Glápgjaldið er einföld græðgisvæðing
20.3.2013 | 23:32

Hugmynd Robert Barnard, ráðgjafa hjá svissneska fyrirtækinu PKF, er ugglaust sniðug en hún gengur ekki upp. Þó hægt sé að heimta gjald af útlendum og jafnvel innlendum ferðamönnum er ekki þar með sagt að það sé réttlætanlegt.
Nefskattur á ferðamenn
Það getur vel verið að stjórnvöld séu komin upp undir vegg með fjárveitingar til ferðamála en það réttlætir ekki nefgjald á ferðamenn til að leysa úr þeim vanda. Staðreyndin er hins vegar sú að ferðamenn borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá hér á landi, af flestu er reiknaður virðisaukaskattur, til viðbótar eru aðrir beinir og óbeinir skattar og tekjur sem ríkissjóður hefur af auknum ferðamannastraum.

Ekki þykir það nú merkileg pólitík að hirða allan afrakstur og láta ekkert á móti. Ekki þykja það heldur skynsamleg rök að samþykkja skattlagningu eða gjaldtöku af þeirri ástæðu einni að hægt er að framkvæma hana.
Skaðinn
Sé hins vegar ætlunin að takmarka ferðamannastraum til landsins einhverra hluta vegna, til dæmis til að hlífa náttúrunni, er gjaldtaka ágætt leið. Hún kann þó að snúast í höndunum á þeim sem beita henni og valda einfaldlega skaða.
Ísland er í dag að upplifa mikla aukningu í fjölda ferðamanna, en hlutur ykkar er enn mjög lítill og því er mikið tækifæri á að auka hlutdeild landsins.

Þessu heldur Robert Barnard fram í viðtalinu. Ráðgjafi sem heldur því fram að tekjur ríkissjóðs upp á á að giska 70 milljarða króna af ferðaþjónustu sé lítill, fer villur vegar. Í grein í Morgunblaðinu í morgun hélt ég því fram að velta þjóðarbúsins vegna erlendra ferðamanna sé um 200 milljarðar króna. Það er rangt, þeir eru um 300 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum þeirra sem gerst þekkja. Af því má gera ráð fyrir að virðisaukaskattur sé á milli 60 og 70 milljarðar króna. Þá er annar tekjuauki í ríkissjóð ótalinn.

Græðgisvæðing
Mikilvægt er að kunna sér hóf. Ráðgjafi sem skoðar ekki allar hliðar mála er ekki góður. Því miður virðist mér að Robert Barnard veiti slæm ráð. Í það minnst tel ég að það sé afar óráðlegt að heimta gjald af þeim sem vilja ferðast um landið. Slíkt glápgjald, eins og það hefur verið nefnt, er ósanngjarnt.
Það er ekki eingöngu hægt að horfa til meintrar þarfar fyrir nokkra milljarða króna og segja si svo að það sé ágætt að ferðamenn greiði fyrir afnotin. Þá gleyma menn því sem skiptir mestu máli, ferðamenn greiða þegar milljarða. Spurningin er hins vegar sú hvort að þeim peningum sé ráðstafað rétt eða hvort að græðgin eigi að taka hér völdin með allri þeirri óvissu sem henni fylgir.
![]() |
Ferðamannapassar fyrir 10 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér þarna Sigurður. Íslendingar þurfa síst á að halda á fólki sem segjast vita hvað allt á að kosta en þekkja ekki verðleika neins.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.3.2013 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.