæslan fær ekki nauðsynlegan tækjakost til að sinna öryggishlutverki sínu til hlítar er eitthvað verulega brenglað við að byggja sérstakt menntavísindahús fyrir á annað þúsund milljónir.
Listinn er miklu lengri og er efni í aðra grein.
Þetta er algjörlega rétt hjá Óla Birni og ekki síður eru niðurlagsorð hans eftirtektarverð:
Ekki skal dregið í efa að oft verður erfitt að stíga á bremsuna og hafna því að láta opinbera fjármuni renna í verkefni sem mörg hver eru ágæt þótt önnur flokkist aldrei undir annað en gæluverkefni. Þrýstihópar munu láta í sér heyra - hagsmunagæslan verður hávær.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.