Sagan af flóttanum undan óveðrinu

DSCN1318Flestum er hollt að fara út, takast á við óblíð veður, þola votviðrið, veðrabrigðin, vera kalt, vera votur í fætur.

Fæstir þola inniveruna. Hún er að vísu alveg ferlega góð og þægileg. Þegar á bjátar er hins vegar engin reynsla fyrir hendi, fólki fellist hendur, gefst upp.

Útiveran herðir fólk og hún er skemmtileg. Hvað er eiginlega betra en löng gönguferð, gönguferðin á móti storminum, móti illviðrinu? Á eftir er matarlystin aldrei betri, lundin sjaldan léttari og hugurinn svo ferskur að maður gæti ort þrítuga drápu (sem maður af náungakærleikanum einum saman.

Við erum nokkrir vinir sem höfum haft ákaflega gaman af ferðum á Fimmvörðuháls. Þeir eru nú orðnir afgamlir og treysta sér ekki lengur upp á Hálsinn og ég, enn ungur og frískur, hef þar af leiðandi aungva ferðafélaga og læt mér því duga að rifja upp gamlar minningar um hrakningar á Hálsinum, eins og þessa:

930108-1

Ég man eftir því þegar við flúðum eins og við gátum undan djúpu lægðinni sem nálgaðist landið með ógnarhraða. 

Við vorum uppi í Fimmvörðuskála í byrjun janúar 1993 og þetta var í eitt af þeim örfáu skiptum sem við höfðum þar félagsskap annarra. Það voru þeir Jón Sigurðsson, húsasmiður, sem stjórnað hafði endurbyggingu Fimmvörðuskála, auk hans Leifur Jónsson, læknir og Hrafn Antonsson, sem einnig höfðu komið mikið við þá sögu. Með þeim var Ragnheiður Hermannsdóttir, mikil útivistarkona, sem einnig hafði tekið hvað drýgstan þátt í endurbyggingunni. 

Þessi fjögur höfðu á þessum árum þann starfa að sjá um viðhald og endurnýjun á Fimmvörðuskála og höfðu fengið þá flugu í höfuðið að eyða þrettándanum uppi á Hálsi. Var það nú frekar vanhugsað hjá þeim enda ekki aðrir en vitleysingar sem halda til fjalla um þetta leyti árs. Þau lærðu þó af reynslunni því þetta var fyrsta og síðasta ferðin hjá þeim um miðjan vetur.

Einhver fjárans flensa gekk um landið þarna í desember og janúar eins og svo oft áður. Henni sló niður í mig uppi í Fimmvörðuskála og fyrir vikið var ég lá ég flatur í koju á laugardeginum og hafði mér það til dundurs að lesa, hlusta á fréttir og veður þennan dag, meðan félagar mínir skemmtu sér utan dyra og gengu á Eyjafjallajökul. Þeim miðaði seint upp, því lausasnjórinn var mikill og logndrífa. 

930108-26

Í hádeginu heyri ég að gefin hafði verið út aðvörun um stóra lægð fyrir sunnan land sem myndi valda óveðri á Suðurlandi og víðar. Mér krossbrá og rauk upp af sóttarsæng og rekst á Hrafn, sem komið hafði upp á vélsleða, og fæ hann til að skutlast með mér upp á Eyjafjallajökul. Í sjálfu sér var sú ferð ævintýri líkust, því birtan var orðin verulega erfið vegna snjóblindu. Hrafn ók tóma vitleysu og festi sleðann hvað eftir annað í lausum púðursnjónum en við náðum loks til skíðamannanna lengst uppi á jökli þar sem þeir tróðu púðursnjóinn í logninu. Þeir trúðu mér nú varlega, en þar sem ég skrökva sjaldnast tvisvar í röð, samþykktu að snúa við. Það tók þó sinn tíma að komast niður í skála aftur og þangað voru þeir ekki komnir fyrr en í rökkri, líklega um fimmleytið.

Hóparnir tveir réðu nú ráðum sínum, en ótrúleg fannst mörgum spáin, því enn var logn úti, stjörnubjartur himinn og tunglið sló silfruðum bjarma á snævi þakið landið. Líklega hafa þessir félagar mínir haldið að ég hafi verið að hrekkja þá, því allir nema ég vildu bíða eftir veðurspánni sem væntanleg var rétt fyrir klukkan sjö og á meðan var ákveðið að matreiða veisluföngin sem við höfðum flutt með okkur upp, nautakjöt og tilheyrandi sem Óli Þór Hilmarsson hafði útvegað og valið af mikilli fagmennsku.

930108-13

Veðurstofan stóð við spá sína frá því fyrr um daginn og hélt því fram að veðrið myndi skella á um miðnætti. Þá var mér loksins trúað og ekki þurfti að messa frekar yfir félögum mínum. Það lá í augum uppi að gengi veðurspáin eftir yrði ekkert ferðaveður daginn eftir, heldur norðan eða austan fárviðri, skafrenningur og líklega ofankoma til viðbótar. Við ákváðum því að fara niður um kvöldið. Mér létti því ég nennti alls ekki að hanga þarna lengur ónýtur í flensuskít.

Við vorum ekki tilbúnir til brottfarar fyrr en um níu leytið enda þurftum við að ganga vel frá skálanum. Enn var veðrið gott. Við renndum okkur á skíðunum niður af hryggnum sem skálinn stendur á og þaðan gengum við að Fúkka. Hrafn ók vélsleðanum um skarðið sem kallað Bílaskarð meðan um það var fært bílum og er nokkru austar á hryggnum. Með honum voru þau Leifur, sem sat aftan á sleðanum og Ragnheiður sem kom sér fyrir á farangrinum á dráttarsleðanum. Jón gekk með okkur á skíðum enda vart annað sæmandi, því hann er góður skíðagöngumaður, borinn og barnfæddur Siglfirðingur, eiginlega fæddur með gönguskíði á fótunum. 

Við Fúkka skildu svo leiðir, við örkuðum niður en Jón lét vélsleðann draga sig. Okkur fannst það svolítið fúlt að fjórmenningarnir skyldu fara á undan okkur, þeir buðust ekki einu sinn til að finna bestu leiðina fyrir okkur að bílnum sem var rétt fyrir neðan vað. Jæja, við því var ekkert að gera, við þurftum ekki á neinni aðstoð að halda. 

Enn var veðrið gott. Strákarnir göntuðust með það að þetta væri nú bara enn ein falsspáin frá Veðurstofunni og svo hlógu þeir að mér veltu fyrir sé hvað hin „veðurhrædda kelling“ kæmi með næst. Það fór ekki á milli mála að þeir áttu við mig.

940107-36

Svolítið þykknaði í mér við stríðnina en samt gat ég ekki betur séð en að líka væri farið að þykkna upp í suðri, að minnsta kosti sáust engar stjörnur í þeirri átt, en ekki vildi ég hafa orð á því. Það kemur kemur, hugsaði ég, og vildi forðast skens frá félögum mínum.

Við gengum rösklega þrátt fyrir myrkur og flensu enda gjörþekktum við leiðina eftir margar ferðir í dagsbirtu og myrkri. Nokkru fyrir neðan Fúkka, eru ofurlítil dalverpi sem við nefnum okkar á milli „Dalina þrjá“ og þar í myrkrinu sló ljósgeisla í augun á okkur. Hrafn og félagar voru komnir til baka á vélsleðanum því þeir rötuðu ekki niður, höfðu villst. Okkur þótti það mátulegt, gerðum svolítið grín að þeim, þóttumst sjálfir ekkert rata, en þau voru ekki svo vitlaus að leggja nokkur trúnað á það. Að sjálfsögðu gáfum við þeim áttavitastefnuna, en vöruðum þau við að fara um of í austur, þar væri stóra gilið. Svo hurfu þau og sáum við þau ekki aftur í þessari ferð.

Þegar við komum niður að bílnum var farið að hvessa svolítið og þá þótti félögum mínum tilhlýðilegt að leggja það af að uppnefna mig. Veðurspáin virtist vera að rætast.

Þorvaldur átti bíllinn, sem var nýleg Toyota Double Cab á 33 tommu dekkjum, sem voru svona heldur lítil fyrir þessa ferð en dugðu undir venjulegum kringumstæðum. 

Við ókum nú af stað niður, en nú hafði aðeins slaknað á frostinu. Þar sem við höfðum tveimur dögum áður ekið á hörðum snjó, pompaði bíllinn hér og þar niður og við þurftum að hlaupa út og moka frá. Smám saman mjökuðumst við niður á við í áttina að Skógum en um leið versnaði veðrið jafnt og þétt. Það byrjaði með hressilegum lágarenningi, svo tók við kafaldshríð og enn bætti í vindinn. 

Ekki þykir góð lenska að aka bifreið eftir minni, en í þetta sinn kom sér vel að við þekktum leiðina vel. Óli Þór og Reynir fóru út og gengu á undan, en Þorvaldur ökumaður, hékk hálfur út um gluggann, og ég, sjúklingurinn, fékk að sitja inni nema þegar bíllinn sat fastur þá var ég dreginn út til að moka.

930108-7

Hlutverk mitt var þó eins og miðils, ég pírði augun, teygði álkuna út að framrúðunni svo við lá að nefið næmi við hana, og þar skimaði ég og tuldraði hægri eða vinstri eftir því hvernig andinn eða flensan blésu mér í brjóst. Í sameiningu tókst okkur að halda bílnum á réttri leið á leiðinni niður þótt skyggnið væri svo til ekkert. Að vísu segja strákarnir núna að það hafi ekkert gagn verið af mér, ég hafi verið með óráði mest allan tímann og bullað eitthvað um vinstri og hægri í stjórnmálum sem er nú bara vitleysa.

Mestar áhyggjur höfðum við að brekkunni niður að Skógum. Þar sker vegurinn á kafla bratta brekku og í þessari austlægu átt voru líkur til þess að þar skæfi snjó í veginn og viðbúið að við myndum festa bílinn þar. Við drógum því upp farsímann og hringdum í félaga okkar á vélsleðanum og vildum fá fréttir af vegamálum. Við hringdum lengi, lengi, aftur og aftur, enginn ansaði. Loks kom einhver í símann og kom þá í ljós að þessir ágætu vinir okkar voru fyrir löngu komnir að Skógum og farnir að sofa þar hjá tengdaföður Hrafns er þar bjó. Af góðmennsku sinni ráðlögðu þeir okkur að lalla okkur bara niður ef festum bílinn og svo myndu þeir hjálpa okkur að sækja hann á daginn eftir. Svo var skellt á.

Við blótuðum þeim í sand og ösku og fannst tilvalið að einhver æðri máttur mætti nú refsa þeim fyrir letina.

Við komum nú í brekkuna hræðilegu og það var ástandið eins og við héldum, mikill snjór svo mótaði ekki fyrir veginum, en sem betur fer var snjórinn léttur, hafði ekki enn náð að pakkast, svo bíllinn komst nokkuð auðveldlega í gegn.

Um fimmleytið um nóttina stóðum við á hlaðinu á Skógaskóla og veltum fyrir okkur hvað við ættum að gera. Var ófært um Suðurland? Enn snjóaði mikið og skóf, þó ekki væri eins hvasst þarna og uppi á Skógaheiði. 

Við skiptum um föt enda orðnir blautir af svita eftir gönguna og moksturinn og svo fengum við okkur að borða og lögðum á ráðin. Fyrst datt okkur í hug að skera á dekkin á bíl okkar góðu „hjálpsömu“ vina, svona í þakklætisskyni fyrir alla „aðstoðina“. Við hurfum þó frá því ráði og ókum þess í stað rakleiðis til Reykjavíkur þangað sem við komum um átta leitið um morguninn. 

Eftirmálinn var þó lengri, því ég lá í flensu í viku. Vinir okkar sem gistu á Skógum fengu sína refsingu fyrir óliðlegheitin við okkur, því þeir komust ekki til Reykjavíkur fyrr en á þriðja eða fjórða degi vegna ófærðar. Veðrið færðist svo aldeilis í aukana að það var hreinlega snælduvitlaust í þrjá daga á Suðurlandi, allir vegir ófærir vegna snjóa. 

Þessi saga rifjast oft upp þegar rætt er um vond veður. Raunar eru sögurnar fleiri. Geymi þær til betri tíma.

Mynd nr. 1 er tekin í Móskarðshnúkum í hrakningaferð fyrir nokkrum árum.

Mynd nr. 2: Fimmvörðuskáli í þessari ferð sem ég er að reyna að dramatísera. 

Mynd nr. 3: Þarna náðum við til félaga minna sem voru hálfnaðir upp á Eyjafjallajökul og ég gat með naumindum fengið þá til að snúa við. 

Mynd nr. 4: Fjórir ríðandi á einum vélsleða. Þetta var fyndið. Myndin er tekin á leiðinni upp á Hálsinn.

Mynd nr. 5: Á leiðinni upp og niður af jökli festum við okkur nokkrum sinnum í lausamjöllinni. Þessi mynd er tekin við eitt slíkt óhapp. 

Mynd nr. 6: Á leiðinni upp á Hálsinn. 


mbl.is Fara ekki út fyrir minna en 10 m/s
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinmar Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilega frásögn. Það er alveg staðreynd að sjaldan er vellíðanin meiri heldur en eftir að maður er búinn að vera að basla úti í almennilegu skítviðri; það er hreinlega gott fyrir sál og líkama.

Kveðja frá Danmörku, þar sem stórviðri eru smá á Íslenzkan mælikvarða.

Steinmar Gunnarsson, 8.3.2013 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband