Afrekslið í íþróttum koma af öllu landinu

BoltiVið sem búum á höfuðborgarsvæðinu áttum okkur ekki alltaf nógu vel á því að á landsbyggðinni er gríðarleg íþróttaiðkun, jafnvel enn meiri en hér. Víða eru góð íþróttahús, góðir fótboltavellir og unga fólkið flykkist í íþróttirnar. Afleiðingin er sú að víða um land verður til hörkuduglegt fólk sem setur hvert afrekið á fætur öðru.

Á þessu korti sem ég tók saman er dálítið yfirlit yfir þá bestu á landsbyggðinni í fótbolta, körfubolta og handbolta, í tveimur deildum, kvenna og karla.

Þetta er svo sem ekkert merkilegt og þó ... Þarna sést að fótbolti, handbolti og körfubolti er iðkaður með góðum árangri víða um landið. Það er af sem áður var að íþróttafélög í Reyjavík voru í meirihluta.

Ég hef ekki talið saman íþróttafélögin í þessum íþróttagreinum eða iðkendur þeirra. Fyrir mér vekur aðeins að benda á hversu víða afrekin eru unnin og ekki síður hversu mikilvægar íþróttir eru fyrir einstök sveitarfélög. Og hversu margir afreksmenn af landsbyggðinni eru nú í íþróttaliðum á höfuðborgarsvæðinu?

Og hvað kostar þetta allt saman? Jú, vinnu og aftur vinnu hjá aðstandendum sem halda ekki aðeins úti liðum í meistaraflokki heldur líka í öllum yngri flokkunum. Þvílíkur dugnaður í þessu fólki. En ánægjan er mikil hjá öllum. Unga fólkið lærir, eignast fyrirmyndir, félagslífið blómstrar og samheldnin eykst. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það ekki endilega bikararnir, gull, silfur eða brons sem skiptir máli heldur þátttakan. Hún hefur uppeldislegt gildi og endist alla æfi.

Litlir staðir á landsbyggðinni byggja gríðarlega á velvild atvinnulífsins og sem betur fer eru þar við stjórnvölinn venjulegt fólk sem á börn í íþróttum.

Hérna hef ég ekki fjallað um frjálsar, blak, skák, skíði eða aðrar íþróttir sem iðkaðar eru út um allt land. Ekki heldur líkamsrækt sem felst í gönguferðum, skokki, hjólreiðum og öðrum álíka. Landið er ekki að breytast en íbúarnir gera það. Nýjar kynslóðir hafa komið fram sem gera kröfu til þess að geta stundað íþróttir og hreyfingu af öllu tagi. Sveitarfélögin gera ráð fyrir þessu og þau breytast og þess vegna getur landsbyggðin haldið í við höfuðborgarsvæðið.

Munum samt að fyrirtækin í landinu leggja alls staðar gríðarlegt fé í íþróttastarfið. Þetta er hollt að muna í þann mund sem við göngum til kosninga. Peningarnir koma ekki fyrirhafnarlaust, ekki frekar en afrekin í íþróttum. Sterkt og öflugt atvinnulíf er ekki aðeins grundvöllur byggðar á Íslandi öllu heldur einnig traustasti stuðningurinn við íþróttirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband