Heift og titrandi bræði milli Steingríms og Atla

Heiftin tekur á sig ýmsar myndir. Tveir fyrrum pólitískir samherjar áttust við á síðasta fundi Alþingis. Á yfirborðinu var allt kurteist og rólegt, enginn hrópaði og enginn var með svívirðingar. Mórölsku banaspjótin voru þó brúkuð.

Um klukkan 0:15 lauk Atli Gíslason, þingmaður máli sínu um Kísilver á Bakka. Hann gaf sínum gamla flokki, Vinstri grænum ekki góða einkunn og skilur ekki, frekar en aðrir Íslendingar, hvers vegna örlátar skattlegar ívilnanir eru veittar kísilveri sem reisa á við Húsavík.

Hægra megin á sjónvarpsskjánum mátti sjá Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, iða í stól sínum undir ræðum síns gamla samherja. Og hann veitti örstutt andsvar sem hlýtur að vekja furðu þeirra sem fylgjast með í stjórnmálum. Sjá mátti að hann var reiður en stillti sig og sagði:

Herra forseti. Í enskri tungu er að finna orðið „pathetic“. Ég hygg að ágæt íslenskun á því sé lítilmótlegt.

Með því hvarf Steingrímur úr ræðustólnum. 

Forseti gaf þá Atla Gíslasyni, þingmanni, orðið. Atli virtist líka vera reiður. Hann snéri baki í Steingrím, stillti sér þannig vísvitandi upp, og sagði:

Menn tala um orð og efndir í pólitík. Menn tala um hugsjónir. Þessi andsvör háttvirts ráðherra eru ekki svaraverð að mínu mati.

Heiftin og titrandi bræðin sem greinilega mátti finna á máli Steingríms og Atla er hrikaleg. Eitthvað hefur gerst sem orsakað hefur slík vinslit að þeir geta ekki verið í sama flokki og þeir geta ekki talast við. Þá sjaldan sem þeir eiga orðaskipti þá líta þeir ekki á hvorn annan heldur senda þeir baneitruð orð sem valda ugglaust stórskaða í sálartetrunum. Þetta eru náttúruhamfarir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband