Misferli Sivjar vegna Kárahnúkavirkjunar

DSC_0217 - Version 2

Samkvæmt úttektum Landsvirkjunar á áhrifum virkjunarinnar á fljótið er vatnsmagnið í því meira en öll reiknilíkön gerðu ráð fyrir. 

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar ágætan leiðara í blað sitt í dag og er ofangreint úr honum. Hann fjallar um áhrif Kárahnúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts. Hann segir ennfremur:

Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt óbirtri skýrslu Landsvirkjunar, að áhrifin á lífríkið í fljótinu sjálfu eru mikil og neikvæð.

Og Ólafur rekur að Skipulagsstofnun hafi ekki viljað leyfa virkjunina vegna áhrifa hennar á umhverfið en Umhverfisráðuneytið snéri þessum úrskurði við þó það tæki engu að síður undir viðvaranir stofnunarinnar. Svo skrifar Ólafur þessi athyglisverðu orð (feitletranir eru mínar):

Af þessu var hins vegar dregin þessi mátulega rökrétta niðurstaða: "Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins. Ráðuneytið telur að með lækkun klapparhaftsins ofan við Lagarfljótsstíflu […] til þess að draga úr áhrifum vatnsflutninganna í Lagarfljóti muni áhrif framkvæmdarinnar á líf í og við fljótið ekki verða mikil."

Það er rétt, sem ítrekað hefur verið bent á, síðast í gær eftir að frétt Fréttablaðsins birtist, að umhverfisráðuneytið og þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skulda íbúum við Lagarfljót og raunar öllum almenningi skýringar á því hvernig hægt var að komast að þessari niðurstöðu, þvert á öll gögn sem fyrir lágu

Þetta er hárétt niðurstaða. Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skuldar landsmönnum skýringar á niðurstöðu sinni sem er þvert á öll gögn sem fyrir lágu, eins og Ólafur segir.

Ljóst er að ekki þarf að bíða eftir því að Siv Friðleifsdóttir klóri í bakkann. Staðreyndir málsins liggja fyrir og tala sínu máli. Kárahnúkavirkjun var á teikniborðinu og ekkert átti að koma í veg fyrir hana. Þess vegna ákvað ráðherra að líta framhjá gögnum málsins og skálda þess í stað upp eitthvað til málamynda.

Svona pólitík er röng. Þetta var verulega ámælisvert hjá ráðherranum og raun afglöp í starfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til málamynda voru sett "20 ströng skilyrði" sem verða að aðhlátursefni í framtíðinni þegar þau eru borin saman við hin hrikalegu neikvæðu umhverfisáhrif sem blasti allan tímann við að þessi virkjun myndi hafa. Ég hef undir höndum óbirta spurningu og svar Sivjar 20. desember 2001 þar sem kemur í ljós að umhverfisráðherrann, sem tekur afdrifaríkustu ákvörðun sögunnar hefur ekki hugmynd um aðalatriði allra framkvæmda og varðandi þessa virkjun, muninn á óafturkræfum og afturkræfum áhrifum. Þessi spurning og svarið komust aldrei að í fréttum RUV, vegna þess að það voru svo margar aðrar "stórfréttir" þess tíma á viðskiptasviðinu sem voru svo fyrirferðarmiklar.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2013 kl. 13:27

2 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þetta var einfaldlega PÓLITÍSK ákvörðum og slíkar ákvarðanir hafa oft á tíðum ekkert með niðurstöður faglegar vinnu að gera. Ef þú vilt fá skýringar á ákvörðuninni skaltu spyrja Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddson í stað þess að grilla fótgönguliðann.

Haraldur Rafn Ingvason, 13.3.2013 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband