Handarbaksvinnubrögð við breytingar á Laugardalslaug
8.3.2013 | 15:08
Það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir góðan skilning okkar gesta sem sýnt hafa biðlund og þolinmæði, segir Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Laugardalslaugar í tilkynningu.
Þolinmæði okkar fastagesta í Laugardalslauginni hefur verið mikil undanfarin misseri. Ekki þar fyrir að margir eru hreinlega gáttaði á handarbaksvinnubrögðunum við breytingar á pottum, búningsklefum úti og inni.
Í fjóra mánuði hefur verið unnið í karlaklefanum og hann loksins tilbúinn núna. Mætti halda að einn maður hefði unnið við flísalagningu í hlutastarfi í klefanum og örfáir aðrir að auki við pípulagningar og annað smálegt. Á meðan hefur verið þrengt að gestum laugarinnar.
Kvennaklefanum var skipt upp í tvennt og þrengslin hafa verið óskapleg fyrir bæði kynin. Halda mætti að enginn hafi hugsað til þeirra sem nýta sér þjónustuna við bráðabirgðaskipulagið. Jafnvel eru áhöld um að þeir sem standa hér að málum hafi yfirleitt aldrei nýtt sér sundlaugar.
Það sem mestu skiptir hefði auðvitað átt að vera að klára bæði karla- og kvennaklefa á sem skemmstum tíma. Til þess hefði átt að nægja tveir mánuður. Á meðan hefði verið hægt að nota bráðabirgðaaðstöðu rétt eins og þá sem núna er verið að setja upp við útiklefa. Þarna hefði verið hægt að koma fyrir karla- og kvennaklefum strax í upphafi. Nóg er plássið.
Nei, þess í stað var fólki troðið inn í alltof lítinn klefa og til viðbótar áttu áttu þeir að duga fyrir þá sem stunda æfingasund í innilauginni og júdó og karate í kjallaranum. Fyrir vikið voru skápar alltof fáir.
Fyrir ári var einum pott breytt í nuddpott, annar var flísalagður og svo var byggður upp stór og góður sjópottur. Fyrir þetta ber að þakka ekki síst sjópottinn sem einhverra hluta vegna, og sem betur fer, er ekki grafinn ofan í jörðu eins og hinir pottarnir.
Hins vegar skil ég ekkert í því hvers vegna hringlaga pottarnir voru ekki stækkaðir fyrst það var á annað borð farið í endurnýjunina. Þetta hringlaga form þjónar engum tilgangi nema pottarnir séu þeim mun stærri. Svo mikil aðsókn er í þá að þeir fyllast ofurfljótt.
Gáfulegra hefði verið að leggja af miðpottana. Í stað þeirra hefði átt að byggja stóra potta, alla á borð við sjópottinn.
Aðsókn í Laugardalslaugina er orðin svo mikil að starfsmenn eiga fullt í fangi með að leiðbeina gestum, sérstaklega útlendingunum. Útlendingar kunna fæstir að nota sundlaugar. Margir þvo sér ekki, láta nægja að stinga sér undir sturtuna eða þá að þeir skvetta á sig sápu og þvo sér í sundskýlunni. Við þessu þarf að bregðast með upplýsingamiðlun í afgreiðslu. Síðan verða gestir að eiga þess kost að geta dregið fyrir sturtuhengi meðan þeir athafna sig en það hefur hingað til vart verið hægt.
Það er rétt hjá forstöðumanni Laugardalslaugar að gestir hafa sýnt þolinmæði. Hins vegar fer ekkert fyrir skilningnum hjá mörgum okkar.
Laugardalslaugin lokuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.