Laugardagsferð á Vífilsfell með tíkinni Mollí
2.3.2013 | 17:14
Við gengum upp í Vífilsfell í dag, tveir saman og einn hundur, Guðbergur og Mollí. Þegar við hringdum okkur saman í morgun sagði Bubbi það vissara að vera fyrr á ferðinni en síðar, spáð væri hvössum vindi eftir því sem á daginn liði.
Við álpuðumst þó ekki af stað fyrr en um klukkan eitt. Við félagarnir erum búnir að krossganga Vífilsfell á allan mögulegan hátt á síðustu tveimur árum. Við völdum suðausturhornið upp á sléttuna. Langt síðan maður hafði gengið þá leið.
Um fimm gráðu hiti var í Reykjavík og eiginlega úrkomulaust. Þegar við komum upp á Sandskeið tók að rigna og í Jósefsdal var hvasst og byrjað var að snjóa. Hetjur láta slíkt ekki á sig fá og við bröltum upp á sléttuna sem oft er svo kölluð en stendur ekki undir nafni nema fyrir það að hún er láréttari en aðrir hlutar fjallsins.
Þarna uppi hittum við þremenninga sem höfðu komið upp norðausturhornið og að móbergshryggnum á sama tíma og við. Við höfðum það á orði, fimmmenningarnir og hundstíkin, að margir fundir væru fámennari. Þeir lögðu svo í móbergið en snéru við skömmu síðar. Sögðu snjófannirnar vera of harðar og móbergið sleipt, vantaði brodda til að komast upp.
Raunar orðuðu þeir það þannig að ávinningurinn af lóðréttu brölti samsvaraði ekki erfiðinu sem í það væri lagt.
Fannst okkur, tvímenningunum og tíkinni, þetta vel ígrunduð hagfræði og ekki síður að geta brugðið henni fyrir sig í fjallgöngu og rökstutt þannig vel heppnað fráhvarf.
Skildu nú leiðir með okkur og við Bubbi og Mollí röltum vestur eftir sléttunni, sem þó er engin slétta, eins og áður var getið og ég tók myndir af svarthvítu landslaginu.
Svo skröltum við niður norðausturhornið og héldum inn í Jósefsdal þar sem við höfðum skilið bílinn eftir og var hann þar á sama stað, trúr og dyggur.
Svona fór um ferð þessa. Myndirnar skýra sig sjálfar en sagan þykir líkleg til næsta bæjar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.