Raunveruleikinn og dæmisaga Jóns Steinars

Jón SteinarJón Steinar Gunnlaugsson er einn af mínum bestu vinum, en sú vinátta er bara einhliða, því ég þekki hann ekki persónulega. Hef fylgst með honum í fjölmilum, lesið greinar eftir hann og hef hingað til virt hann eins og hann væri vinur. Hann veit ekkert hver ég er, en það skiptir engu máli. Ég hef enga sérastaka þörf á að kynnast Jón Steinar persónulega, meiru skiptir að ég met skoðanir hans.

Fátt er sárara en er vinir bregðast. Enginn ætti að þurfa að lenda í því. Í þessu tilviki finnst mér Jón Steinar hafa brugðist bogalistin allalvarlega í tveimur greinum sem hann hefur ritað í Morgunblaðið. Fyrri greinin birtist fyrir 5. mars og sú seinni í blaði dagsins. Mér finnst vanta dálítið upp á tengslin við raunveruleikann.

Jón ritar enn um verðtrygginguna og er við sama heygarðshornið og síðast. Nú kemur hann með dæmisögu um Olla og Steina, hinn varfærna mann og hinn ógætna. Sá fyrrnefndi stóðst hrunið en sá síðarnefndi lenti í vanda. Fín saga en hún tekur ekki mið af raunveruleikanum. Saga Kára Gunnarssonar gerir það hins vegar.

Og hver er Kári Gunnarsson? Jú, hann er kennarinn sem ritar greinina vinstra megin við þá eftir Jón Steinar, á blaðsíðu 24 í Mogganum í dag.

Kári keypti hús árið 2005 og tók lán upp á 9,5 milljónir króna. Hann er einfaldlega þessi Olli í sögu Jóns Steinars en lendir engu að síður í vanda. Mánaðarleg afborgun af láni hans tvöfaldaðist við hrunið og höfuðstóllinn hækkaði um rúman þriðjung. Engu að síður hefur Kári greitt átta milljónir króna af láni sínu frá því 2005 með vöxtum og verðbótum. Fyrir einhver undur er höfuðstóll lánsins 12.5 milljónir króna. 

Eiginlega þarf ekki að ræða grein Jóns Steinars neitt frekar. Grein Kára Gunnarssonar sér um að afgreiða hana. Kári stendur báðum fótum í íslenskum raunveruleika en Olli og Steini ekki. Þeir eru bara hugarfóstur sem eiga að sanna eitthvað sem ekki stenst.

Dæmisögur eru góðar en stundum hafa þær enga burði til að lýsa hinum bitra raunveruleika. Og sé Kári kennari eins og Olli, þá eru þeir Ollarnir enn fleiri áður en komið er að hinum ógætna Steina.

Engu að síður er saga Kára eiginlega saga hins „heppna“ manns. Sögur af öðrum eru hrikalegri og gerði fólk þó ekkert annað en að taka varfærnislega lán til að eignast þak yfir höfuðið. Fjármálastofnanirnar hafa tekið yfir húsnæði þessa fólks, vísaði því á götuna þar sem það þarf að greiða ótrúlegar fjárhæðir í húsaleigu.

Kári kennari greiðir 106 þúsund krónur á mánuði í afborganir af húsi sínu. Ég greiði hins vegar 140 þúsund krónur í húsaleigu. Raunveruleikinn er vissulega bitur, hann bítur þó ekki á þá Olla og Steina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband