Sannleikurinn í auglýsingu Íslandsbanka
26.2.2013 | 11:46
Mikið er ég óánægður með þessa fallegu auglýsingu sem Íslandsbanki hefur verið að birta að undanförnu í fjölmiðlum.
Myndin er líklega tekin frá Landakotsspítala og sýnir sólarupprási yfir Bláfjöllum, skemmt vestan við Vífilsfell.
Látið er líta út fyrir að stúlkan á myndinni sé heima hjá sér með þessu guðdómlega útsýni.
Staðreyndin er hins vegar sú að myndin er tekin með talsverðum aðdrætti sem skekkir allan raunveruleikann.
Því miður hef ég aldrei komið upp á efri hæðir í Landkotsspítala en það gerði faðir minn heitinn. Hann tók myndina hægra megin líklega árið 1966. Þá var Hallgrímskirkja í byggingu, Miðbæjarskólinn enn fullur af krökkum og flest með öðru yfirbragði en nú, en fjöllin eru eins. Þau hafa ekkert breyst.
Faðir minn tók myndina sína með 50 mm linsu sem sýnir nokkurn vegin það sem augað sér.
Ef ég stilli stúlkunni upp á svipaðan stað og í auglýsingunni miðað við Bláfjöll þá kemur í ljós að talsverður munur er á þessum tveimur myndum. Auglýsingamyndin er þrengri, af því að hún er tekin með aðdráttarlinsu. Auglýsingin er því ósönn að þessu leyti.
Í dag er getur enginn verið viss um neitt á ljósmyndum. Raunveruleikinn er teygður og togaður og öllu logið til sem hægt er til hann hæfi boðskapnum. Ég er ekki einu sinni viss um að sólarupprásin sé rétt, hún getur þess vegna hafa verið fótósjoppuð rétt eins og stúlkunni er skellt inn á myndina með því forriti.
Auglýsingin er hins vegar fagmannlega unnin, ekki vantar það, og yfirbragð hennar er afskaplega hlýlegt. Gallinn er bara skortur á raunveruleika, ef svo má segja.
Þegar öllu er nú á botninn hvolft fá bankarnir líklega mesta gagnrýni fyrir að þeir séu ekki í nægum tengslum við þann raunveruleika sem ásækir okkur almenning.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.